Stjórnmálakona á barmi örvæntingar?

isg4.jpgÓnefndur knattspyrnumaður frá Akranesi, sem gerðist sekur um óþarft og illgjarnt brot á knattspyrnuvellinum seint á 8. áratugnum, varð svo að orði við það tækifæri: „Betra er illt að gera, en að gera ekki neitt.“ Örvæntingarfullir stjórnmálamenn eru kannski í þeirri stöðu að geta tekið undir þessi orð.

Ónefndur knattspyrnumaður lét svo ummælt eftir óþarft og illgjarnt brot á knattspyrnuvellinum: „Betra er illt að gera, en að gera ekki neitt.“ Örvæntingarfullir stjórnmálamenn geta kannski tekið undir þessi orð.

Á fundi borgarstjórnar sl. fimmtudagskvöld lét Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarfulltrúi R-listans, þau orð falla að oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, væri að ganga erinda tiltekinna verktaka þegar hann gagnrýndi stefnu R-listans í lóðamálum. Ósvífnin sem felst í þessum orðum Ingibjargar Sólrúnar eru til marks um örvæntingu hennar sem stjórnmálamanns, örvæntingu yfir eigin stöðu.

Fyrir ekki mjög löngu síðan var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri í Reykjavík og naut virðingar og trausts meira að segja út fyrir raðir sinna eigin stuðningsmanna, hvort sem sú virðing var verðskulduð eða ekki. Á aðeins tíu mánuðum hefur vonarstjarnan dofnað og nú er Ingibjörg Sólrún aðeins hjáróma rödd í íslenskri stjórnmálaumræðu. Hún á sér dyggan en lítinn hóp stuðningsmanna innan Samfylkingarinnar og áhrif hennar eru í besta falli hverfandi.

Á sama tíma hafa forystumenn Samfylkingarinnar slegið nýjan tón í þingbyrjun. Össur Skarphéðinsson, sem aldrei hefur staðið jafn sterkt að vígi, sýnir á sér ábyrgu og yfirveguðu hliðina á meðan svilkona hans hefur ekkert til málanna að leggja nema svívirðingar og staðhæfulausar aðdróttanir í garð andstæðinga sinna.

Ekki verður heldur sagt að hún hafi valið vettvang árása sinna af kostgæfni. Lóðaskortur í Reykjavík dylst engum skyni gæddum manni og málefnastaða oddvita sjálfstæðismanna í þessu máli er afar sterk. Fyrir fáeinum mánuðum var staða Ingibjargar Sólrúnar slíkt að hún gat leyft sér þessar aðgerðir, hún gat leyft sér að bægja óþægilegum málum frá með innihaldslausum yfirlýsingum og kómískum útúrsnúningum.

Þessi tími er að baki, og um leið og áhrif yfirlýsinganna minnka verða þær stóryrtari og svæsnari. Þessu má í raun líkja við stöðu lyfjaneytanda; eftir því sem líður á neysluna þarf hann sífellt stærri skammt, án þess þó að ná nokkru sinni þeim áhrifum sem hann upplifði fyrst. Neyslan heldur áfram í örvæntingarfullri leit að þessum upphaflegu áhrifum. Með hverju örvæntingarfullu upphlaupinu fellur gengi Ingibjargar Sólrúnar sem stjórnmálamanns.

Þannig stefnir vonarstjarna íslenska vinstrimanna hraðbyri inn öngstræti íslenskra stjórnmála. Því var haldið fram í aðdraganda síðustu kosninga að tími Ingibjargar Sólrúnar væri ekki kominn, en nú bendir flest til þess að hann sé einfaldlega liðinn.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.