Aðalfundur Heimdallar

Aðalfundur Heimdallar fór fram í gær. Á þeim fundi var, venju samkvæmt, kjörin ný stjórn félagsins. Í aðdraganda fundarins hafði fráfarandi stjórn hins vegar frammi fordæmislaus vinnubrögð sem vart geta annað en grafið undan trú félagsmanna að vilji til þess að virða lýðræðislegan vilja félagsmanna hafi verið til staðar.

Aðalfundur Heimdallar hefur vakið nokkra athygli á síðustu dögum og vikum. Tveir listar höfðu lýst yfir framboði til starfa í þágu félagsins og hafði annað framboðið unnið hörðum höndum að því í aðdraganda fundarins að fá sem flest ungt fólk til liðs við félagið. Þetta fólk ákvað að ganga til liðs við Heimdall, m.a. til þess að stuðla að breytingum á félaginu með því að kjósa nýtt fólk þar til forystu.

Eins og fram hefur komið í yfirlýsingum frá framboði Bolla Thoroddsen töldu frambjóðendur að gróflega hefði verið brotið á þeim og stuðningsmönnum framboðsins þegar stjórn Heimdallar ákvað að fresta því að veita rúmlega eitt þúsund einstaklingum aðild að félaginu. Rökstuðningur Magnúsar Þórs Gylfsonar, fyrrum formanns sem ásamt fráfarandi stjórn hafði opinberlega lýst yfir stuðningi við mótframboð Bolla, var á þá leið að grunur hefði leikið á því að hluti þeirra sem skráð sig hefðu í flokkinn hafi ekki veitt samþykki sitt fyrir slíkri skráningu.

Í grein eftir Bolla Thoroddsen í Morgunblaðinu í dag er fullyrt að þessar ásakanir eigi ekki við rök að styðjast. Allir þeir sem skráðu sig í flokkinn á vegum framboðs hans höfðu veitt samþykki fyrir skráningunni og lýst áhuga sínum á að taka þátt í starfi félagsins með því að styðja framboð hans í kosningum á aðalfundi.

Ljóst er að símhringingar frá framkvæmdastjóra SUS, sem framkvæmdar voru að beiðni fráfarandi formanns Heimdallar, þar sem nýskráðir félagar í Heimdallir voru m.a. inntir eftir því hvort þeir hyggðust vera ævilangt í Sjálfstæðisfloknum, voru eingöngu til þess gerðar að skapa tylliástæðu til að hafna umsóknum þeirra ríflega eitt þúsund einstaklinga sem ætluðu sér að styðja framboð Bolla Thoroddsen til forystu í félaginu. Þetta háttalag er vitaskuld óskiljanlegt í ljósi þess að almennt mætti ætla að það væri eftirsóknarvert markmið forystu ungra sjálfstæðismanna að laða að sér sem flesta nýja félagsmenn.

Óréttlæti því, sem beitt var af stjórn Heimdallar, í aðdraganda aðalfundar í gær, verður ekki kyngt þegjandi. Sá hópur fólks sem beittur var órétti í gær mun áfram berjast fyrir því að ungliðahreyfing Sjálfstæðisflokksins taki breytingum, og snýst það ekki aðeins um málefni heldur einnig, sérstaklega eftir ósvinnuna í gær, um vinnubrögð.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)