Breski fasteignamarkaðurinn: Erfiður fyrir nýja kaupendur

Frá 1997 hefur mikill kraftur einkennt íslenska fasteignamarkaðinn. Á undanförnu ári hefur nafnverð fasteigna hækkað um 14% sem er langt umfram verðbólguhækkun. Það er forvitnilegt að skoða breska fasteignamarkaðinn í samanburði við þann íslenska en þeir eiga sumt sameiginlegt en annað ekki.

Á Bretlandseyjum hefur fasteignaverð farið heldur hækkandi þrátt fyrir að nokkurn samdrátt í efnahagslífinu. Meðalhækkun fasteignaverðs var um 12,5% í Englandi og Wales frá júní 2002 til sama mánaðar á þessu ári. Íbúðaverð í miðhéruðum Englands (Midlands), einkum í stóru borgunum Birmingham, Coventry, Nottingham og Leicester, hafði um mitt þetta ár hækkað um 25% frá sama tíma í fyrra. Þar var meðalverð íbúðar um 15,1 millj. kr. Ef litið er til annarra svæða þá hafði íbúðaverð hækkað minnst á Stór-Lundúnasvæðinu þar sem um 6% hækkun var að ræða.

Meðalíbúðin í höfuðborginni kostaði hins vegar hvorki meira né minna en um 31 millj. kr. Þótt færri fasteignir hafi skipt um hendur á umræddu tímabili er ágætur vöxtur í viðskiptum með eignir sem kosta eina milljón punda og meira. Einu sinni á dag pungar einhver út 125 milljónum króna til að festa kaup á rándýrri eign í höfuðborginni.

Unga fólkið í krísu

Þeir sem eru kaupa fasteignir á Íslandi í fyrsta skipti verða áþreifanlega varir við að verð íbúða er hátt. Eigið fé nýrra kaupenda þarf að vera á bilinu 2-3,5 milljónir fyrir tveggja til þriggja herbergja íbúð svo framarlega sem kaupandi taki á sig aðeins 70% húsbréfalán. Það hefur þó ekki hindrað ungt fólk frá því að kaupa sér sína fyrstu íbúð, enda er aðgangur að lánsfé góður hér á landi. Í Bretlandi hefur unga fólkið aftur á móti dregið úr húsnæðiskaupum. Fyrstu fimm mánuði ársins dró mjög úr fasteignakaupum nýrra fasteignaeigenda og hafði Tjallinn aldrei upplifað annað eins í maí sl. Urðu menn að fara nokkra áratugi aftur í tímann til að finna jafn lítinn fjölda þeirra sem voru að koma sér þaki yfir höfuðið í fyrsta sinn.

Tölur sýna að meðalverð íbúðar þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð er um 12,5 milljónir kr. en var aðeins 5,7 milljónir kr. fyrir áratug. Það sama er uppi á teningnum hér heima. Meðalútborgun þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð er um 2,8 milljónir kr. Hefur sú tala hækkað úr 810.000 kr. frá 1998! Þetta hefur leitt til þess að nýir íbúðaeigendur þurfa í vaxandi að leita á náðir foreldra eða ættingja til að hjálpa til við fjármögnunina.

Datamonitor, breskt markaðsrannsóknarfyrirtæki, hefur bent á að árið 1998 skuldsettu nýir kaupendur sig fyrir 83% af kaupverði íbúðar en í upphafi þessa árs tók sami hópur lán fyrir 77% af kaupverðinu. Það er vísbending um að kaupendahópurinn sé fjársterkur.

Fyrirtækið hefur bent á leiðir til að laða nýja fasteignakaupendur að markaðnum. Mikilvægt skref gæti verið að hið opinbera styrkti verktaka til að byggja gott húsnæði á sanngjörnu verði þannig að meira framboð húsnæðis héldi verðþróuninni niðri. Einnig ættu stærri lánveitendur að feta í fótspor minni banka og bjóða nýjum kaupendum hagstæð lánskjör þar sem tekið yrði tillit til meiri tekna kaupenda í framtíðinni. Ennfremur mætti auka lánveitingar með ábyrgðarmönnum í stað fasteignaveðs.

Allir á leigumarkaðinn

Ýmis teikn eru á lofti um að þróunin sé að snúast til betri vegar. Umtalsverð aukning var í fasteignaviðskiptum nýrra fasteignaeigenda í júní og júlí skv. tölum breskra fasteignasala. Á síðasta ári voru nýir íbúðakaupendur fjórðungur þeirra sem versluðu með húsnæði, í maí á þessu ári voru þeir aðeins 14% en eru hægt og bítandi að auka hlutdeild sína og voru 17% í júlí. Eru það ekki skýr merki um bjartsýni þessa hóps?

Enn er þó sterk tilhneiging meðal ungs fólks að leigja í stað þess að kaupa sér íbúð þrátt fyrir að vextir á íbúðalánum hafi sjaldan eða aldrei verið jafn lágir. Ekki er ósennilegt að Íslendingar í sömu sporum hugsi sig um hvort ekki sé orðið hagstæðara að leigja en kaupa miðað við þróun fasteignaverðs hér á landi.

Latest posts by Eggert Þór Aðalsteinsson (see all)