Láttu ekki þitt eftir liggja..

Í Lindh harmleiknum sænska hefur mikið verið rætt um niðurstöður DNA prófa sem skorið gætu úr um hvort réttur maður sitji í haldi lögreglu grunaður um ódæðið. Er snilldarlegri og óskeikulli tækni á stundum ef til vill gefið fullmikið vald?

Fréttir af framgangi rannsóknar á morðinu á Önnu Lindh utanríkisráðherra Svía hafa undanfarna viku verið ofarlega á baugi. Beðið hefur verið með óþreyju eftir niðurstöðu DNA rannsókna, sem staðfest gætu þátt þess grunaða í harmleiknum. Þær hafa ekki enn verið látnar uppi og því líkum að því leitt að annað hvort hafi lífsýnið sem fannst við morðstaðinn ekki verið nægilega gott, eða því að sýnið hafi ekki passað þeim grunaða.

Hvað sem því líður þá er óneitanlega magnað að með einu slíku prófi sé með óyggjandi hætti annaðhvort hægt að tengja grunaðan við glæp eða hreinsa hann. En í því felst einmitt fegurðin, að erfðaefni hvers og eins er einstakt, og því ekki hægt að véfengja niðurstöður. Í ljósi afgerandi niðurstaðna, sem í alvarlegri tilfellum gætu skilið milli lífs og dauða, verða því allar reglur um meðferð sýna, sýnatöku og vörslu þeirra að vera gríðarlega nákvæmar.

DNA rannsóknirnar, eða samanburðarrannsóknirnar ganga einfaldlega út á það að lífsýni er tekið af grunuðum einstaklingi og borið saman við sýni sem finnast á brotavettvangi. Tæknin er ung, en fyrsta sakamálið sem byggt var á slíkum rannsóknum var gerð í Bretlandi árið 1987, en á Íslandi var fyrst notast við samanburðarrannsóknir í nauðgunarmáli 1989. Þrátt fyrir það eru aðeins örfá ár síðan að á Íslandi voru settar afgerandi reglur um sýnatöku, skrásetningu sýna og vörslu þeirra.

Beiting samanburðarrannsókna hefur á skömmum tíma, í ljósi óumdeilanlegs notagildis, aukist verulega við úrlausn alvarlegri sakamála, t.d kynferðisbrota, líkamsárása og manndrápa. Í þessum tilvikum eru einmitt hvað mestar líkur á því að afbrotamenn skilji eftir sig einhver líffræðileg ummerki, t.d blóð, saur, sæði, fingrafar, munnvatn eða hár.

Annað notagildi og ekki síðra er þegar hægt er að beita tækninni til að hreinsa dæmda fanga af áburði. Á undanförnum árum hefur verið sýnt fram á sakleysi fjölda dæmdra einstaklinga. Í Bandaríkjunum hafa nú, m.a.í kjölfar krossferðar Peter Neufeld lögfræðings, ‚The Innocence Project’, um 130 manns verið hreinsaðir,en þar af biðu 12 dauðarefsingar. Neufeld segir jafnframt að út frá árangri sínum megi gefa sér það að í fangelsum landsins sitji enn einhverjar þúsundir saklausra.

Það er vissulega gleðiefni þegar framfarir í vísindum sýna sig á svona áþreifanlegan hátt. En um leið og samanburðurinn er óskeikull, er aðferðinni kannski gefið fullmikið vald, þar sem endalaust geta komið inn villandi þættir, eins og t.d mannleg mistök.

Í frekari pælingum um nákvæmar sýnatökur af brotastað, þá smæð af sýni af líffræðilegum toga sem þarf til, og að lokum óumflýjanlega bendlun við glæp ef að allt passar, er ekki laust við að frasinn um að láta ekki sitt eftir liggja fái nýja og dýpri merkingu.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.