Hvers eiga frístundafiskimenn að gjalda?

Séra Karl V. Matthíasson er hetja dagsins. Þetta kom fram í DV um helgina. Samhliða því að vera prestur í Setbergsprestakalli gegnir Karl Valgarður starfi alþingismanns, en þessi tvö tímafreku embætti eru þó engan veginn nóg til að tæma starfsorku Samfylkingarhetjunnar að vestan.

Séra Karl V. Matthíasson er hetja dagsins. Þetta kom fram í DV um helgina. Samhliða því að vera prestur í Setbergsprestakalli gegnir Karl Valgarður starfi alþingismanns, en þessi tvö tímafreku embætti eru þó engan veginn nóg til að tæma starfsorku Samfylkingarhetjunnar að vestan. Á öðrum tímum sólarhringsins og ársins – þegar minna er að gera í hinum tveimur störfunum – rær hetjan til fiskjar á lítilli fleytu. Karl Valgarður er nefnilega líka smábátasjómaður – utan kvóta.

Ástæða hetjunafnbótarinnar í DV er líklega sú, að Karl Valgarður hefur barist hatrammlega gegn því, að smábótasjómönnum verði gert að sæta því harðræði, að hlíta sömum reglum um fiskveiðar og aðrir sjósóknarar. Þessi lagasetning leggst eðlileg þungt á Karl Valgarð, en eins og kunnugt er mun lögunum beinlínis vera stefnt gegn því að einstakir menn – að ógleymdum heilu byggðarlögunum – geti framfleytt sér á fiskveiði utan kvóta.

Deiglan þekkir reyndar sögu annars ónafngreinds smábátasjómanns af Vestfjörðum, sem einnig veiðir utan kvóta. Sá vinnur á olíuborpalli í Norðursjó tvær vikur í senn og á frí næstu tvær. Menn sem vinna á olíuborpöllum hafa víst afskaplega lítið upp úr krafsinu og því rær hann til fiskjar á frívöktum til þess að fjölskylda hans líði ekki skort. Það segir sig sjálft, að ekki er bjart framundan hjá þessum manni.

Þetta eru aðeins tvö af mýmörgum dæmum um menn sem verða fyrir miklum skakkaföllum vegna þeirrar ákvörðunar stjórnvalda, að sömu reglur skuli gilda um þá og aðra sem veiða fisk við strendur Íslands. Það er náttúrlega alveg út í hött, að menn sem stunda fiskveiðar í frístundum – eins og hetja dagsins – skuli ekki hafa meira frelsi til að veiða fisk, en þeir menn sem hafa sjósóknina að aðalatvinnu – eða er það ekki?

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.