RÚV, Skjár 1, Deiglan og Los Angeles Lakers

Stundum eru það hvorki peningar né vinnuaðstaða sem ráða mestu um árangur fyrirtækja og stofnanna.

Flestum sem fylgjast með NBA deildinni í körfuknattleik ætti nú að vera ljóst að Los Angeles Lakers hefur mikla yfirburði í deildinni um þessar mundir og ekkert mun koma í veg fyrir að félagið landi öðrum meistaratitli sínum í röð. Í fyrradag sigraði liðið San Antonio Spurs í fjórða skiptið í röð og hefur því unnið ellefu fyrstu leikina í úrslitakeppninni í ár. Þetta er frábær árangur. Einungis einu sinni áður hefur lið komist alla leið úr úrslit án þess að tapa leik. Það var árið 1989 þegar Lakers, með “Magic” Johnson í fararbroddi vann ellefu fyrstu leikina en tapaði svo í fjórum leikjum fyrir Detroit Pistons í úrslitunum.

Það sem er áhugavert við árangur Lakers er ekki síst að sú staða skuli vera komin upp að tveir allra bestu leikmenn deildarinnar, Kobe Bryant og Shaquille O´Neal, skuli leika í sama liði. NBA deildin er nefnilega ekki eins og knattspyrnudeildir Evrópu þar sem ríkustu félögin geta keypt til sín þá leikmenn sem þeim sýnist. Öll liðin í NBA deildinni hafa jafnmikla möguleika til þess að fá til sín leikmenn, enda þurfa þau að lúta reglum um hámarkslaunagreiðslur, þ.e. heildarlaunagreiðslur til leikmanna mega ekki fara yfir ákveðið þak. En þrátt fyrir þessa jöfnunaraðgerð þá eru það sömu liðin sem standa sig vel ár eftir ár. Málið er nefnilega að leikmenn og þjálfarar velja frekar að starfa í umhverfi sem býður upp á dýnamík og árangur heldur en að eingöngu peninga. Þess vegna er það ekki óalgengt að NBA leikmenn fórni stórum launaupphæðum til þess að fá tækifæri til þess að leika með stærstu liðunum og upplifa það andrúmsloft sem þar er að finna.

Nú fyrir skömmu kom í ljós að starfsmenn Ríkisútvarpsins eru ekki sérstaklega ánægðir með vinnustað sinn. Vafalaust munu sumir telja að nærtækasta lausnin sé að hækka launin , kaupa nuddpotta í kjallarann og halda fleiri starfsmannafundi. En peningar og lúxus eru ekki alltaf nóg til þess að gera starfsmenn ánægða. Frumkvöðlaandi, samkeppni og sköpunargleði eru það sem fólk þrífst á. Ég er t.a.m. sannfærður um að ef sambærilega hamingjukönnun hefði verið gerð á Skjá einum þá hefði komið í ljós að starfsmenn þar væru mun hamingjusamari í vinnunni heldur en kollegar þeirra í RÚV og að launakjör hefðu þar lítið um að segja. Þess má að lokum geta að skríbentar hér á Deiglunni eru launa- og fríðindalausir með öllu en njóta þess samt sem áður út í ystu æsar að þræla sér út og taka þátt í vexti og viðgangi Deiglunnar, enda stefnum við á að vera Los Angeles Lakers íslenskra netmiðla.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.