Drekinn í austri með klærnar á lyklaborðinu

Windows stýrikerfið hefur mikla yfirburðastöðu á markaðnum. Að hluta til kemur þetta til vegna þess að tölvunotendur hafa engu öðru vanist. Nú gæti Microsoft hins vegar mætt alvarlegri samkeppni þar sem áætlanir eru uppi um að smíða nýtt stýrikerfi sem fengi mikla dreifingu í Kína, sem er enn lítt plægður akur í upplýsingatækninni.

Fyrir skömmu birtist hér á Deiglunni pistill um þá markaðsráðandi stöðu sem Windows stýrikerfið frá Microsoft hefur. Fjallað var um að stýrikerfið hefði yfirgnæfandi markaðshlutdeild og að aðra raunverulega valkosti vanti.

Nú gæti hins vegar horft til tíðinda í þessum efnum. Í síðustu viku var tilkynntur samningur milli Japan, Kína og Suður-Kóreu sem felur í sér samvinnu þessara landa við að þróa nýtt stýrikerfi sem ætlað er að bjóða Microsoft Windows birginn.

Stýrikerfið verður byggt á Linux stýrikerfinu sem fjallað hefur verið um áður hér á Deiglunni. Með nýja stýrikerfinu er ætlunin að draga úr kostnaði sem fylgir dýrum leyfum frá Microsoft. Einnig er horft til aukins öryggis og stöðugleika en Windows hefur verið réttilega gagnrýnt fyrir öryggisbresti og stöðugleikavandamál. Stefnt er að því að forritunarkóðinn fyrir stýrikerfinu verði öllum opinn líkt og í Linux kerfinu.

Margar ástæður eru fyrir því að erfitt er að keppa við Windows stýrikerfið. Tölvukunnátta almennings byggist að miklu leyti á þekkingu á Windows kerfinu og Office pakkanum auk þess sem til staðar er mikil þekking sérfræðinga á að setja upp og reka kerfi sem keyra á Windows.

Mikill tími og miklir peningar færu í að kenna fólki á nýtt stýrikerfi og forrit því tengdu. Einnig hefur þróun síðustu ára leitt af sér að mikill meirihluti hugbúnaðar sem framleiddur er í heiminu er hannaður fyrir Windows sem veitir þeim sem vilja nota þann hugbúnað lítið val um stýrikerfi.

Talið er að hið nýja stýrikerfi Kínverja, Suður-Kóreumanna og Japana geti átt sérstakt erindi á hinn gríðarstóra Kínamarkað. Þar er almenn tölvueign lítil og þekking skammt á veg komin. Þar gætu legið tækifæri nýja stýrikerfisins til að ná fótfestu því erfitt er að ná fótfestu á rótgrónum mörkuðum þar sem þekking á Windows stýrikerfinu er mikil. Ef kerfið nær fótfestu á þessum stóra markaði þá myndast grundvöllur fyrir sjálfstæð hugbúnaðarfyrirtæki að hefja framleiðslu á hugbúnaði fyrir stýrikerfið og þar með gæti það nálgast að verða samkeppnishæft við Windows.

Bent hefur verið á Linux sem möguleika í vali á stýrikerfi en þær útgáfur, sem nú eru fyrir hendi, eiga enn nokkuð í land með að verða nógu notendavænar til að eiga möguleika á að ná mikilli dreifingu. Annar kostur sem vert er að taka eftir er MAC OS X stýrikerfið frá Apple þó það sé að vísu ekki ódýrari kostur en Windows. Apple kynnti MAC OS X til sögunnar í mars 2001 sem stýrikerfi númer tvö frá fyrirtækinu (fyrra stýrikerfið fylgdi með fyrstu Macintosh tölvunum 1984).

MAC OS X sameinar að mörgu leiti kosti Windows og Unix/Linux. Það er auðvelt í notkun eins og stýrikerfi frá Macintosh hafa verið þekkt fyrir en kjarninn í kerfinu er byggður á Unix sem gefur stöðugleika og kraft. Macintosh hefur lengi verið þekkt meðal þeirra sem fást við umbrot, mynd eða hljóðvinnslu sem besti kosturinn. Með MAC OS X nær Apple til nýrra hópa s.s. til vísindamanna sem vilja ekki þurfa að hafa áhyggjur af tæknilegum málum en vilja samt þann kraft og sveigjaleika sem Unix/Linux kerfi hafa boðið upp á.

Vonandi sjáum við fram á framtíð þar sem almennir tölvunotendur eiga raunverulega valkosti í vali á stýrikerfi. Það er auk þess öryggisatriði að tölvukerfi heimsins séu ekki öll keyrð á sama stýrikerfinu og því nauðsynlegt að aðrir valmöguleikar séu til staðar ekki síst með tilliti til skæðra árása tölvuorma og vírusa eins og nýleg dæmi sýna.

Latest posts by Snæbjörn Gunnsteinsson (see all)