Böðullinn boðinn velkominn

luogan.jpgLuo Gan, einn æðsti yfirmaður löggæslumála í Alþýðulýðveldinu Kína er staddur hér á landi í sérstakri heimsókn. Hann hyggst kynna sér land og þjóð og styrkja samband ríkjanna. Þó að hér gefist tækifæri á að koma okkar sjónarmiðum á framfæri er varða mannréttindi, er hætt við því að talað verði fyrir daufum eyrum böðuls.

luogan.jpgÍ dag stendur yfir Íslandsheimsókn Luo Gan, eins æðsta yfirmanns löggæslumála í Alþýðulýðveldinu Kína. Hann hyggst kynna sér land og þjóð og styrkja samband Íslands og Kína í kjölfar heimsóknar forseta Kína, Jiang Zemin síðasta sumars. Í ljósi þess að íslensk stjórnvöld stóðu sig „eindæma vel“ í að taka vel á móti forsetanum þarf ekki að undra sig á því að kínverskum ráðamönnum sé það í mun að halda við góðu sambandi ríkjanna tveggja. Íslenska stjórnin bauð forstetann velkominn og meinaði Falun Gong fylgismönnum landgöngu.

Þessi heimsókn rifjar óneitanlega upp fjaðrafok síðasta sumars og vekur upp nokkrar spurningar. Koma Luo Gan er reyndar ekki opinber heimsókn líkt og þegar forsetinn kom forðum daga. En hann nýtur gestristni íslenskra yfirvalda á meðan dvölinni stendur.

Luo Gan er mjög valdamikill í Kína. Hann réð yfir lögreglu og öryggismálum þegar blóðið á Torgi hins himsneska friðar átti sér stað 4. júní 1989. Síðan þá hefur hann klifið metorðastigann og er einn áhrifamesti ráðamaður í Kína. Hann hefur handtekið mikinn fjölda andófsmanna og þykir íhaldssamur þegar kemur að pólitík.

Luo Gan er þó talsmaður nútímalegra stjórnunarhátta og er hingað kominn til að ræða við íslenska ráðamenn. Hann snæddi til að mynda hádegisverð með Birni Bjarnasyni dóms- og kirkjumálaráðherra í dag og mun hitta forseta Hæstaréttar, Guðrúnu Erlendsdóttur. Hér er kærkomið tækifæri fyrir okkur að koma sjónarmiðum okkar á framfæri er varða vestræna stjórnunarhætti og mannréttindi.

Með mótmælum Amnesty International í dag er verið að vekja athygli almennings á ástandinu í Kína og því ofbeldi sem pólitískum andófsmönnum er þar sýnt. Það er þarft að vekja athygli á þessum málum og rifja upp þá sorglegu atburði sem áttu sér stað 1989.

Það er vissulega þarft að stuðla að góðum samskiptum landanna. Ýmsir hagsmunir eru í húfi, bæði hvað varðar ferðaþjónustu og ýmis menningarleg samskipti. Þá má ekki gleyma að Íslendingar hafa undanfarið átt kost á að ættleiða börn frá Kína. Útflutningur er þó ekki mikill til Kína, en hann skipar sáralítinn hluta af heildarútflutningi Íslands. Þá er það staðreynd að Kína er mikið iðnaðarstórveldi og gott dæmi um það er að helmingur allra skóa í heiminum er framleiddur þar.

Aðild Luo Gan að atburðunum á Torgi hins himneska friðar gerir hann að ofbeldismanni. Þó að hér fáist tækifæri á að koma okkar sjónarmiðum á framfæri við einn valdamesta mann Kína sem tilheyrir nýrri kynslóð æðstu ráðamanna þar, þá er hætt við því að talað verði fyrir daufum eyrum böðuls sem stóð að einum eftirminnilegustu ofbeldisverkum gegn mannréttindum og frelsi.