Vatn fyrir alla

Rúmlega einn milljarður manna hefur ekki aðgang að nægu hreinu vatni til drykkjar og enn fleiri búa við óásættanleg gæði vatns til annarra nota. Þetta skapar félagsleg, efnahagsleg og ekki síst alvarleg heilbrigðisvandamál.

Rúmlega einn milljarður manna hefur ekki aðgang að nægu hreinu vatni til drykkjar og enn fleiri búa við óásættanleg gæði vatns til annarra nota. Þetta skapar félagsleg, efnahagsleg og ekki síst alvarleg heilbrigðisvandamál.

Vandamálið er ekki eins og stundum er haldið fram að heimurinn í heild standi frammi fyrir yfirvofandi vatnsskorti. Nóg er nefnilega til af vatni í heiminum meira en við getum hugsanlega þurft á að halda um alla framtíð. Ferskt vatn er endurnýjanleg auðlind. Hringrás vatnsins er vel þekkt. Vatn gufar upp úr söltu hafinu, þéttist og myndar ský sem úr rignir fersku vatni á land og rennur þaðan aftur til sjávar þar sem ferlið endurtekur sig á ný.

Vandamálið er margþætt en ástæða þess að það hefur orðið að vandamáli af þessari stærðargráðu er í grunnatriðum tvennt annars vegar það að sum staðar er vatn af náttúrulegum ástæðum af skornum skammti og hins vegar það að illa er farið með það vatn sem þó er til staðar.

Víða eins og hér á landi er nóg til af vatni en annars staðar er lítið sem ekkert vatn að hafa. Stór hluti Afríku, Ástralía og hluti Kína búa við skilyrði þar sem uppgufun er mikil og úrkoma er lítil. Annars staðar er úrkoman afar árstíðarbundin úrhellisrigning í nokkra daga á ári en þurrkur þess á milli. Þessi ójafna dreifing og það að ekki er raunhæft að flytja vatn langar leiðir eins og til dæmis gert er með olíu gerir það að verkum að svæðisbundinn vatnskortur myndast sem hefur í för með sér staðbundin félagsleg og efnahagsleg vandamál. Félagslegu vandamálin valda því að erfiðar er að stýra og hafa stjórn á vatnsnotkuninni. Efnahagslegu vandamálin valda því að ekki er hægt að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir svo sem stíflugerð eða grafa brunna til þess að auka framboðið af fersku vatni.

Hinn vandinn er sá að illa er farið með vatn. Ein helsta skýringin á því er að vatn er ekki verðlagt rétt heldur gefið eða selt undir raunverulegu verðmæti þess. Lágt vatnsverð undir raunverulegu verðmæti þess leiðir óhjákvæmilega til sóunar. Vatnið er í raun oft ókeypis sem leiðir til ofnotkunar á ákveðnum sviðum en algjörum skorti á öðrum mikilvægari. Þar sem vandinn er mestur og fólk er að deyja sökum vatnsskorts fer í raun aðeins brot af vatninu til lífsnauðsynlegra verkefna.

Það kann að hljóma undarlega að ein af megin ástæðum vandans sé það að vatn sé of ódýrt. En tilfellið er að of ódýrt vatn leiðir til þess að því sé varið til ónauðsynlegra verkefna. Fátækasta fólkið sem býr við mestan skort ver auðvitað öllu því sem það á og leggur mikið á sig til þess að útvega sér það enda er vatnið bókstaflega lífsnauðsynlegt. En það er ekki það sem sóar vatninu. Það eru fyrst og fremst betur stæðir bændur sem hafa betri aðgang að vatninu sem sóa því. Væri vatn verðlagt nær raunverulegu virði sínu myndi vatnsnotkunin breytast og leiða til skynsamlegrar nýtingu þess þannig að framboð til mikilvægustu notanna myndi aukast.

Skortur á hreinu vatni er stærsta heilbrigðisvandamál heimsins. Yfir helming sjúkdómstilfella má rekja beint til skorts á hreinu vatni. Það eitt gerir það óskiljanlegt að lítið sem ekkert hafi verið gert til að leysa vandamálið hingað til. Nú virðast menn þó vera að vakna og átta sig þetta ástand er ekki ásættanlegt. Sameinuðu þjóðirnar hafa útnefnt árið í ár Ár vatnsins. Það er gert í kjölfar ráðstefnunnar í fyrra í Jóhannesarborg um sjálfbæra nýtingu auðlinda þar sem samþykkt var ályktum um að stefna að því að fækka fólki án aðgangs að hreinu vatni um helming fyrir árið 2025.

Til að ná þessu markmiði þarf bæði fjármagn og aðgerðir. Við á vesturlöndum höfum ríka skyldu að koma að lausn vandans. Við höfum bæði fjármagn til þess að grafa brunna, búa til skólphreinsunarstöðvar og reisa stíflur og jafnframt alla þá þekkingu sem þarf til að leysa þetta vandamál. En mikilvægust er sú siðferðislega skylda sem hvílir á öllum að bera virðingu fyrir lífi annarra. Það ætti því að vera sjálfsagt að við veitum þá aðstoð sem svo augljóslega er þörf á. Vatnsvandinn er eitt af fáum umhverfisvandamálum sem er leysanlegt. Enginn ætti að þurfa að deyja vegna skorts á hreinu vatni.

Latest posts by Eðvarð Jón Bjarnason (see all)