Pharmaco – óskabarn þjóðarinnar

Pharmaco er í dag stærsta fyrirtæki landsins og er áætlað verðmæti þess nú metið um 83 milljarða í Kauphöll Íslands. Vöxtur fyrirtækisins hefur verið með ólíkindum á allra síðustu árum og stefnir í að ekkert lát verði á því þar sem enn frekari útrás er á dagskrá þess.

Nú á dögunum bárust fréttir af því að breytingar yrðu á eignarhaldsfélögum Björgólfsfeðga, þannig að verkaskipting yrði með skýrari hætti en áður. Björgólfur eldri segist hafa siglt þann krappa sjó sem áhættusamar fjárfestingar með hárri ávöxtunarkröfu eru. Nú kjósi hann hinsvegar lægri öldur og tryggari heimkomu, og segir að það sé meira að skapi yngri manna að stunda áhættusamar fjárfestingar. Hann mun því einbeita sér að innanlandsmarkaði sem stjórnarformaður Landsbankans. Björgólfur yngri hyggur hins vegar á enn frekari strandhögg á erlendri grundu með fyrirtækið Pharmaco ásamt félaga sínum Magnúsi Þorsteinssyni.

Sögu Pharmaco má rekja allt aftur til ársins 1956 þegar fyrirtækið var stofnað af sjö apótekurum sem vildu með því koma á umbótum í lyfjaverslun, en þá ríkti tími hafta- og skömmtunarstefnu. Í fyrstu var félagið innkaupasamband en strax um 1960 hófst framleiðsla á lyfjum. Á áttunda áratugnum varð Pharmaco umboðsaðili fjölmargra þekktra lyfjafyrirtækja og árið 1981 stofnaði fyrirtækið Delta, ásamt hópi lyfjafræðinga, til framleiðslu á sérlyfjum sem íslenskir framleiðendur máttu nú skrá. Delta var skilið frá Pharmaco til að fyrirbyggja hagsmunaárekstra árið 1992, en tíu árum síðar keypti Pharmaco aftur meirihluta í Delta og sameinaðist því þannig að úr varð stærsta fyrirtæki landsins.

Björgólfsfeðgar eignast Pharmaco

Íslenskur lyfjamarkaður er að sjálfsögðu ekki stór og því hafa stjórnendur Pharmaco leitað út fyrir landsteinana. Árið 2000 urðu miklar breytingar á fyrirtækinu þegar það keypti og rann saman við við búlgarska lyfjaframleiðslufyrirtækið Balkanpharma. Frumkvæðið að þessum viðskiptum kom frá Deutsche Bank og Björgólfi Thor, sem þá rak bjórverksmiðjuna Bravo í Pétursborg í Rússlandi ásamt fyrrgreindum Magnúsi. Hann stofnaði fjárfestingarsjóð ásamt Pharmaco og fór til samningaviðræðna við búlgörsku einkavæðingarnefndina. Úr varð að Pharmaco eignaðist 45% hlut í Balkanpharma, Deutsche Bank 45% hlut og búlgarskir fjárfestar 10% hlut sem Pharmaco réði. Fljótlega eftir þessi viðskipti keyptu Björgólfsfeðgar og Magnús Þorsteinsson helminginn af hlut Deutsche Bank, en skömmu áður höfðu þeir keypt hlut Búnaðarbankans í Pharmaco. Þar með höfðu þeir eignast ráðandi hlut í Pharmaco og Björgólfur Thor var svo í kjölfarið kjörinn stjórnarformaður á aðalfundi þess árið 2000. Þetta ár hækkaði gengi hlutabréfa í Pharmaco um 91% sem var hæsta ávöxtun fyrirtækja á markaði það árið.

Þessi kaup á búlgörskum lyfjaframleiðenda þóttu nokkuð djörf þar sem enn voru nokkrir umróta tímar á Balkanskaga. En hagnaður af þessum viðskiptum fór fram úr björtustu vonum og vakti athygli, og svo fór að Pharmaco fékk verðlaun sem fjárfestir ársins í Búlgaríu árið 2002. Í dag starfar Pharmaco í 14 löndum með um 7.400 starfsmenn. Það rekur verksmiðjur og rannsóknarstofur á Íslandi, Búlgaríu, Möltu og Serbíu. Aðeins rétt um 5% af heildarsölu fyrirtækisins er á Íslandi.

Fyrirtækið er nú orðið öflugt á svokölluðum samheitalyfjamarkaði, þar sem hraði og afkastargeta skipta máli. Hraðinn skiptir máli þar sem nauðsynlegt er að koma lyfjum fljótt á markað eftir að einkaleyfið á þeim rennur út og er þessi hraði fyrir hendi í verksmiðjum á Íslandi. Framleiðslugeta er svo hinn mikilvægi þátturinn og hún er til staðar í Búlgaríu þar sem hægt er að framleiða ódýr lyf, en um 70% af framleiðslugetu Pharmaco er í búlgörsku verksmiðjunni.

Velgengni og traust

Það er ljóst að Pharmaco er eitt glæsilegasta fyrirtækið á íslenskum markaði. Markaðsvirði þess er nú áætlað um 83 milljarðar sem gerir það að langstærsta fyrirtækinu á íslenskum markaði en það var áætlað um 49 milljarðar í mars síðastliðnum. Til samanburðar þá er áætlað markaðsvirði næststærsta fyrirtækisins í Kauphöll Íslands sem er Kaupþing-Búnaðarbanki nú um 71 milljarður. Eigið féð er um 22 milljarðar og í hálfsársuppgjöri fyrirtækisins kom fram að hagnaður hafi verið um 2,75 milljarðar króna. Langtímamarkmið Pharmaco um árlega framlegð er um 30% og stefnt er að 15-20% innri vexti að jafnaði á ári næstu 3 árin. Ennfremur stefnir Pharmaco að 15-20% ytri vexti með fjárfestingum í erlendum félögum sem falla vel að aðalstarfsemi félagsins.

Til marks um velgengni og það traust sem fyrirtækið nýtur þá undirrituðu í júlí síðastliðnum sjö erlendir bankar víðsvegar að úr Evrópu, ásamt Landsbanka, Íslandsbanka og Búnaðarbanka samankalán til þess upp á 16 milljarða. Hér var um að ræða einn stærsta lánasamning á alþjóðlegum bankamarkaði sem gerður hefur verið af íslensku fyrirtæki, sem gerir Pharmaco kleift að endurfjármagna allar langtímaskuldbindingar sínar. Það skilar sér að sjálfsögðu í betri rekstri.

Óskabarn þjóðarinnar

Framtíð Pharmaco virðist björt. Sóknarfæri á lyfjamarkaði eru mörg, ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að fólk verður sífellt eldra og þar með eykst þörfin fyrir lyfjum. Mörg velferðaríkin eru að kikna undan niðurgreislu á dýrum lyfjum og því verður eftirspurnin eftir ódýrum samheitarlyfjum sífellt meiri. En framtíðin er einnig björt vegna þeirra ástæðu að Björgólfur Thor Björgólfsson hyggst einbeita sér að enn frekari útrás fyrirtækisins. Þar fer maður sem vill sigla í kröppum sjó og hefur sýnt að hann nær framúrskarandi árangri við þær aðstæður.

Vöxtur þessa 47 ára gamla fyrirtækis hefur verið með ólíkindum á allra síðustu árum. Að margra mati er Pharmaco það fyrirtæki sem í dag getur staðið undir því að vera kallað óskabarn þjóðarinnar.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.