Tækifæri fyrir kvikmyndir og tónlist

napster.jpgÁ netinu er mikið framboð af allskyns tónlist og kvikmyndum. Í flestum tilfellum er um ólöglegar útgáfur að ræða sem netnotendur deila sín á milli. Þessi dreifing hefur haft mikil áhrif á tónlistarmarkaðinn og leita menn nú leiða til að aðlagast breyttu umhverfi í kjölfar mikillar notkunar á vefnum.

napster.jpgLengi hafa menn glímt við að lög og regla á oft á tíðum erfitt með að fylgja tækninýjungum. Ekki síst á þetta við um hinn landamæralausa veraldarvef þar sem nánast ómögulegt er að framfylgja alþjóðalögum. Margir kalla þetta óheft skoðanaskipti og sjálfsagt frelsi en aðrir, og ekki síst þeir sem hafa hagsmuna að gæta í þeim upplýsingum sem flæða um netið, eru ósáttir við stöðu mála og benda á að vefnum ríki öngþveiti og lögleysa. Undanfarin ár hafa menn úr tónlistariðnaðnum verið þar fremstir í flokki en upp á síðkastið hefur kvikmyndaiðnaðurinn orðið meira áberandi og ekki af ástæðulausu. Talið er að með tilkomu Napsters og sambærilegra forrita sem gera notendum kleift að deila ólöglegum eintökum af hugbúnaði, kvikmyndum og hljómlist hafi skert heildartekjur tónlistariðnaðarins um fjórðung á síðustu árum. Því hefur verið eytt miklu púðri í að koma lögum yfir þá sem deila tónlist á þennan hátt án þess þó að mikill árangur hafi náðst.

Hingað til hefur kvikmyndaiðnaðurinn ekki orðið illilega fyrir barðinu á slíkum forritum því að talsvert meira mál er fyrir netnotendur að verða sér út um ólögleg eintök af kvikmyndum. Hvert skjal sem inniheldur tónlist er jú mun minna og meðfærilegra en skjal sem inniheldur kvikmynd. En enginn þarf að velkjast í vafa um að einungis er tímaspursmál hvenær gagnahraði verði nægjanlegur til að hægt sé ná í kvikmyndir án vandræða og á skikkanlegum tíma.

Hingað til hafa bæði tónlistar og kvikmyndaframleiðendur lagt mikla áherslu á að finna tæknilegar lausnir sem koma í veg fyrir ólöglegt niðurhal af netinu. Þessar tilraunir hafa þó ekki skilað tilætluðum árangri en virðast hins vegar blása eldmóði í tölvuhakkara sem finna jafnóðum leiðir til að komast fram hjá þeim. Margir þeirra telja skyldu sína að verja frelsi á netinu með öllum ráðum. Eins hefur verið reynt að höfða mál gegn einstaklingum sem stunda slíka iðju og skapa þannig fordæmi fyrir aðra. En engin af þessum aðferðum virðast skila tilætluðum árangri og stöðug aukning er í dreifingu tónlistar og kvikmynda á netinu.

Veraldarvefurinn á án efa eftir að hafa mikil áhrif á bæði tónlistar- og kvikmyndaiðnaðinn. Jafnframt er ljóst að þeir sem ná að aðlaga sig að breyttu umhverfi og sætta sig við að „netheimurinn“ er frjálsari en „raunheimurinn“ eru þeir sem eiga eftir að ná mestum árangri framtíðinni. Benda má á nokkrar leiðir sem framleiðendur tónlistar og kvikmynda geta kannað til að koma í veg fyrir að frelsi netsins fari illa með þennan markað. Til dæmis væri hægt að stilla verðlagningu í hóf og gera þannig löglegar útgáfur að fýsilegri kosti fyrir netnotendur. Eins hefur sýnt sig að ef kvikmyndir eru frumsýndar t.d. í Bandaríkjunum áður en þær eru sýndar í Asíu er líklegra að ólöglegar útgáfur komast í dreifingu.

Lykilatriði er fyrir þess aðila að aðlagast breyttum aðstæðum. Í stað þess að reyna að koma í veg fyrir að fólk geti náð sér í kvikmyndir og tónlist á netinu að nýta sér tækifærin sem það skapar. Á sínum tíma hræddust menn mjög tilkomu fm-útvarps og spáðu því að fólk hætti hreinlega að kaupa plötur þar sem hægt væri að hlusta á tónlist í útvarpi. Áhrif þess voru þó þveröfug og hafði útvarpið mikil og góð áhrif á sölu tónlistar og ekki síst á tónlistina sjálfa. Ekkert er því til fyrirstöðu að netið skapi álíka tækifæri fyrir tónlistar- og kvikmyndaiðnaðinn.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.