Straumhvörf

Fjárfestingafélagið Straumur er enn og aftur í eldlínunni, nú eftir að Landsbankinn og Samson hafa eignast samanlagt um 34% hlut. Staða félagsins í íslensku viðskiptalífi er með þeim hætti að valdaátök fara að miklu leyti fram í gegnum það.

Í fyrradag voru talsverð viðskipti með bréf í Fjárfestingarfélaginu Straumi en þá keypti Samson Global Holdings Limited, sem er í eigu Björgólfs Guðmundssonar, Björgólfs Thors Björgólfssonar og Magnúsar Þorsteinssonar, um 14% hlut í Straumi af Landsbankanum. Á sama tíma keypti svo Landsbankinn af nokkrum aðilum og á því nú um 20% hlut í félaginu. Samson er, eins og kunnugt er, með ráðandi hlut í Landsbankanum þannig að samanlagður hlutur þessara aðila í Straumi er nú tæp 34%. Við þessi viðskipti hækkuðu bréf í Straumi um 8% og í Landsankanum um 6,1%. Það er alltaf athyglisvert að fylgjast með breytingum á eignarhaldi í Straumi þar sem félagið er mikilvægur aðili í miðtafli íslensk fjármálalífs.

Upphaf félagsins má rekja aftur til ársins 1986 þegar Hlutabréfasjóðurinn hf. var stofnaður sem var elsti hlutabréfasjóðurinn á íslenskum markaði. Í frægum greinarflokki Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu á síðasta ári, um átök í viðskiptalífinu, kom það fram, að það hafi verið hugmynd Bjarna Ármannssonar að stofna fjárfestingarfélag á grunni gamla Hlutabréfasjóðsins. Fjárfestingarfélagið Straumur var stofnað í ársbyrjun 2001 og voru helstu eigendur þess m.a. Íslandsbanki með 20% hlut og Baugsfeðgar og aðilar þeim tengdir með um 18-19% hlut. Eitt meginmarkmið Straums er að vera svokallað umbreytingafélag. Hugsunin á bak við umbreytingafélög er m.a. að kaupa fyrirtæki á lágu verði, umbreyta þeim og selja svo á háu verði. Það tíðkast einnig í slíkum umbreytingafélögum að selja t.d. fasteignirnar sem félögin eiga, en halda eftir rekstri, eða selja hann sér.

Í fyrrnefndum greinarflokki Agnesar Bragadóttur eru rakin átök um yfirráð í Íslandsbanka. Straumur var þar í eldlínunni þar sem átökin um bankann snerust að miklu leyti um yfirráð í félaginu, en Orca-hópurinn svokallaði réðst til atlögu við ráðandi aðila í Íslandsbanka. Straumur var í lykilstöðu vegna digra sjóða sinna og eignarhalds í Íslandsbanka, en þessi átök voru til lykta leidd í ágúst á síðasta ári þar sem Orca-hópurinn þurfti að lúta í grasi.

Burt séð frá valdaátökum í íslensku viðskiptalífi þá er Straumur nokkuð álitlegur kostur fyrir fjárfesta enda liggja nokkur vaxtartækifæri í sterkri fjárhagsstöðu félagsins. Í byrjun júlí á þessu ári var félagið tekið inn á aðallista Kauphallar Íslands og nú á þessu ári hefur það yfirtekið bæði Íslenska hugúnaðarsjóðinn og Framtak fjárfestingbanka.

Straumur hefur oft verið nefndur í sömu andrá og Íslandsbanki og talað hefur verið um félagið sem verkfæri bankans. Það kann að vera rétt og ekkert skrítið við það, enda er hugmyndin að félaginu frá bankanum komin. En nú kann að verða breyting þar á. Þann 7. mars á þessu ári jók Íslandsbanki hlut sinn í Straumi upp í 35,5%, en viku síðar keypti Landsbankinn um 20% hlut í félaginu. Einn stærsti seljandinn var Íslandsbanki sem hélt eftir 23% hlut. Eftir viðskiptin í gær er samanlagður hlutur Samson og Landsbankans orðin um 34% og hlutur Íslandsbanka er kominn í 17,5%.

Athyglisverður punktur, sem vert er að fylgjast með, er sá að samvinna bankanna tveggja hefur aukist á síðustu misserum, t.d stóðu þeir saman að stofnun fasteignafélags fyrir síðustu áramót og fulltrúar bankanna hafa rætt um að auka samstarf sín á milli á sviði fasteignamála. Það er talið að óformlegt samkomulag hafi verið á milli bankanna um að ákveðið valdajafnvægi ríkti í eignarhaldi á Straumi og því áhugavert að fylgjast með viðbrögðum Íslandsbanka í nánustu framtíð.

Þó að sumir kunni að freistast til þess að álykta sem svo að kaup Samson og Landsbankans á Straumi gæti verið hluti af uppgjöri við Hafskipsmálið, þar sem félagið er stærsti hluthafinn í Eimskip með um 15,8% hlut, þá skal á það bent að kaup Samson á Straumi er í fullu samræmi við fjárfestingastefnu þeirra félaga. Eigendur Samson hafa nefnilega haft umbreytingar og virðisauka að leiðarljósi við fjárfestingar sínar og gæti Straumur nýst þeim vel við slík verkefni. Ekki er heldur ólíklegt að Samson hyggi á sameiningu Straums og Landsbankans og efla þannig eiginfjárstöðu bankans til muna.

Það verður þó ekki horft framhjá því að sameiginlegur eignarhlutur Straums og Landsbankans í Eimskip er nú 21,3%, en það þýðir ekki að Samson sé komið með öll völd í Eimskip og félögum tengdu því eins og haldið er ítrekað fram í einu fréttablaðanna í gær. En eitt er ljóst að það eru spennandi tímar framundan í íslensku viðskiptalífi.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.