Formannsmorð!

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur ákveðið að þyrma pólitísku lífi svila síns og samstarfsmanns til margra ára. En það þýðir ekki að hún hafi ákveðið að beina byssunni sinni eitthvað annað en að höfði formanns Samfylkingarinnar; hún hefur meira að segja tilkynnt hvenær hún hyggist taka í gikkinn.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur lýst því yfir með pompi og prakt að hún ætli að taka sætið af svila sínum og samherja til margra ára Össuri Skarphéðinssyni og verða formaður Samfylkingarinnar þegar henni hentar; en af miskunnsemi sinni mun hún þyrma svila sínum í haust.

Staða Össurar er ekki öfundsverð. Hann situr á formannsstóli Samfylkingarinnar með stuðningi tæplega 13% kjósenda flokksins og bíður þess að verða hrakinn í burtu. Ingibjörg tók þá ákvörðun að ráðast ekki gegn svila sínum núna; heldur að bíða með það í tvö ár. Hún gerir þetta ekki af manngæsku eða náungakærleik, heldur metur hún stöðuna þannig að tvö ár séu hæfilegur undirbúningstími fyrir hallarbyltingu. Það getur ekki talist líklegt að flokksmeðlimir Samfylkingarinnar fylki sér að baki Össuri nú, þrátt fyrir þá ákvörðun Ingibjargar að bíða með framboð í tvö ár. Ákvörðun Ingibjargar grefur því algjörlega undan sitjandi formanni. Það er í raun búið að taka hann af lífi, þó aðeins hafi verið lengt í snörunni.

Nú hefur Össur í raun aðeins tvo valmöguleika; að gera eins og Ingibjörg segir og stíga niður eftir tvö ár, eða taka slaginn í vonlausri baráttu og gegn vilja meirihluta stuðningsmanna Samfylkingarinnar. Hvorugur kosturinn er fýsilegur.

Þó Össur hafi ef til vill stuðning meirihluta þingflokksins og elítunnar í Samfylkingunni, er ljóst að í tíuþúsund manna póstkostningu, mun Ingibjörg fara með sigur af hólmi.

Strax og fréttir bárust af því að skoðannakönnun Gallups sýndi að nærri 90% vildu Ingibjörgu sem formann Samfylkingarinnar, lýsti Össur yfir eindregnum vilja sínum til að sitja áfram sem formaður. Þessu sama lýsti hann yfir daginn eftir kosningarnar í vor. Þá þótti mönnum sérkennilegt að hann eignaði sér fylgisaukningu Samfylkingarinnar, þegar allir vissu að hún var Ingibjörgu að þakka; eða kenna – hvernig sem menn líta á það.

Þetta sýndi að Össur var orðin hræddur um stöðu sína, enda hefur komið á daginn að sá ótti var ekki ástæðulaus. Reynslan sýnir að orðum Ingibjargar Sólrúnar er ekki treystandi. Oft hefur verið rakið í fjölmiðlum hvernig hún lofaði því fyrir borgarstjórnarkosningarnar í fyrra að hún ætlaði að sitja út kjörtímabilið sem borgarstjóri. Við það stóð hún ekki. Ingibjörg hefur margoft lýst yfir stuðningi við Össur og sagt að hún sækist ekki eftir formennsku í Samfylkingunni. Og viti menn. Á daginn kemur að hún vill einmitt verða formaður; bara ekki alveg strax. Á meðan bíður Össur á milli vonar og ótta eftir því að Ingibjörgu þóknist að fullnægja dómnum. Hann situr á formannsstóli eins og illa gerður hlutur, rúin stuðningi og trúverðugleika.

Það verð ég að segja að sem betur fer er Ingibjörg Sólrún ekki svilkona mín.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.