Tímabært að afnema birtingu álagningarskrár

Nú er afstaðinn sá tími árs er upplýsingar um fjárhagsmál íslenskra skattgreiðenda liggja á glámbekk fyrir forvitnar sálir að skoða. Ákvæði 98. gr. laga nr. 75 frá 1981 sem kveður á um framlagninguna er úrelt og skorar Deiglan á löggjafann að fella ákvæðið á brott á komandi þingi.

Nú er afstaðinn sá tími árs er upplýsingar um fjárhagsmál íslenskra skattgreiðenda liggja á glámbekk fyrir forvitnar sálir að skoða. Ákvæði 98. gr. laga nr. 75 frá 1981 sem kveður á um framlagninguna er úrelt og skorar Deiglan á löggjafann að fella ákvæðið á brott á komandi þingi.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framlagningu álagningarskrár á undanförnum misserum. Það vakti mikla athygli fjölmiðla fyrir nokkrum árum þegar ungir sjálfstæðismenn í Reykjavík lögðust yfir skrárnar og reyndu þannig með táknrænum hætti að koma í veg fyrir lestur þeirra.

Þessi ósiður skattayfirvalda að upplýsa fjölmiðla og almenning um tekjur einstaklinga er ekki nýr af nálinni. Hafa skattayfirvöld afhent fjölmiðlum upplýsingar um gjöld hæstu gjaldenda samkvæmt álagningu hvers árs allt frá árinu 1937. Fram til 1979 voru einungis lagðar fram skattskrár og ekki gerður munur í lögum á álagningarskrám og skattskrám. Árið 1982 var farið leggja álagningarskrár fram og styðst sú framlagning við ákvæði 98. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt.

Helstu rökin fyrir birtingu þessara upplýsinga eru að með því skapist aðhald gegn skattsvikum og undanskotum. Tómas Hafliðason fjallaði um þessi mál í pistli á Deiglunni 11. ágúst síðastliðinn og sýndi fram á fáránleika þessa rökstuðnings:

„Skattstjórar víðsvegar hafa upplýst að birting þessara upplýsinga hafi áhrif bæði sem forvarnargildi og jafnframt hafi fjölmörg mál verið upplýst þar sem ábendingar þegnanna hafi leitt til margra rannsókna, þótt ekki hafi verið hægt að greina frá einstökum málum.

Það vekur hins vegar gríðarlega athygli að þrátt fyrir allt það gagn sem þessar upplýsingar eiga að veita eru þær eingöngu í boði í tvær vikur í senn einu sinni á ári. Ekki nóg með það heldur eru gögnin bara í boði hjá viðkomandi skattstjóra, þannig að ef einhver grunar fólk um skattsvik víðsvegar um landið er eins gott að taka vikurnar tvær frá svo viðkomandi geti lagt land undir fót. Það er líka eins gott að muna eftir þeim á þessum tíma, því á öðrum tíma eru upplýsingarnar eingöngu fyrir starfsmenn skattstjóra að skoða.“

Auðvitað heldur rökstuðningur skattayfirvalda ekki vatni, eins og Tómas sýnir hér fram á. Ef birtingin hefði virkilega þau áhrif að vinna gegn undaskotum og skattsvikum, er þá ekki alveg ljóst að því víðtækari og umfangsmeiri sem hún væri, því meiri og jákvæðari áhrif hefði hún?

Þessi mál hafa verið áður til umfjöllunar hér á Deiglunni, enda er ranglæti þessarar birtingar algjört. Í pistli sem Borgar Þór Einarsson ritaði fyrir rúmum tveimur árum sagði hann:

„Fjárhagsmálefni eru einkamál hvers og eins, og meðal viðkvæmustu persónuupplýsinga í nútímasamfélagi. Gildar ástæður þurfa að liggja til grundvallar þeirri stefnu stjórnvalda að heimta þessar upplýsingar í krafti valdheimilda og leggja þær svo á glámbekk. Órökstuddar hugmyndir um virkt skatteftirlit með þessum hætti geta vart talist grundvöllur slíkrar valdbeitingar og átroðningi ríkisvaldsins á réttindum einstaklinga. Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er óheimilt að veita aðgang að gögnum um einka- og fjárhagsupplýsingar einstaklinga sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Við setningu upplýsingalaganna var ákveðið að ákvæði annarra laga sem kvæðu um rýmri aðgang almennings að gögnum héldu gildi sínu, þ. á m. hið títtnefnda ákvæði 98. gr. laga nr. 75/1981.

Afar hæpið verður að teljast að umrædd lagagrein standist stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, þ.e. 71. gr. hennar um friðhelgi einkalífs, eins og hún verður skýrð með hliðsjón af 2. tl. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Telja má að framlagning skránna sé ekki í samræmi við fyrirmæli síðarnefndu greinarinnar um meðalhóf. Með því að afnema ákvæði 98. gr. félli framlagning álagningar- og skattskrá undir upplýsingalögin og þá kæmi til kasta 5. gr. þeirra. Telja verður sanngjarnt og eðlilegt að upplýsingar um tekjur og eignir manna fari leynt, en hafi einhver sérstakan áhuga á að sýna almenningi þessar upplýsingar, gæti hann hakað í viðeigandi reit á skattframtali sínu, í samræmi við 5. gr. upplýsingalaga.“

Þessi orð eru enn í fullu gildi og ástæða til að hvetja löggjafann nú til að láta hendur standa fram úr ermum. Mikil endurnýjun átti sér stað á Alþingi í síðustu kosningum og hefur meðalaldur þingmanna aldrei verið lægri. Margt af því unga fólki sem hlaut brautargengi í kosningunum lagði mikla áherslu á frjálslyndar skoðanir sínar. Nú er sjá hvort þar voru orðin tóm eða hvort verkin verði látin tala.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)