Ég er ekki öskubakki!

ÖskubakkiStarfsmenn Pétursbúðar við Ægisgötu hafa gripið til nýstárlegs ráðs til að halda stéttinni sinni hreinni. Er eina leiðin til að tryggja hreinar götur borgarinnar að koma fram við borgarbúa eins og börn?

ÖskubakkiVið Pétursbúð við Ægisgötu stendur skilti sem segir “Ég vil ekki fleiri tyggjóklessur. Stéttin.” Að sögn starfsmanna Pétursbúðar hafa vegfarendur tekið þessari yfirlýsingu stéttinnar mjög vel og reynt að fara að vilja hennar. Tyggjóklessur á stéttinni við Pétursbúð hafa því minnkað eftir að skiltið var sett upp. Frétt um ofangreint er að finna í Féttablaðinu í gær. Í fréttinni stendur þó einnig í að ekki fyrir alls löngu hafi þurft að taka skiltið niður í stuttan tíma og þá hafi allt fyllst af tyggjóklessum aftur auk þess sem sígarettustubbar séu einnig verulegt vandamál.

Ég hef oft velt því fyrir mér á göngu minni um götur Reykjarvíkurborgar hvers vegna tyggjóklessur á stéttinni þurfi að vera svona mikið vandamál. Hvað er það sem hindrar fólk í að fleygja tyggjóinu sínu, sem og öðru rusli, í nærstandandi ruslatunnur? Hvers vegna eru götur borgarinnar ekki hreinar götur? Nú sé ég að líklegast er um eintóma vanþekkingu borgarbúa að ræða. Þeir vita einfaldlega ekki að stéttin vill ekki tyggjó. Það liggur engin önnur útskýring fyrir fyrst að allt sem þarf til að stöðva dreifingu tyggjóklessa á götur borgarinnar er skilti á borð við það sem er að finna hjá Pétursbúð.

Í framhaldi af þessari niðurstöðu má velta fyrir sér hvort ekki væri ráð að setja upp slík skilti um alla borgina þar sem jafnt ungir sem aldnir eru beðnir um að henda ekki tyggjói á götuna. Það mætti þá e.t.v. setja upp fleiri álíka skilti með mismunandi texta. Ágætis hugmyndir eru t.d.: “Ég er ekki öskubakki. Stéttin.”, “Ég er ekki svöng. Stéttin.”, “Ég drekk hvorki né endurvinn. Lækjartorg.”, Ég er ánægður með útlit mitt og vil ekki málun. Veggurinn.” Til að skila árangri þyrftu skiltin svo að hanga víðsvegar um borgina þar sem af fréttinni má ráða að borgarbúar gleymi fyrirmælum þeirra um leið og þeir sjá þau ekki lengur. Nokkuð sem minnir á hegðun ungabarna á fyrsta þroskastigi sínu.

Það skiptir máli að borgin okkar, sem og landið allt, sé hrein. Skiltaverkefni sem þetta sýnist mér á ummælum starfsmanna Pétursbúðar vera ein árangursríkasta leiðin til að skila hreinum götum. Ágæt leið til að losna við þá vinnu og fjármuni sem færu í slíkt skiltaverkefni væri þó einfaldlega að borgarbúar hættu að hegða sér eins og börn til að ekki þurfi að koma fram við þá eins og börn.

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)