Fordómarnir komnir inn í skáp

Hinsegin dagarÁ laugardaginn var mikið um dýrðir í miðbæ Reykjavíkur þegar haldið var upp á hinsegin daga. Samkynhneigðir, og stuðningsmenn réttinda þeirra, létu rigningarsudda ekki á sig fá heldur flykktust í bæinn til að taka þátt í þessum árlega hátíðar- og baráttudegi. Nú er svo komið að samkynhneigðir eru komnir út úr skápunum en fordómarnir hafa tekið sér bólfestu þar í staðinn.

Hinsegin dagarHinsegin dagar hafa á síðustu árum markað sér sess sem einhver skemmtilegasta uppákoma ársins í höfuðborginni. Skrautleg skrúðgangan þar sem hommar, lesbíur, tvíkynhneigðir og kynskiptingar klæða sig upp í sínar fínustu múnderingar, er bæði skemmtilegri og þarfari heldur en margar af þeim skrúðgöngum sem stofnað er til árlega af hinum ýmsu baráttuhópum.

Sem betur fer hefur réttindabarátta samkynhneigðra skilað miklum árangri á umliðnum áratugum. Í dag eru það ekki samkynhneigðir sem þykja óeðlilegir, heldur eru hinir, sem enn sjá ástæðu til að amast við ásthneigð annars fólk, álitnir fremur skrýtnir. Þetta er mikil breyting frá því sem áður var.

Í hátíðarávarpi á Gay Pride hátiðinni sl. laugardag rifjaði Margrét Pála Ólafsdóttir upp áfanga í baráttu samkynhneigðra á Íslandi. Hún líkti viðhorfsbreytingu samfélagsins í garð samkynhneigðra við kraftaverk. Hún sagði m.a.:

Kraftaverk hafa unnist og eitt þeirra á sér stað á þessari stundu. Það kraftaverk erum við öll sem stöndum hér undir regnbogafánunum og saðfestum nýju heimsmynd sem rúmar og leyfir allt litróf mennskra tilfinninga. Það er ótrúlegra en orð fá lýst að hugsa tíu ár aftur í tímann. Þá var fyrsta opinbera ganga samkynhneigðra farin um götur Reykjavíkurborgar. Fyrsta gangan okkar – og hún taldi aðeins 69 manns sem þá þorðu að standa með lífi sínu og vera sýnileg í íslenskri dagsbirtu.

Á síðustu árum hafa tugir þúsunda safnast saman til að fylgjast með, og sýna stuðning, þegar samkynhneigðir Íslendingar halda upp á þennan hátíðisdag sinn. Sennilega er meirihluti þeirra sem var viðstaddur hátið samkynhneigðra á laugardaginn gagnkynhneigður en vill fá að njóta með samkynhneigðum meðbræðrum sínum og systrum þeirrar litskrúðugu menningar sem einkennir samfélag samkynhneigðra. Að sama skapi vill fjöldi fólks leggja baráttu þeirra fyrir fullum réttindum og viðurkenningu lið.

Þeir sem trúa á einstaklinginn og bera virðingu fyrir náunganum hljóta að viðurkenna rétt annarra til að höfða lífi sínu eftir eigin tilfinningum. Það er eitthvað ankanalegt við þann hugsunarhátt að amast sérstaklega við því að hópar fólks hafi ekki sömu hneigðir í ástarmálum og maður sjálfur. Ef svo væri þá gæti hver einasti karlmaður sennilega, með sömu rökum, orðið æfur yfir því ef aðrir karlmenn girntust ekki eiginkonu þeirra af sömu ákefð og hann sjálfur.

En þótt mikið hafi áunnist í réttindabaráttu samkynhneigðra eru fordómarnir enn til staðar. Í ávarpi sínu sagði Margrét Pála að enn þyrfti að berjast fyrir því að þjóðkirkjan veitti samkynhneigðum sömu þjónustu og öðrum og að löggjafinn tryggði möguleika samkynhneigðra til ættleiðinga og tæknifrjóvgana. Undir þetta tekur Deiglan.

Um eðli fordóma í garð samkynhneigðra í dag sagði Margrét Pála:

[Þ]ótt formlega misréttið hafi verið áberandi í umræðu okkar þurfum við ekki síður að halda vöku okkar hvað varðar aðrar hliðar; það er félagslegt og menningarbundið misrétti sem hefur verið mun dulbúnara og minna áberandi en hin beina lagamismunun. Hér er af nógu að taka en mér er efst í huga skuggahliðar á tveimur lykilsviðum samfélagsins; það er annars vegar ósýnileiki og fyrirmyndarleysi samkynhneigðra í skólakerfinu og hins vegar þöggun og dulbúið einelti á atvinnumarkaði og þá sérstaklega í kynhneigðarviðkvæmum störfum. Þarna eru verk að vinna fyrir baráttufúsar hendur; þarna læðast þessi ósýnilegu viðhorf, þarna leynast fordómarnir sem fara með veggjum þar sem það er ekki lengur í tísku að fordæma lesbíur eða dyggð að lemja homma. Tímarnir eru breyttir og nú þegar við komum fagnandi og stolt fram í dagsljósið, eru fordómarnir að skríða í felur. Í fljótu bragði virðist það jákvætt en til lengri tíma litið er það mjög varasöm lausn. Við, lesbíur og hommar, vitum nefnilega öllum betur að í skápnum magnast allt sem neikvætt er – þar þrífst ekkert af viti; það er óttinn, skömmin og hatrið sem ræður ríkjum í skápnum. Hið nýja verkefni okkar er þess vegna að koma fordómunum úr felum – það er eina leiðin til að takast á við þá og við, sem hér stöndum, erum reiðubúin að mæta þeim. Það er ekki amalegt að feta úr fordómaskápnum með þeim búsbændunum í Vatkíkaninu og Washington.

Það er mikill sannleikur í þessum orðum Margrétar Pálu. Fordómarnir leynast víða þótt áfangasigur sé unninn með því að það séu fordómarnir sem fela sig – og að ekki þurfi að fela sig fyrir fordómunum. En ef fólk er reiðubúið að sýna það í orði og verki að samkynhneigðir, rétt eins og við öll, eigi rétt á að vera dæmdir út frá eigin verðleikum, þá mun smám saman fjara undan þeim fordómum sem enn eru til staðar.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)