„Í dag er mikill gleðidagur hjá íslenskum neytendum“

karöflur…….sagði landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson fyrr í þessum mánuði þegar hann boðaði til blaðmannafundar í karöflugarði á Suðurlandi, í tilefni af því að íslenskir neytendur væru ekki neyddir lengur til að leggja sér til munns ársgamlar íslenskar kartöflur. Kartöflur sem erlendis yrðu fyrir aldurs sakir dæmdar óætar og í besta falli notaðar í dýrafóður.

karöflurFlestir fjölmiðlar spiluðu með landbúnaðarráðherranum og slógu gagnrýnislítið upp stórum fréttum af þessum gleðidegi íslenskra neytenda. Loksins fengju þeir nýjar kartöflur!!! Guðni fékk af sér stóra litmynd á einni af fremstu síðum Morgunblaðsins og viðtöl í aðalfréttatíma sjónvarpsstöðvanna.

Landbúnaðarráðherra sem er einkar lagið að skemmta landsmönnum með fornu tungutaki og framburði var að sjálfsögðu ekki spurður af hverju það teldist fréttnæmt að íslenskir neytendur hefðu aðgang að jafn sjálfsögðum hlut og nýjum kartöflum á tímum alþjóðvæðingar í viðskiptum. En eins og menn vita eru kartöflur framleiddar út um allan heim og uppskerutímar árið um kring. Þær eru því til í öllum stærðum, gerðum og gæðaflokkum á erlendum mörkuðum.

Hér á landi hafa stjórvöld hins vegar komið því þannig fyrir að Íslendingar skulu éta gamlar kartöflur meðan eitthvað er til af innlendu framleiðslunni. Og ekki lækkar verðið þótt líði á árið og varan versni.

Afleiðingin er auðvitað sú að neytendur draga úr neyslu kartaflna og borða í staðinn síður holla fæðu s.s. pasta og franskbrauð. Undantekning frá gömlu íslensku kartöflunum eru litlir innflutningskvótar sem skýra það að stöku sinnum sjást örskamma stund nýjar innfluttar kartöflur á öðrum árstímum.

Þetta er grátbroslegt dæmi úr íslenskri landbúnaðarstefnu sem fyrst og fremst tekur mið af hagsmunum framleiðenda en ekki neytenda. Í kosningabaráttunni s.l. vor var varla minnst á íslenskan landbúnað eða þá staðreynd að hann kostar ríkissjóð tæpa tíu milljarða árlega í ýmsar stuðningsaðgerðir. Allir flokkar, meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn, sem vill vera í fararbroddi frjálsra viðskipta og markaðslausna, virðast hafa gefist upp fyrir hagsmunagæslu landbúnaðarins.

En landbúnaðarráðherrann fer ekki alltaf troðnar slóðir. Hver veit nema hann geri sérhvern dag að gleðidegi fyrir íslenska neytendur með því að gefa frjálsan innflutning á kartöflum.