Vestræn villidýr II

Þann 26. febrúar 2002 birtu tveir starfsmenn flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNCHR), og einn starfsmaður mannúðarsamtakanna Save the Children, minnisblað byggt á ítarlegum rannsóknum þeirra á hjálparstarfi á vegum Sameinuðu þjóðanna í Vestur-Afríku ríkjunum Gíneu, Líberíu og Sierra Leone. Þar komu fram alvarlegar staðhæfingar um kynferðislega misnotkun og ofbeldi friðargæsluliða og hjálparstarfsmanna á vegum Sameinuðu þjóðanna og óháðra mannúðarsamtaka (NGO) í öllum löndunum.

Þann 26. febrúar 2002 birtu tveir starfsmenn flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNCHR), og einn starfsmaður mannúðarsamtakanna Save the Children, minnisblað byggt á ítarlegum rannsóknum þeirra á hjálparstarfi á vegum Sameinuðu þjóðanna í Vestur-Afríku ríkjunum Gíneu, Líberíu og Sierra Leone. Þar komu fram alvarlegar staðhæfingar um kynferðislega misnotkun og ofbeldi friðargæsluliða og hjálparstarfsmanna á vegum Sameinuðu þjóðanna og óháðra mannúðarsamtaka (NGO) í öllum löndunum.

Minnisblaðið kom flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í töluverðan vanda. Þar kom fram að friðargæsluliðar, starfsmenn Sameinuðu þjóðanna og óháðra mannúðarsamtaka noti hjálpargögn til að neyða kvenkyns flóttamenn undir lögaldri til að stunda kynlíf með sér. Væri stúlkum undir lögaldri neitað um hjálp eða hjálpargögn nema gegn kynmökum. Jafnframt kom fram að kennarar í flóttamannabúðum neituðu að gefa stúlkum langt undir lögaldri góðar einkunir eða hótuðu að fella þær nema þær stunduðu kynlíf með þeim. Einnig kom fram að næstum ómögulegt væri fyrir konur að fá vinnu í flóttamannabúðunum nema gegn kynmökum við starfsmenn óháðra mannúðarsamtaka.

Í minnisblaðinu kom einnig fram að friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna borguðu mest á svæðinu fyrir kynlíf með börnum og stúlkum undir lögaldri. Væru oft heilu sveitirnar saman í því stunda þá iðju. Jafnframt komu fram ítrekaðar ásakanir um að friðargæsluliðar væru að taka nektar- og klámmyndir af börnum og ungum stúlkum undir lögaldri gegn greiðslu.

Höfundar minnisblaðsins ræddu við yfir 1500 einstaklinga við rannsóknina sem leiddi margt í ljós. Það var sláandi að í viðtölunum kom fram að það sé algengt viðhorf hjá starfsmönnum í flóttamannabúðum að kynlíf með mjög ungum stúlkum sé fýsilegra en kynlíf með eldri kynsystrum þeirra. Einnig kom fram að nauðganir og kynferðisofbeldi sé mjög algengt innan flóttamannabúða Sameinuðu þjóðanna og séu fórnarlömbin allt niður í 4 ára gömul. Eftir skýrsluna hefur komið í ljós að í sumum flóttamannabúðum koma 3-5 nauðgunarfórnarlömb á dag til aðhlynningar vegna slíkra árása.

Minnisblaðið olli miklu fjaðrafoki innan Sameinuðu þjóðanna og sætti stofnunin töluverðri gagnrýni vegna ástandsins í flóttamannabúðunum. Í kjölfarið bað skrifstofa flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna innra eftirlit Sameinuðu þjóðanna (OIOS) um að fara yfir og rannsaka þessar ásakanir. Í júlí 2002 skilaði rannsóknarnefndin niðurstöðum í skýrslu nr. A/57/465. Þar var staðfest að í flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna í þessum löndum viðgengist ýmisleg afbrigðileg háttsemi.

Rannsóknarnefndin staðfesti að einhver tilvik væru þar sem starfsmenn flóttamannabúðanna væru í kynferðissambandi við ungar stúlkur undir lögaldri. Starfsmenn hafi einnig nauðgað flóttamönnum innan búðanna, bæði stelpum og strákum. Mök starfsmanna við stúlkur langt undir lögaldri leiddu oft til þess að viðkomandi varð barnshafandi. Í næstum öll tilvika neituðu viðkomandi starfmenn að taka ábyrgð á barninu. Umræddir starfsmenn gegndu öllum mögulegum stöðum innan búðanna, allt frá því að vera vöruflutningamenn upp í að vera kennarar í flóttamannabúðunum. Í skýrslunni kemur síðan skýrt fram að flest brotin voru framin af starfsmönnum óháðra vestrænna mannúðarsamtaka en ekki af starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna.

Þrátt fyrir að skýrslan hafi leitt hræðilega hluti í ljós og staðfest ýmislegt í fyrra minnisblaðinu þá ber hún þess glöggt vitni að Sameinuðu þjóðirnar voru þarna að rannsaka eigin sök. Gífurlega mikið lagt upp úr því að gera þátt starfsmanna Sameinuðu þjóðanna sem minnstan og grafa undan öllum ásökunum á hendur starfsmönnum stofnunarinnar. Yfirleitt er sakarmatið hjá slíkum rannsóknarnefndum eins og hjá embættum vestrænna saksóknara þ.e. ef það eru meiri líkur á sekt en sýknu þá er haldið áfram með málið og farið með það fyrir dómstóla. Rannsóknarnefndin kaus að fylgja ekki þeirri framkvæmd og var sakarmat hennar eins strangt og að um dómstól væri að ræða. Var öllum ásökunum um brot starfsmanna Sameinuðu þjóðanna hafnað sem ekki voru fullsönnuð, yfirleitt þurfti viðkomandi starfsmaður að játa til að rannsóknarnefndin viðurkenndi að eitthvað misjafnt hefði líklega gerst. Einhver myndi halda að ítrekaðar ásakanir um misnotkun í þremur löndum væri nóg til að hrinda allsherjarrannsókn af stað þar sem viðkomandi yrðu dregnir fyrir rétt og refsað, sérstaklega þegar tvær rannsóknir hafa sýnt fram á mjög óeðlilega hegðun í búðunum. Þess í stað komst nefndin að þeirri niðurstöðu að mjög erfitt væri að rannsaka ásakanirnar sem koma fram í fyrra minnisblaðinu þar sem flóttamenn væru sífellt á ferðinni og því erfitt að finna brotaþola og var rannsókninni hætt.

Öll mál á hendur starfsmönnum óháðra mannúðarsamtaka var vísað til samtakanna sjálfra til agaviðurlaga og einungis tvö mál tilkynnt til opinberra aðila í heimalandi starfsmannsins. Eins og gefur að skilja þá vilja hvorki Sameinuðu þjóðirnar né mannúðarsamtök láta bendla sig við þessi brot þannig að öll málin hafa verið leyst í kyrrþei og engin veit hvað varð um viðkomandi starfsmenn. Hins vegar er ljóst að það versta sem þessi samtök gátu gert var að reka viðkomandi. Í dag er ekki vitað til þess að nokkur maður hafi verið dreginn til ábyrgðar fyrir nokkurn skapaðan hlut sem hefur átt sér stað í flóttamannabúðum á vegum Sameinuðu þjóðanna í þessum ríkjum.

Vestrænt réttlæti virðist vera af skornum skamti þegar um er að ræða brot vestrænna starfsmanna í Afríku. Við hjálpum bágstöddum í þróunarlöndunum með hjálpargögnum en megum aldrei gleyma því að við hjálpum líka með því að aðstoða þjóðirnar við að innleiða lýðræði, lög og réttláta málsmeðferð inn í þjóðfélög sem eru oft komin stutt á veg. Hvernig halda menn að við eigum að geta kennt þessum þjóðum slíka hluti þegar vestrænar þjóðir og alþjóðastofnanir virða ekki reglurnar og sjónarmiðin sem verið er að reyna að innleiða?

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.