Hagsmunir Íslands víkja fyrir persónulegu áhugamáli

Íslenska heimavarnarliðið?Í gær bárust heimsbyggðinni þær fréttir að Íslendingar ráðgerðu stofnun fjölmennra hersveita, svo fjölmennra að með þeim yrði íslenska þjóðin ein sú hervæddasta í heimi. Og til að taka af allan vafa um að hér væri ekki um getgátur að ræða, vitnaði AP-fréttastofan í einn æðsta ráðamann íslenska ríkisins.

Í gær gerðist það að einn af æðstu ráðamönnum íslenska ríkisins setti fram í samtali við alþjóðlega fréttastofu mótaðar hugmyndir um stofnun íslensks hers. Inngangur að frétt Associated Press fréttastofunnar um málið fer hér á eftir:

„Iceland urged to create military force after U.S. withdrawal
A senior Icelandic Cabinet minister urged the government Monday to establish its own military force after a decision by the United States to withdraw its fighter aircraft from Iceland.

„Without the U.S. military forces deployed to Iceland and without the security guarantee of the 1951 Defense Agreement, this country would be defenseless against any armed bands of criminals, mercenaries or military forces that might wish to raid of occupy Iceland,“ said Minister of Justice Bjorn Bjarnason.“

Í gær bar jafnframt svo við að stórblaðið Washington Post greindi frá því, að ráðamenn í Washington væru hugsanlega að endurskoða afstöðu sína til veru bandaríska varnarliðsins hér á landi. Sú hugarfarsbreyting mun einkum vera tilkomin vegna einarðrar afstöðu ríkisstjórnar Íslands í málinu.

En á sama tíma fer einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, í heimspressuna og segir að Íslendingar eigi að koma sér upp her. Og dómsmálaráðherra varpar þessu ekki fram sem einhverri óljósri hugmynd. Nei, tillögur hans virðast nokkuð ítarlega mótaðar. Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu, væntanlega eftir að hafa grandskoðað málið, að þörf sé á 21 þúsund manna varðliði hér á landi. Ekki um það bil 20 þúsund, heldur nákvæmlega 21 þúsund.

Fyrir áhrifamenn erlendis og fréttaskýrendur sem ekki eru endilega gjörkunnugir hinum mikla áhuga Björns Bjarnasonar á hermálum, er ekki hægt annað en að skilja yfirlýsingu hans sem stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar. Það er ekki einstaklingurinn Björn Bjarnson sem þarna viðrar hugmyndir sínar um íslenskan her, heldur dómsmálaráðherra og einn af æðstu embættismönnum þjóðarinnar.

Og tímasetningin hlýtur að vekja spurningar. Um leið og afstaða Bandaríkjamanna virðist vera að breytast gagnvart veru varnarliðsins hér, hleypur ráðherrann fram fyrir skjöldu með þessum hætti. Að öllum líkindum hefur þessi yfirlýsing vakið þó nokkurn fögnuð í bandaríska varnarmálaráðuneytinu “Af hverju ættum við að halda úti herliði þarna með ærnum tilkostnaði, ef forystumenn Íslendinga vilja ólmir stofna sinn eigin her?” munu embættismenn í varnarmálaráðuneytinu segja við samninganefndina sína.

Þetta frumhlaup dómsmálaráðherra er því mjög alvarlegt og líklega til þess fallið að skaða samningsstöðu okkar gagnvart Bandaríkjamönnum á viðkvæmum tímapunkti. Það er ámælisvert af hálfu dómsmálaráðherra að vega þannig að hagsmunum íslenska ríkisins til þess eins að koma persónulegu áhugamáli sínu að í heimspressunni.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra og utanríkisráðherra, verða í kjölfar þessa einleiks dómsmálaráðherra, að taka af öll tvímæli um að Íslendingar hafi ekki uppi nein áform um stofnun heimavarnarliðs.

Hvað þýða hugmyndir dómsmálaráðherra?
En ef við skoðum aðeins nánar þessa tillögu dómsmálaráðherra, sem virðist eins og að ofan segir nokkuð mótuð af hans hálfu, þá kemur ýmislegt áhugavert í ljós.

Með stofnun 21 þúsund manna heimavarnarliðs yrði 42,7% karlmanna á aldrinum 18 til 40 ára gert að sinna herskyldu. Þótt fastaherinn eigi að vera undir 1000 manns þá verður að gera ráð fyrir því að heimavarnarliðið þyrfti að halda sér í þjálfun. Slík grunnþjálfun myndi vera 4-6 vikur á ári, sem er ívið meira en sumarfrí flestra launamanna. Ætli dómsmálaráðherra geri ráð fyrir að menn taki sér launalaust leyfi frá störfum eða mun verða greitt sérstakt herorlof til heimavarnarliðsmanna við æfingar?

Ætli dómsmálaráðherra hafi hugsað sér að taka hér upp herskyldu til að manna þessa sveitir? Viðurlög við því að svíkjast undan herskyldu geta ekki verið önnur en fangelsi. Ef miðað er við að 10% herskyldra manna svíkist undan herskyldu, sætu hér reglulega í fangelsi um 2.100 manns vegna þessa. Yfirmaður fangelsismála hefur þá væntanlega hugsað sér að byggja eins og tíu fangelsi til viðbótar til að mæta þessari auknu þörf. Ef ekki á að taka upp herskyldu, hvernig ætlar dómsmálaráðherra þá að fá fólk til að fórna sumarfríinu sínu til að skríðu upp í drullu og klifra upp kaðla? Stendur kannski ekki til að þjálfa heimavarnarliðið, heldur bara rífa það út af skrifstofunum í jakkafötunum þegar óvinurinn birtist?

Auðvitað þyrfti að búa heimavarnarliðið vopnum. Lágmarksútbúnaður er hermannagalli og einn sjálfvirkur M-16 hríðskotarifill. Búnaðurinn yrði að sjálfsögðu að vera í vörslum hvers og eins til að hægt væri að bregðast hratt við árás óvinaherja. Það myndi þýða að á 21 þúsund íslensku heimili, væri alsjálfvirkur hríðskotarifill til taks inni í fataskáp. Og hvað halda menn að leynist margir vafasamir aðilar í 21 þúsund manna varaliði? Þegar við heyrum um fjöldamorð í skotárásum erlendis eru talsverðar líkur á því að viðkomandi morðingi hafi hlotið þjálfun í meðferð skotvopna hjá her viðkomandi lands og morðvopnið sem notað hafi honum einmitt verið látið í té af sama her. Hingað til hefur víkingasveitin átt fullt í fangi með ruglaða drykkjurúta veifandi haglabyssuhólkum – hvernig yrði staðan ef viðkomandi hefði alsjálfvirkan M-16 hríðskotarifil með skotgetu upp á 20 skot á sekúndu og þjálfun í meðförum hans?

Ef eitthvert gagn ætti að vera í heimavarnarliði dómsmálaráðherra þyrfti að leggja því til orrustuflugvélar, þyrlur, herskip og ýmislegt fleira. Ætla má að stofnkostnaðurinn hlypi á tugmilljörðum og rekstrarkostnaðurinn á ári yrði litlu minni. Annars er kostnaðarþátturinn efni í sérstakan pistil og verður ekki nánar vikið að honum hér.

Ætli menn geri sér almennt grein fyrir því, að ef þessar tillögur dómsmálaráðherra yrðu að veruleika, yrði Ísland með allra hervæddustu þjóðum heims? Aðeins Ísraelar hefðu hærra hlutfall þjóðarinnar undir vopnum. Er þetta framtíðarsýn eins af forystumönnum ríkisstjórnarinnar? Til samanburðar má geta þess að Lúxemborg, sem hersinnar nefna oft til dæmis um lítið land með her, heldur uppi “heimavarnarliði” sem er eiginlega arfur frá liðnum tíma. Það telur alls 160 manns og þar af eru 60 hljóðfæraleikarar í lúðrasveit hersins (Fréttablaðið, 13. júlí).

Varnarhagsmunir íslensku þjóðarinnar
Í umræðum um áframhaldandi veru bandaríska varnarliðsins hér á landi verður mönnum gjarnan tíðrætt um varnarhagsmuni Íslendinga og hugsanlega ógn sem að landinu steðjar. Fáir geta haldið því fram með nokkurri sannfæringu að alvarleg ógn steðji að landinu nú á tímum. Því hefur hins vegar verið haldið fram að sama hafi verið uppi á teningnum á Manhattan þann 11. september 2001. Það er alveg rétt, engin gat spáð fyrir um þær árásir – og öflugasta herveldi sögunnar gat ekki varist þeim! Hvernig í ósköpunum dettur mönnum þá í hug að íslenskt heimavarnarlið komi til með að skipta sköpum ef einhver vildi gera okkur skráveifu hér?

Og ef einhverjum dytti í hug að gera allsherjarárás á Ísland og hugsanlega hernema það, hvílir sú skylda á bandalagsþjóðum okkar að verja að landið. Vegna landfræðilegrar legu landsins, þyrfti slík allsherjarárás nokkurn fyrirvara og því lag fyrir bandalagsþjóðirnar, bæði Bandaríkjamenn og Breta, að senda hingað viðbragðssveitir í tæka tíð. Til að ráða við bófaflokka, eins og þá sem dómsmálaráðherra nefndi í samtalinu við AP-fréttastofuna, sem gætu séð sér í hag að gera hér usla, væri kannski ekki úr vegi að efla lögregluna og þá einkum sérsveitir hennar, fremur en að vígvæða stóran hluta þjóðarinnar og hneppa í herskyldu.

Vera bandaríska varnarliðsins hér á landi er því núorðið miklu fremur liður í víðtæku varnarsamstarfi vestrænna þjóða en að því sé stefnt gegn einhverri ákveðinni ógn. Ísland er hlekkur í þeirri keðju sem þetta varnarsamstarf byggir og hér verður að vera lágmarksviðbúnaður af hálfu bandalagsins. Á þetta hefur ríkisstjórn Íslands lagt áherslu og þessi sjónarmið virðast njótandi vaxandi skilnings meðal bandarískra ráðamanna, ef marka má frétt Washington Post, sem áður er vitnað til. Forystumenn ríkisstjórnarinnar eiga hrós skilið fyrir að hafa haldið vel á þessum málum fram til þessa. Vonandi verður frumhlaup dómsmálaráðherra ekki til þess að spilla þeirri vinnu.

Í stað þess að fara fram í heimspressuna með algjörlega óraunhæfar og í raun fáránlegar hugmyndir um stofnun íslensks hers, og skaða þannig hagsmuni íslenska ríkisins í viðræðunum við Bandaríkjamenn, ætti dómsmálaráðherra fremur að einbeita sér að sínum eigin málaflokkum; að efla lögregluna, landhelgisgæsluna og björgunarsveitir þessa lands. Þar eru þó raunverulegir varnarhagsmunir til staðar.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)