„Pornstar in training“

Algengt er að sjá börn og unglinga klædd í föt með klámmyndum og klúryrðum. Þetta vekur upp fjölmargar spurningar sem erfitt er að svara. Hvað er það sem veldur eftirspurn fyrir fötum af þessu tagi fyrir börn og unglinga? Hverjir eru það sem bera ábyrgð á þessu?

Það er ekki laust við að manni bregði við að sjá 10 ára gamalt barn klætt í bol með klámfenginni áletrun. Þetta vekur mann óneitanlega til umhugsunar. Nú er algengt að sjá börn og unglinga klædd í föt með klámmyndum og klúryrðum, eða jafnvel í föt sem henta engum öðrum en vændiskonum. Klæðnaður af þessu tagi er ágætur þar sem hann á við, en börn og unglingar eiga ekki að vera í fötum sem er hannaður og hugsaður fyrir fullorðið fólk.

Hvað veldur eftirspurn eftir fötum af þessu tagi fyrir börn? Heimta börnin sjálf að fá svona föt? Er hópþrýstingurinn skýringin? Finnst foreldrunum þetta kannski flott? Eða eru það framleiðendurnir sem stjórna tískustraumunum?

Þessum spurningum er erfitt að svara en nokkrar staðreyndir liggja ljósar fyrir. Börn eru í fötum með klámyrðum og klámmyndum. Ungar stúlkur eru einnig oft í djörfum fatnaði sem virðist ekki hafa neinn annan tilgang en að gera þær að kynverum. Hvers vegna er 10 ára stúlka í g-streng? Hver ber ábyrgðina? Eru það verslanirnar sem selja fötin, eru það foreldrarnir sem kaupa þau eða er það samfélagið sem samþykkir þau með þögninni?

Ef börn klæðast fatnaði sem kyngerir þau, þá er það augljós afleiðing að þau og aðrir munu sjá þau sem kynverur. Ef að það er fyrst og fremst litið á þau sem kynverur en ekki manneskjur þá er kynferðið farið að skipta megin máli. Það er ákaflega dapurlegt að það það skuli í raun vera til markaður fyrir vörur, sem beinlínis ýta undir þá ógeðslegu hugmyndir að óstálpuð börn séu í raun kynverur, á sama hátt og fullorðið fólk. Djarfur klæðaburður barna ýtir einnig undir brenglaða sjálfsmynd og það sem hættulegra er, hann veitir fólki með afbrigðilegar hneigðir í garð barna innri réttlætingu fyrir hegðun sinni og hugsunum.

Hvað er til ráða? Ekki er ólíklegt að einhverjum þætti við hæfi að banna einfaldlega barnaföt með kynferðislegum undirtóni eða að láta yfirvöld refsa verslunum sem markaðssetja og selja slíkan fatnað. Þessar lausnar ná þó ekki að höggva að rót vandans. Þótt vel kæmi til greina að neytendur tækju sig saman og blésu til refsiaðgerða, í formi sniðgöngu, gegn slíkum verslunum er það alls ekki nægjanlegt. Ábyrgðin liggur alltaf hjá okkur sjálfum.

Ég held að hvert og eitt okkar þurfi að taka ábyrga afstöðu með börnunum og sniðganga föt af þessu tagi. Ef allir gera það þá er ekki markaður fyrir fötin. Ég skora á lesendur Deiglunnar að láta í sér heyra og fordæma það að sakleysið sé tekið af börnunum á þennan hátt, ekki viljum við að litið sé á börnin okkar sem kynverur.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.