Jim Clark og Netscape

Sérvitringurinn Jim Clark, stofnandi Netscape, lætur ekki margt sér fyrir brjósti brenna.

Í dag eru sex ár síðan fyrirtækið Netscape var sett á markað í Bandaríkjunum. Í hugum margra markaði sá dagur upphafið af einhverri mestu uppsveiflu í sögu bandarískra hlutabréfamarkaðarins og jafnvel fæðingu nýja hagkerfisins. Netscape hækkaði margfalt á fyrsta degi þrátt fyrir að verðmæti fyrirtækisins byggðist eingöngu á framtíðarvonum, en ekki hagnaði. Netscape náði snemma umtalsverðri forystu á vefvaframarkaðnum en risinn Microsoft brást skjótt við og hefur nú kaffært Netscape með því að selja Windows stýrikerfið með Explorer vafranum inniföldum.

Stofnandi Netscape heitir Jim Clark. Hann er vafalítið einhver skrautlegasti karakterinn í hátækniheimum. Clark hætti 16 ára í skóla, enda þótti hann til lítilla afreka líklegur á þeim vettvangi, og gekk í herinn. Í hernum uppgötvaðist stærðfræðihæfileiki hans og hann var sendur í skóla þar sem hann lauk B.Sc. prófi í eðlisfræði og doktorsprófi í tölvunarfræði. Síðar var hann einn af stofnendum Silicon Graphics en varð svo leiður á skriffinnskunni þar á bæ og stofnað Netscape. Eftir að hafa komið Netscape á legg komst hann að þeirri niðurstöðu að leiðin til þess að sigra Microsoft væri að ráðast inn í heilsugeirann í Bandaríkjunum. Hann réð til sín hóp verkfræðinga og stofnað fyrirtækið Heltheon, sem upphaflega átti að heita Healthscape, og var markmið fyrirtækisins að vera miðdepillinn í allri tölvu- og gagnaumsýslu hins risavaxna bandaríska heilbrigðisgeira. Hinar háleitu hugmyndir náðu ekki fram að ganga og síðar sameinaðist Heltheon netfyrirtækinu WebMD.

Helsta áhugamál Clark er að stússa í því að forrita heimsins stærstu seglskútu, sem hann lét smíða fyrir sig. Báturinn ber nafnið Hyperion og er algjörlega stýrt af tölvum. Í bókinni The New New Thing, eftir Michael Lewis, er ævintýralegum ferli Clark lýst með sérstakri áherslu á nánast geðveikislega þráhyggju hans varðandi bátinn. Clark hefur stofnað fyrirtæki í kringum forritun bátsins. Fyrirtækið heitir Seascape og bindur Clark vonir við að tölvukerfi bátsins geti síðar nýst til þess að stjórna bæði bátum og heimilum fólks.

Clark gaf sjálfur út sögu Netscape árið 1999 og þar lýsir hann því m.a. hvernig, og af hverju, hann stóð fyrir því að Microsoft lenti í málaferlum vegna einokunartilburða. Það er e.t.v. ekki skrýtið þar sem yfirburðastaða Microsoft varð til þess að Netscape, sem um tíma leit út fyrir að geta ógnað veldi Microsoft, er nú orðið að undirdeild í America Online. En þótt Netscape hafi ekki náð að velta Microsoft úr sessi þá er víst að fyrirtækið flýtti verulega fyrir þeirri þróun sem á örskömmum tíma hefur gjörbreytt viðskipta- og lífsháttum á Vesturlöndum. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að það séu ekki nema sex ár síðan fyrsta alvöru vafrafyrirtækið fór á markað – slíkar hafa breytingarnar orðið, sennilega þær mestu á svo skömmum tíma í sögu mannkyns.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.