Vogun vinnur, vogun tapar

Án öflugra leitarvéla væri Netið varla svipur hjá sjón. Leitarvélar eru forsenda þess að hratt og einfaldlega sé hægt að finna nauðsynlegar upplýsingar á Netinu. Google er stærsta og mest notaða leitarvélin um þessar mundir og fara vinsældir hennar sívaxandi.



Almennt er talið að fyrsta leitarvélin hafi verið forrit sem skrifað var árið 1990 af Alan Emtage þá háskólanemi við McGill háskólann í Montreal sem hann kallaði archie. Archie var skrifað fyrir daga veraldarvefsins en byggði á sömu hugmynd og leitarvélar gera í dag. Leitarvélin hans safnaði saman upplýsingum á kerfisbundinn hátt og bjó til gagnagrunn sem einfalt var að leita í. Með tilkomu veraldarvefsins jókst þörfin enn frekar fyrir öflugar leitarvélar.

Fyrirrennari nútíma leitarvéla var forrit sem skrifað var af Matthew Gray sem hann kallaði World Wide Web Wanderer. Upphaflegur tilgangur þess var að fylgjast með útbreiðslu veraldarvefsins en fljótlega var því breytt þannig að það fór einnig að safna saman slóðum að vefsíðum. Forritið hans var það fyrsta sem notfærði sér þann eiginleika síðna á veraldarvefnum að í þeim geta verið slóðir yfir á aðrar síður. Með því að fylgja þeim slóðum sem búið var að finna var hægt að finna nýjar slóðir og rekja sig þannig áfram.

Google sem er stærsta og mest notað leitarvélin um þessar mundir byggir á þessum hugmyndum. Frá því að Google Inc. var stofnað árið 1998 af tveimur háskólanemum við Stanford hefur fyrirtækið vaxið hratt. Google Inc. er nú rekið með hagnaði og sker sig þannig frá flestum öðrum netfyrirtækjum. Leitarvélin sjálf hefur líka vaxið með ótrúlegum hætti. Google geymir nú yfir 3 milljarða af vefsíðum sem hægt er að leita í og framkvæmir yfir 200 milljón fyrirspurnir á dag. Frá upphafi hefur Google byggt á þeirri hugmynd að vera eins einföld í notkun eins og hægt er. Þetta ásamt því að finna það sem beðið er um hefur tryggt henni vel yfir 50% markaðshlutdeild sem stöðugt fer vaxandi.

Mikilli markaðshlutdeild fylgja óhjákvæmilega ákveðnar skyldur hvað varðar jafnræði, tjáningarfrelsi, persónuvernd og verndun höfundaréttar. Leitarvélin er nú þegar orðin það öflug að ástæða er að velta því fyrir sér hvort setja þurfi sérstakar reglur um hana. Töluverðir hagsmunir eru í húfi. Hagsmunir notenda Google, þeirra sem veita þjónustu á Netinu og ekki síst hagmunir Google sjálfs fara yfirleitt vel saman. Stundum stangast þeir þó á og ef til vill oftar eftir því sem markaðshlutdeild Google verður meiri og leitarvélin öflugri.

Röðin sem Google birtir niðurstöður sínar í skiptir mörg vefsvæði miklu máli hvað varðar viðskiptahagsmuni þeirra. Röðin getur ráðið úrslitum hvort grundvöllur sé fyrir þeirri þjónustu sem veitt er enda er umferð til vefsvæðisins háð hversu ofarlega tilvísun í það birtist í niðurstöðunum. Eftir því sem markaðshlutdeild Google verður meiri því mikilvægari verður staðsetningin í röðinni.

Lítið er vitað um hvernig Google raðar upp síðunum en greinilega er reynt að raða þeim upp þannig að þær síður sem innihalda besta efnið séu efst. Google metur gæði síðu meðal annars eftir því hversu margar aðrar síður vísa í hana en hvernig þetta er nákvæmlega gert er vel varið leyndarmál. Auðvitað er mikilvægt að jafnræðis sé gætt þegar röðin er ákveðin. Hingað til virðist það hafa tekist vel en þó hafa nokkur fyrirtæki nýlega höfðað mál á hendur Google eftir að leitarvélin ákvað að birta færslur þeirra neðar.

Annað sem þarf að huga að þegar markaðshlutdeild er orðin þetta mikil er að Google valdi ekki ritskoðun. Færa má rök fyrir því að ákveði Google að birta ekki niðurstöður um ákveðin efni þá takmarki það möguleika almennings það mikið að nálgast efnið að það sé í reynd orðin ritskoðun. Með þeim hætti gæti Google valdið skerðingu á tjáningarfrelsi með því að birta bara sumar skoðanir en aðrar ekki.

Á móti kemur að Google sýnir enga slíka tilburði heldur keppist þvert á móti við að finna sem allra mest. Upp á síðkastið hefur Google einmitt einna helst verið gagnrýnt fyrir að finna of mikið. Sérstaklega hefur gagnrýninni verið beint að þeim afritum sem hægt er að sækja beint frá Google. Á það einkum við afrit af efni sem er varið af höfundarétti.

Afskaplega einfalt er að leita að upplýsingum, líka upplýsingum um einstaklinga. Þegar niðurstöðum leitar að tilteknum einstaklingi er safnað saman er oft hægt að gera sér nokkuð skýra mynd af skoðunum og lífi hans. Þetta sýnir glögglega hversu nauðsynlegt er að vera vakandi gagnvart óþarfa skráningu upplýsinga og dreifingu þeirra á Netinu. Þó það sé markmið hvorugs aðila, hvorki Google né þess sem skráði upplýsingarnar og setti á Netið, að njósna um fólk þá gerir einfalt aðgengi að miklu magni upplýsinga öðrum kleift að misnota þær. Á sama hátt verður vandamálið varðandi dreifingu á efni vörðu með höfundarétti erfiðara viðfangs eftir því sem leitarvélin finnur meira af því.

Eftir því sem yfirburðir Google verða meiri aukast því miður líkurnar á að sett verði lög eða reglur um hvernig leitarvélar eigi að haga sér eins og hefur verið gert á öðrum sviðum þar sem ákveðin fyrirtæki hafa komist í algjörlega markaðsráðandi stöðu. Hugsanlega er það eina leiðin sem er fær en hafa verður í huga að hingað til hefur Google ávallt tekið á vandasömum málum af sanngirni og reynt að sætta gagnstæð sjónarmið. Vonandi mun lagasetning ef af henni verður ekki koma niður á þróun tækninnar.

Latest posts by Eðvarð Jón Bjarnason (see all)