Af hverju er Skaginn á toppnum?

Þeir voru ekki margir sem reiknuðu með því í vor að lið Skagamanna yrði með efstu liðum í Símadeildinni, hvað þá að liðið væri efsta sæti þegar einungis fimm umferðir væru eftir af mótinu. Gífurlega erfið skuldastaða félagsins og brotthvarf ýmissa lykilmanna gerði það að verkum, að flestir töldu raunsætt markmið Skagamanna að halda sæti sínu efstu deild. Það er því eðlilegt að velta því fyrir sér, hvað hefur eiginlega orðið til þess að staða liðsins er jafn sterk nú og raun ber vitni.

Í fyrsta lagi er ljóst að Ólafur Þórðarson er að sanna, að árangur hans með Fylkisliðið fyrir þremur árum, þegar hann stýrði því til yfirburðasigurs í 1. deild og lagði grunninn velgengni Fylkis nú, var engin tilviljun. Ólafur býr að mikilli reynslu sem leikmaður og smám saman hefur hann þroskast sem þjálfari. Kunnugur segja að tilkoma Aðalsteins Víglundssonar, sem lék með Fylki undir stjórn Ólafs en áður með Skagamönnum, í starf aðstoðarþjálfara hafi breytt miklu. Þeir Aðalsteinn og Ólafur er sagðir vinna eins eftir eins konar „good cop – bad cop“ vinnulagi, þar sem sá fyrrnefndi býr yfir miklu jafnaðargeði en sá síðarnefndi er, eins og flestum er kunnugt, mikill skapmaður.

Í öðru lagi er ljóst, að stjórn félagsins er í betra horfi nú en verið hefur undanfarin ár. Deiglan greindi reyndar frá því í vor, þegar Gunnar Sigurðsson var fenginn til að gegna formennsku knattspyrnufélagsins, að tilkoma hans hefði aukið með Skagamönnum bjartsýni. Gunnar, eða Gunni bakari eins og hann er jafnan kallaður, hefur stjórnað félaginu á mestu blómaskeiðum þess síðustu áratugi. Hann lét af störfum um líkt leyti og Guðjón Þórðarson var rekinn frá félaginu og eftir það lá leið þess niður um nokkurra ára skeið. Gunnar hefur tiltrú allra sem nálægt starfi félagsins; leikmanna, stuðningsmanna og styrktaraðila.

Í þriðja lagi hafa einstakir leikmenn Skagaliðsins blómstrað á vellinum í sumar. Fyrstan skal þar nefna Gunnlaug Jónsson, sem snéri heim úr atvinnumennsku til að leika með sínu gamla félagi. Gunnlaugur hefur verið allt í öllu í varnarleik ÍA og brugðið sér í sóknina öðru hverju með góðum árangri. Hlýtur Gunnlaugur að koma sterklega til álita þegar valinn verður leikmaður mótsins á lokahófi KSÍ. Aðrir leikmenn, eins og markahrókurinn Hjörtur Hjartarson, Grétar Rafn Steinsson, Pálmi Haraldsson og Reynir Leósson hafa einnig komið sterkir inn.

Kannski skiptir mestu máli, að vegna bágrar fjárhagsstöðu hafa Skagamenn þurft að treysta á hóp yngri leikmanna – og þeir hafa sýnt að þeir eru traustsins verður. Þá var launakostnaður skorinn svo niður, að fullyrða má að leikmenn liðsins séu næstum að fullu áhugamenn en ekki atvinnumenn í knattspyrnu. Með áhugamennskunni fylgir ákveðið hugarfar sem tilfinnanlega hefur vantað hjá ónefndu stórliði hérlendis í sumar. Ef Skagamenn standa uppi sem sigurvegarar Íslandsmótsins má kannski segja, að áhugamennskan, leikgleðin og stoltið yfir því að spila fyrir sitt félag hafi sigrað þá gerviatvinnumennsku sem búið hefur um sig hjá flestum félögum og leikmönnum hér á landi undanfarin ár.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)