Sæti á EM 2004 er fullkomlega eðlileg krafa

„Þetta landslið frá Andorra er án vafa það allra slakast sem þessi íþróttafréttamaður hefur augum barið.“ Taka má heilshugar undir þessi orð sem viðhöfð voru í kvöldfréttum sjónvarps í gær eftir leik Íslands og Andorra. Menn hljóta að spyrja sig um tilgang þess að spila svona leiki.

Hann var heldur tilkomulítill sigur íslenska landsliðsins landsliði Andorra á Laugardalsvelli í gær. Taka má að fullu undir orð íþróttafréttamans Ríkissjónvarpsins sem lýsti því yfir í 10-fréttunum í gærkvöldi, að lið Andorra væri það slakasta sem hann hefði augum barið. Sú spurning hlýtur að vakna, hvaða tilgangi það þjóni að etja kappi við slíkt lið?

Framundan er undankeppni Evrópumótsins í fótbolta og fullyrða má að aldrei hafa Íslendingar átt jafn góðan möguleika og nú að tryggja sér sæti í lokakeppninni. Eftir frábæran árangur í undankeppni EM fyrir fjórum árum, þar sem í Íslendingar voru í sannkölluðum dauðariðli með heimsmeisturum Frakka, Rússum og Úkraínumönnum, er íslenska liðið nú komið upp í þriðja styrkleikaflokk.

Á miðað við þann mannskap sem þjálfara íslenska landsliðsins stendur til boða um þessar mundir, verður það teljast afar líklegt að markmiðið um sæti í lokakeppninni náist. Eiður Smári Guðjohnsen er leikmaður í heimsklassa, til boða standa leikmenn sem þykja með þeim bestu í Skandinavíu og nokkrir leikmenn sem spila með sterkum liði í 1. deila á Englandi, sem er að verða með sterkustu deildum í heimi. Þá eru ótaldir atvinnumenn í allra sterkustu deildum heims, úrvalsdeildinni á Spáni og þýsku Bundesliegunni.

Þar við bætist að þær þjóðir sem leika með Íslendingum í riðli hafa ekki þótt ýkja burðugar á knattspyrnusviðinu. Frændur okkur Færeyingar er fallbyssufóður í knattspyrnulegum skilningi og Litháar eru langt fyrir neðan Ísland á styrkleikalista FIFA. Skotar, sem eru í 2. styrkleikaflokki í riðlinum, og eiga þar með að vera með betra lið en Íslendingar, eru í millibilsástandi og ættu að vera auðveld bráð.

Sigur heima og að heiman gegn Litháum og Færeyingum gefur tólf stig, og þessi stig hlýtur að vera hægt að bóka. Fjögur stig gegn Skotum og þá er íslenska liðið komið með 16 stig. Fyrst hægt var að ná jafntefli við heimsmeistara Frakka haustið 1998, sigra Rússa og gera jafntefli við Úkraínu á útivelli, þá ætti að vera hægt að merja eitt stig út úr tveimur viðureignum við Þjóðverja.

En þótt allt bendi til að hagstæður árangur sé innan seilingar, þá er hann síður en svo sjálfgefinn. Huga þarf vel að undirbúningi liðsins, þjálfari þess þarf að vera vel meðvitaður um ástand og getu allra leikmanna og þekkja veikleika og styrkleika andstæðinga okkar til hlítar. Ef menn vinna sína vinnu af fagmennsku, þá þarf ekki að kvíða útkomunni.

Í þessu ljósi er furðulegt að hingað til lands sé fengið lið til að leika æfingaleik sem ekki getur nokkurn skapaðan hlut. Hvað skyldi hafa komið út úr leiknum í gær, sem nýtist íslenska landsliðinu þegar kemur að riðlakeppninni? Jú, það er staðfest að Eiður Smári og Ríkharður Daðason geta skorað svotil að vild hjá varnarmönnum meðal þriðjudeildarliðs – en vissum við það ekki fyrir? Og af hverju spilaði íslenska liðið bara eðlilegu tempói annan hálfleikinn? Eru menn að hóa saman mannskap í svona leik til að tryggja sér sigur eða til að fá einhverja æfingu út úr leiknum?

Það er einnig furðulegt að það sé ætlunin að leika einungis tvo æfingaleiki áður en riðlakeppnin hefst. Er þetta allur metnaðurinn? Var leikur íslenska landsliðsins svo sannfærandi gegn Dönum og Írum á síðasta ári í undankeppni HM að við getum leyft okkur að hafa það bara notalegt, skemmtilegt og æðislegt?!

Leikurinn gegn Skotum á Laugardalsvelli þann 12. október næstkomandi kemur til með að ráða miklu um niðurstöðuna í riðlinum og þar með hvort Íslendingum tekst að komast í lokakeppnina. Það er eðlileg krafa að Íslendingar nái 2. sæti í riðlinum, annað væri hreinlega slys.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)