Ánægjulegar hugmyndir sjávarútvegsráðherra

byggðakvóti, Árni MathiesenÍ kjölfar nýlegs álits umboðsmanns Alþingis hefur Árni Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, viðrað hugmyndir um afnám byggðakvóta og að línuívilnun komi í hans stað. Þessar hugmyndir eru svo sannarlega fagnaðarefni.

byggðakvóti, Árni MathiesenÍ kjölfar nýlegs álits umboðsmanns Alþingis hefur Árni Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, viðrað hugmyndir um afnám byggðakvóta og að línuívilnun komi í hans stað. Í Morgunblaðinu í morgun segir Árni: „Mér sýnist niðurstaða umboðsmanns hreinlega vera að það sé mjög vafasamt að það sé hægt að vinna svona matskenndar úthlutanir. Það verði að setja miklu hlutlægari reglur í kringum þetta. Þetta setur að mínu mati stórt spurningarmerki við byggðakvótaúthlutanir eins og þær hafa verið stundaðar.“

Hér hittir Árni svo sannarlega naglann á höfuðið. Helsti ókostur byggðakvótans er einmitt það að úthlutun hans er óhjákvæmilega byggð á huglægu mati ráðherra. Hún er því á mjög gráu svæði hvað varðar stjórnsýslulög. Það er því fagnaðarefni að Árni hafi í þessu sambandi rætt hugmyndir um afnám byggðakvóta.

Halldór Ásgrímsson bendir á það í Fréttablaðinu í morgun að þessar hugmyndir Árna stangist á við stjórnarsáttmálann. Halldór segir að byggðakvóti verði ræddur innan ríkisstjórnarinnar á grundvelli stjórnarsáttmálans. Það var svo sem auðvitað að Framsóknarflokkurinn legðist gegn þessum hugmyndum eins og svo mörgum öðrum góðum málum.

Stefna Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum er skýr. Hann vill að takmarka framseljanleika aflaheimilda og auka byggðakvóta. Eða með öðrum orðum rýja greinina allri hagkvæmni og ýta undir gamaldags fyrirgreiðslupólitík á kostnað markaðslögmálanna. Maður spyr sig einfaldlega hvort það er þess virði fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vera í ríkisstjórn þegar hann þarf að láta undan í jafn miklum mæli og raun ber vitni fyrir þessum markmiðum Framsóknar.

Sú stefna sem mörkuð var í stjórnarsáttmálanum var slæm stefna. En batnandi ríkisstjórnum er best að lifa. Hugmyndir sjávarútvegsráðherra á síðustu dögum eru skynsamlegar og það er vonandi að ríkisstjórnin sjái villu síns vegar í þessu máli og breyti stefnu sinni til samræmis við hugmyndir hans.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.