Hlutverk miðbæjarins

ReykjavíkEkki fer fram hjá neinum að fjör miðbæjar Reykjavíkurborgar fer því miður þverrandi. Atvinnustarfsemi er að miklu leyti að færast annað og þar með stór hluti þess fólks sem undanfarin ár hafa gætt miðbæinn lífi. Rótækar breytingar þarf til að snúa þessari þróun svo sem að gera fólki kleift að leggja ókeypis niðri í bæ og loka fyrir umferð bíla um Laugaveginn.

ReykjavíkÍ góðæri síðustu ára hefur verslunarmynstur Íslendinga breyst nokkuð. Ódýrar verslunarferðir til Glasgow og London virðast nú heyra sögunni til og hefur aukin samkeppni í verslun og viðskiptum blessunarlega fært okkur nær evrópsku verðlagi. Jafnframt höfum við tekið upp verslunarhætti Bandaríkjamanna og eigum við nú a.m.k. tvær fullvaxnar verslunarmiðstöðvar að bandarískri fyrirmynd auk fjölda annarra smærri verslunarkjarna.

Með tilkomu stóru verslunarmiðstöðvanna hefur kaupendum fækkað í miðborginni og sífellt erfiðara er fyrir kaupmenn að starfrækja verslanir sínar í hjarta Reykjavíkurborgar.

Ekki í flýti

Samkeppni á milli miðbæjarins, Kringlunnar og Smáralindar fer síharðnandi enda ljóst að varla er markaður fyrir þrjá stóra verslunarkjarna í borg með rétt yfir hundraðþúsund íbúa. Í samkeppninni hafa kaupmenn í miðbænum reynt að stíla inn á sérstöðu hans og bent á að þar sé einstök stemning. Einnig hefur Reykjavíkurborg og samtök verslunarmanna í miðbænum lagt töluverða áherslu á að hafa viðburði sem trekkja að fólk; svo sem Magnaður miðbær, sem hefst 19. júlí næstkomandi, að ógleymdri Menningarnótt, sem er árlega haldin í ágúst. Hefur þessi þróun leitt til þess að kaffihúsum og veitingastöðum hefur fjölgað mikið á kostnað fataverslana. Alls kyns sérverslanir virðast þó þrífast ágætlega í miðbænum. Búðir sem selja vörur sem fólk gefur sér góðan tíma til að skoða t.d. búðir sem selja listvörur og skartgripi, virðast ganga ágætlega. Að ókönnuðu máli virðist sem fólk fari ekki í miðbæinn ef það er að flýta sér.

Bílastæðavandinn

Bíórekstur er að miklu leyti að hverfa úr miðborginni og nú er svo komið að einungis eitt kvikmyndahús er starfrækt á þessu svæði. Í slíkum rekstri hafa menn áttað sig á því að til að reka bíó með góðum árangri er nauðsynlegt að hafa gott úrval af nýjum kvikmyndum, nóg af bílastæðum og góða sýningasali. Nokkurn veginn í þessari forgangsröð. Því gefur augaleið að miðbærinn hefur hin seinni ár ekki þótt hentugur staður fyrir bíórekstur vegna fárra bílastæða í næsta nágrenni við kvikmyndahúsin.

Í mesta lagi 200 m

Bílastæðavandinn er að hrella fleiri en þá sem standa í rekstri kvikmyndahúsa. Því var einhvern tíman haldið fram að almenna reglan væri sú að fólk nenni ekki að ganga meira en tvöhundruð metra til að sinna erindum sínum og það væri u.þ.b. viðmiðið sem Reykjavíkurborg hefði þegar staðsetning bílastæðahúsa væri ákveðin. Því hafa bílastæðahúsin sprottið upp hér og þar um miðbæinn í þeirri von að fjör færist í verslun. Þess má geta að áætlanir eru um að bílastæðahús rísi þar sem Stjörnubíó stóð og annað undir Tjörninni.

Ókeypis bílastæði og lokaður Laugavegur

Þó að mikilvægt sé að fjölga bílastæðum í miðbænum þarf meira til. Skoða mætti að leyfa fólki að leggja ókeypis í miðbænum í ákveðinn tíma, t.d. klukkutíma, og rétta þannig samkeppnisstöðu miðbæjarins gagnvart öðrum verslunarkjörnum. Þó að gjald í stöðumæla sé ekki hátt þá hefur það áreiðanlega þau áhrif að fólk fari frekar í ókeypis stæði í Kringlunni eða Smáralind, ekki síst vegna þess að þeim fer fækkandi sem ganga með skiptimynt í stöðumæla í vasanum. Einnig mætti skoða að lækka stöðumælasektir. Að leggja í miðbænum, tefjast um 5 mínútur og borga 1500 krónur er ekki spennandi kostur á meðan ekkert kostar að leggja í Kringlunni.

Annað sem gæti haft afdrifarík áhrif á miðbæinn væri að loka fyrir umferð á Laugaveginum – minnsta kosti á meðan verslanir eru opnar. Í dag virðist vera meira tillit tekið til bíla á Laugaveginum en gangandi vegfarenda. Frekar ætti að stefna að því að fá almennilega göngugötu í ætt við Strikið í Kaupmannahöfn. Meira rými yrði þá fyrir fólk sem vill versla og verslunarmenn hefðu meira svigrúm til að sýna vörur sínar. Þetta gæti jafnframt greitt götuna fyrir annarskonar starfsemi en verslunarstarfsemi svo sem opin kaffihús eða götuleikhús. Vissulega er hætta á að við missum Laugavegsrúntinn („Laugarann“) en óhætt er að fullyrða að hægt væri að finna einhvern annan stað sem menn geta keyrt löturhægt, sýnt sig og séð aðra.

101 Reykjavík – vinsælt hverfi

Fyrir mörgu ungu fólki er miðbærinn einstakur staður, ekki síst vegna fjölda kaffihúsa og veitingastaða. Þar af leiðandi er slegist um litlar íbúðir svæðinu sem margar hverjar eru komnar til ára sinna og í misjöfnu ástandi. Því hafa ráðamenn litið til þess að þétta byggð og styrkja miðbæinn með fleiri íbúum. Fyrirhugað er að byggja stórar blokkir við Skúlagötuna þar sem eru stílaðar inn á fólk á miðjum aldri sem vill flytja í minni íbúðir nær miðbænum. Einnig hefur Reykjavíkurborg og Stúdentaráð kynnt áætlun um að byggja stúdentaíbúðir við Lindar- og Hverfisgötu sem mun fjölga íbúum miðbæjarins enn frekar, ekki síst ungu fólki. Áætlanir um þéttari byggð á þessu svæði ætti því að styrkja starfsemi miðbæjarins á næstu árum.

Skerpa þarf á sérstöðu miðbæjarins

Ljóst er að til þess að líf haldist í miðbænum er nauðsynlegt að skilgreina hlutverk hans upp á nýtt og skapa honum sérstöðu. Ekki er nóg að byggja bílastæðahús hér og þar og standa fyrir viðburðum sem dregur fólk að einstaka daga. Ef miðbærinn á að halda áfram að sinna hlutverki sínu sem verslunarkjarni er nauðsynlegt að gera hann að raunhæfum valkosti fyrir Reykvíkinga í verslunarhugleiðingum. Ef stefnan er hins vegar sett á að hann taki við nýju hlutverki, hvað sem það svo sem ætti að vera, er einnig nauðsynlegt að marka þá stefnu sem fyrst og taka tillit til þess í framtíðaruppbyggingu miðbæjarins. Til mikils er að vinna því að í hugum Íslendinga skipar miðborg Reykjavíkur sérstakan sess.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.