Dauflegur miðbær

Daufur miðbærStarfandi sem þjónn á einu af kaffihúsum borgarinnar verður mér oft hugsað til erlendra ferðamanna sem flykkjast í miðbæinn í leit að hinu ævintýralega bæjarlífi sem þeir hafa lesið um í „What’s on in Reykjavík”. Myndir af útikaffihúsum og sætum stelpum með ís heilla óneitanlega, en raunin er yfirleitt önnur. Bærinn er oft gjörsamlega tómur og virðist sem flótti hafi gripið um sig meðal verslunareigenda í miðbæ Reykjavíkur.

Daufur miðbærStarfandi sem þjónn á einu af kaffihúsum borgarinnar verður mér oft hugsað til erlendra ferðamanna sem flykkjast í miðbæinn í leit að hinu ævintýralega bæjarlífi sem þeir hafa lesið um í „What’s on in Reykjavík”. Myndir af útikaffihúsum og sætum stelpum með ís heilla óneitanlega, en raunin er yfirleitt önnur. Bærinn er oft gjörsamlega tómur og virðist sem flótti hafi gripið um sig meðal verslunareigenda í miðbæ Reykjavíkur.

Útlendingar spyrja mig gjarna eftir gott bæjarrölt: „Where are all the people in Reykjavík?”. Þegar stórt er spurt verður kannski fátt um svör, en staðreyndin er einfaldlega sú að miðbær Reykjavíkur er því miður afar líflaus. Það vantar einfaldlega fólk í bæinn. Ástandið myndi stórbatna ef stórfyrirtæki landsins myndu byggja upp vinnustaði sína í miðbænum. Þannig myndi fjöldinn allur eiga erindi í bæinn, kaffihúsin fyllast, veitingastaðirnir blómstra og án efa myndu verslanir á Laugaveginum halda uppi öflugri viðskiptum.

Vandamálið sem fyrirtæki standa eflaust frammi fyrir er að finna almennilegt atvinnuhúsnæði í miðbænum og nokkuð vonlaust er að fá þar byggingarlóð þar sem friðaðir bárujárnshjallar standa víða illa á sig komnir. Ef þessi gömlu hús eru slík þjóðargersemi að ekki megi rífa þau, hví má þá ekki flytja þau líkt og mörg önnur sögufræg hús þar sem þau fá notið sín?

Þegar gengið er um Laugaveginn blasa við óhugnanlega margar tómar verslanir sem annað hvort hafa gefist upp eða flutt starfsemi sína í Kringluna eða Smáralind. Ástandið er ömurlegt; mörgum húsanna er ekkert haldið við og þau grotna niður. Framtíðin er ekki björt fyrir Laugaveginn ef svo heldur fram sem horfir.

Annað vandamál sem miðbærinn þarf að kljást við er hið blessaða ógæfufólk borgarinnar. Þetta ágæta fólk, líkt og við öll hin, vill fá að njóta sumarsins og hafa það huggulegt í miðbænum. Því miður er fyrirferðin í því oft slík að fólk hrökklast í burtu vegna framgangs þeirra. Foreldrar með börn sín hafa lítinn áhuga á að hlusta á dónaræður og rifrildi þessa fólks á fallegum sumardögum og hafa ófáir reynt að fá lögregluna til að gera eitthvað í málinu. Svo virðist sem hún geti lítið gert annað en að taka þá allra verstu og færa þá á lögreglustöðina á Hlemmi. Skammgóður vermir það því eins og flest okkar vita tekur röltið niður Laugaveginn um hálftíma og vandræðin því mætt í miðbæinn að nýju.

Það sem hefur gefið miðbænum líf að undanförnu er hin skemmtilega ljósmyndasýning „Jörðin séð frá himni” sem nú stendur yfir á Austurvelli. Það sem er frábært við staðsetningu sýningarinnar er að fólk úr öllum þjóðfélagsstigum sækir hana. Á þessa sýningu eru engin boðskort, enginn aðgangseyrir, einungis fallegar myndir sem allir hafa gaman af að sjá og tala um. Kaffihúsin fyllast í miðbænum og umræðan er ósjaldan þessi skemmtilega sýning.

Það er von mín að borgarfulltrúar okkar og forsvarsmenn fyrirtækja átti sig á stöðu mála og hefji allsherjaruppbyggingu á hinum eina og sanna miðbæ Reykjavíkur.

Latest posts by Ásta Sigríður Fjeldsted (see all)