Íkarus og sólin sem gefur og tekur

Maðurinn er skrýtin skepna. Þrátt fyrir að drottna yfir öðrum dýrum á jörðinni virðist á stundum sem hann sé öllu skyni skroppinn. Þessir spéhræddu prímatar eiga að vera best til þess fallnir að læra af öllum skepnum, en samt gera þeir sömu mistökin aftur og aftur, jafnvel þótt það steypi þeim í glötun. Þeir hafa einstakt lag á að misnota hluti sem hægt væri að nýta til góðs og skaða sig á því sem þeir geta ekki verið án.

Íkarus fyrir…

Flestir þekkja söguna af Íkarusi, en hann er einn þeirra sem svo illa hafa farið að ráði sínu. Hann var sonur Dædalusar, mikils uppfinningamanns og arkitekts. Dædalus vann fyrir Mínos konung á Krít og hannaði meðal annars völundarhúsið óumratanlega, sem hinn alræmdi Mínótár bjó í. Mínos neitaði eitt sinn að fórna nauti fyrir sjávarguðinn Póseidon, sem í refsiskyni gerði drottningu Mínosar ástfangna af nautinu. Afleiðinginn varð Mínótár, hálft naut og hálfur maður. Sem kunnugt er voru Mínótári færðar fórnir norðan frá Aþenu, hvaðan ungt og saklaust fólk var sent honum til átu.

Þeseifur, ein mesta hetja þeirra Aþeninga fyrr og síðar, var send á vettvang til að ráða niðurlögum Mínótárs. Ekki þótti alveg ljóst hvort Þeseifur var sonur Ægeusar Aþenukonungs eða einmitt sjálfs Póseidons, lítill heimur í þá daga. Með aðstoð Daedalusar og dóttur Mínosar gat Þeseifur ratað um völundarhúsið, haft upp á bola og kálað honum. Að vísu fagnaði hann svo mikið eftir afrekið að hann gleymdi að skipta út svörtu sorgarseglunum fyrir þau hvítu sem áttu að vera merki til konungs um að allt hefði farið vel. Ægeusi varð svo mikið um að sjá svörtu seglinn að hann kastaði sér af björgum fram.

En að aðalatriðunum; Dædalusi og Íkarusi var varpað í fangelsi fyrir aðstoðina við Þeseif. Listamaðurinn Dædalus þreifst illa í prísundinni en kom auga á útgönguleið þrátt fyrir að engin leið væri gegnum háa fangelsismúrana. Hann leit til himins og sá að þar var fuglunum engin fyrirstaða og afréð því að smíða vængi í þeirra mynd. Hann safnaði saman fjöðrum og vaxi og gerði úr því vængina.

Dædalus festi vængina á sjálfan sig og Íkarus og brýndi fyrir honum að það væri ekki sama hvernig vængirnir væru notaðir. Ef hann flygi of lágt myndu vængirnir blotna, en flygi hann of hátt myndu sólargeislarnir bræða vaxið. Þeir hófu sig svo til flugs á vit frelsis og farsælli miða.

Tilfinningin var mögnuð og Íkarusi fannst hann geta sigrað heiminn. Hann virti fyrir sér útsýnið og naut sín til fullnustu. Hann gleymdi sér smám saman, treysti um of á vængina og vellíðanina sem fylgdu fluginu. Hann fór smám saman hærra og hærra, vitandi af hættunum og þrátt fyrir viðvaranir. Þar til loks hann fór að missa flugið, vaxið bráðnaði í geislum sólarinnar. Íkarus steyptist í sjóinn og þar með var hans saga öll.

…og eftir
– fall Íkarusar eftir Marc Chagall

Enn eru Íkarusar heimsins að. Maðurinn gleymir sér þegar honum líður vel og sækir í meira. Þá fýkur öll skynsemi út á haf og menn brenna sig iðulega. Þetta má heimfæra á hvaðeina í kringum okkur, hvort sem það er .com-byltingin sem át börnin sín eða meint þverrandi viðskiptasiðferði.

Það verða alltaf til Íkarusar, sem setja allt sitt traust á eigin tilfinningu. Þeir eiga það til að gera góða hluti, en oftast steypast þeir þó í sjóinn. Það er því yfirleitt betra að treysta ekki um of á það sem maður ekki þekkir. Jafnvel sólin, sem við lifum ekki án, getur gert okkur slíkan óleik ef við gætum okkar ekki. Og hugsið ykkur svo hve samgöngum hefði fleygt fram ef Íkarus hefði ekki komið slíku óorði á uppfinningu föður síns, allt þangað til Wright bræður komu til sögunnar…

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)