Tákngervingur um afl einkaframtaksins

Þann 11. júlí næstkomandi verða fimm ár liðin síðan Hvalfjarðargöng voru opnuð almenningi. Göngin hafa frá opnun verið táknrænn minnisvarði um afl einkaframtaksins – og svo verður vonandi áfram, þótt varasamar hugmyndir hafa verið settar fram um annað.

Þann 11. júlí næstkomandi verða fimm ár liðin síðan Hvalfjarðargöng voru opnuð almenningi. Göngin hafa frá opnun verið táknrænn minnisvarði um afl einkaframtaksins – og svo verður vonandi áfram, þótt varasamar hugmyndir hafa verið settar fram um annað.

Ólíkt nær öllum öðrum meiriháttar samgönguframkvæmdum á Íslandi kom fjármagn til framkvæmda Hvalfarðargangna ekki úr ríkissjóði. Göngin kostuðu samtals 4.630 milljónir verðlagi í febrúar 1996. Hlutafélag um jarðgangnagerð, Spölur hf., tók lán að upphæð 4.244 milljónir króna, 86 milljónir voru lagðar fram sem hlutafé og ríkissjóður lagði fram tryggingu fyrir hámarki 300 milljónir ef óvænt óhöpp yrðu við gerð ganganna.

Fjármögnunarsamningar gangnanna voru á sínum tíma einstakir en Enskilda bankinn í Svíþjóð lánaði 2.474 milljónir, innlendir bankar 825 milljónir og Baring Brothers Ltd 825 milljónir. Vinna við gerð gangnanna gekk vonum framar og voru þau opnuð 11. júlí 1998, sjö mánuðum fyrr en áætlað hafði verið.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um hversu gífurleg samgöngubót Hvalfjarðargöngin eru, enda dettur fáum það í hug í dag að keyra fyrir Hvalfjörð. Notendur Hvalfjarðargangna greiða sem kunnugt er sérstakt gangnagjald, frá 500 kr. á ferð upp í 1.000 kr. á ferð, eftir því í hve miklu magni ferðir eru keyptar.

Í atkvæðaveiðum nýafstaðinna alþingiskosninga var þeirri hugmynd varpað fram að ríkið tæki yfir rekstur Hvalfjarðargangna og að gangnagjaldið yrði fellt niður. Svipaður málflutningur var viðhafður af hálfu vinstrimanna í aðdraganda bæjarstjórnarkosninga á Akranesi fyrir tveimur árum.

Það er auðvelt og freistandi fyrir stjórnmálamenn að lofa slíkum hlutum. Gjaldið er auðvitað tilfinnanlegt fyrir þá sem nota göngin mest en á móti kemur að þeir njóta væntanlega mests ávinnings af tilvist ganganna. Fylgismenn niðurfellingar gangnagjaldsins benda gjarnan á að öll önnur jarðgöng (og reyndar allar aðrar samgönguleiðir) eru „ókeypis“. Ókeypis þýðir í þessu tilviki, eins og svo mörgum öðrum, að skattgreiðendur borga brúsann.

Undirritaður er í hópi þeirra sem nota Hvalfjarðargöngin mikið, líklega fyrir um 100.000 krónur á ári. Það myndi því vera umtalsverður sparnaður fyrir heimilið ef sú ákvörðun yrði tekin að létta þessum gjöldum af undirrituðum og færa þau yfir á aðra skattgreiðendur. Jarðvegurinn er því nokkuð frjór fyrir þau sjónarmið að ríkið eigi að taka yfir rekstur ganganna og fella niður gangnagjaldið.

En þar með yrði meiri hagsmunum fórnað fyrir minni – miklu minni. Þeir sem borga mest njóta mesta ávinnings af göngunum, það segir sig sjálft. En stærsti ávinningurinn, og sá sem myndi glatast ef ofangreindar hugmyndir yrðu að veruleika, er gildi einkaframkvæmdarinnar sem slíkrar og þeirrar mögnuðu fyrirmyndar sem Hvalfjarðargöngin eru.

Við megum ekki gleyma því að Hvalfjarðargöngin hefðu líklega ekki orðið að veruleika á okkar tímum ef ekki hefði verið fyrir mátt einkaframtaksins. Með því að afbaka og skemma þessa fyrirmynd værum við að draga úr líkunum á því að slík leið yrði farin aftur.

Innan fárra ára mun ofangreint lán Spalar hf. verða að fullu greitt og eftir það mun gjaldtaka við göngin einungis standa undir reksktri þeirra og viðhaldi. Búast má við að þá lækki gjaldið verulega og verði lítt tilfinnanlegt.

Í tilefni af 5 ára afmæli gangnanna 11. júli næstkomandi verður sannarlega ókeypis í göngin. Við skulum vona, allra hluta vegna, að menn láti ekki verða af því að hafa „ókeypis“ aðra daga líka.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.