Skot í fótinn

Fjölþjóðlegt samfélagÍ umræðum um Evrópusambandið hafa andstæðingar þess oft fallið í þann fúla pytt að ala á fodómum og tortryggni í garð útlendinga í stað þess að notast við málefnaleg rök. Þessi aðferð andstæðinga Evrópusambandsins kemur sér ákaflega illa í umræðunni fyrir þá sem vilja berjast gegn aðild á grundvelli málefnanna.

Fjölþjóðlegt samfélag>Í pistli hér á Deiglunni sl. þriðjudag bendir Pawel Bartoszek á hversu ósmekklegar auglýsingar ungra sjálfstæðismanna, þar sem alið var á tortryggni í garð útlendinga, voru fyrir síðustu þingkosningar. Hann segir einnig frá nokkrum af þeim baráttuaðferðum sem andstæðingar ESB aðildar í Póllandi beittu fyrir sig, t.d. að ala á fordómum í garð samkynhneigðra.

Í Póllandi reyndist andstæðingum Evrópusambandsins gjarnan erfitt að komast málefnalega frá umræðum um kosti og galla sambandsaðildar vegna þess hve margir úr röðum andstæðinga beittu fyrir sig bjánalegum rökum og staðleysum í málflutningi sínum.

Því miður hefur umræðan á vettvangi ungra sjálfstæðismanna hér á Íslandi borið keim af svipuðum vinnubrögðum. Á heimasíðu Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna, í fyrradag var gerð tilraun til þess að fjalla um þá hættu sem leiðarahöfundur telur að steðji að Íslandi frá Evrópusambandinu. Í pistlinum er leynt og ljóst höfðað til þjóðerniskenndar lesandans og var tilgangur greinarinnar vafalaust sá að senda lesendur vel vopnum búna út í 17. júní hátíðarhöldin til þess að hafa flokkslínuna á hreinu ef Evrópusambandið bæri á góma.

Í pistlinum er látið að því liggja að þeir sem vilji að Ísland sæki um aðild að ESB séu þar með að tryggja frönskum og þýskum útgerðarfyrirtækjum rétt til þess að hrifsa fiskveiðiauðlindina úr höndum Íslands.

Þetta er vitaskuld þvert ofan í yfirlýsingar þess stjórnmálaflokks, sem einn hefur lagt til aðildarviðræður við ESB, um að ekki komi til greina að láta af hendi vald yfir auðlindinni í kringum landið. Að auki er það athyglisvert nýmæli að þýski fiskveiðiflotinn sé sérstakt áhyggjuefni í þessu samhengi.

Annað í greininni styðst lítt við staðreyndir. Í greininni er fullyrt að stuðningsmenn aðildar Íslands að ESB vilji láta af hendi tíu milljarða til Evrópusambandsins án þess að nokkuð komi í staðinn. Lítið er hægt að vita um hver yrðu nettó efnahagsleg áhrif af inngöngu Íslands í ESB og fullyrðingin á vefsíðu Heimdallar er algjörlega órökstudd og úr lausu lofti gripin.

Þá mætti helst skilja af leiðarahöfundi að hann sé einnig andvígur aðild Íslands að EES þar sem því fylgir vissulega mikið reglugerðafargan sem íslensk stjórnvöld eru nauðbeygð til að fullgilda en það felur í sér, skv. skilningi leiðarahöfundar afsal á fullveldinu. Hins vegar hafa flestir andstæðingar ESB aðildar á Íslandi lagt sig sérstaklega fram við að lofa og prísa EES samninginn, enda er hann grundvöllur þeirra blómlegu og vaxandi viðskipta sem Íslendingar eiga við lönd Evrópusambandsins.

Sjálfur hef ég marglýst efasemdum mínum um hvort heppilegt sé fyrir Ísland að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég er enn þeirrar skoðunar að Evrópusambandið sé ekki að þróast á þann veg sem ég teldi heppilegt fyrir aðildarþjóðirnar og tel að Ísland eigi að einbeita sér að því að tryggja fríverslun við sem flest ríki heimsins en það markmið virðist því miður ekki vera lengur í öndvegi hjá Evrópusambandinu.

Það gerir hins vegar þeim andstæðingum Evrópusambandsaðildar, sem telja sig vilja ræða málið á málefnalegum grunni, erfitt fyrir þegar bandamenn þeirra í baráttunni beita fyrir sig þjóðernisrökum, daginn fyrir þjóðhátíðardaginn, með hálfgildingsásökunum um að þeir sem séu á annarri skoðun séu landráðmenn.

Mörg góð og gild rök eru fyrir því að Ísland gangi ekki í Evrópusambandið. Þau stærstu eru þau að ef EES-samningurinn heldur þá getum við beitt okkur betur í baráttunni fyrir fríverslun sem aðilar að fríverslunarsvæði heldur en tollabandalagi.

Það er vonandi að umræða um stöðu Íslands í Evrópu úrkynjist ekki út í svipaðan drulluslag eins og gerst hefur víða annars staðar. Tortryggni í garð útlendinga og vafasamar fullyrðingar hjálpa lítt í baráttu þeirra sem vilja leiða fram réttmæt rök fyrir því að Ísland standi áfram utan evrópska tollabandalagsins.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.