Lekandi lögregla

FangiÞað er af sem áður var. Áður fyrr var talað sérstaklega um að rannsóknaryfirvöld hér á landi gættu mikillar varkárni við upplýsingagjöf á frumstigum rannsóknar. Ný tilfelli benda hins vegar til þess að það sé orðið létt fyrir fjölmiðla og aðra að fá aðgang að viðkvæmum upplýsingum um rannsóknir lögreglu.

FangiÞað er af sem áður var. Áður fyrr var talað sérstaklega um að rannsóknaryfirvöld hér á landi gættu mikillar varkárni við upplýsingagjöf á frumstigum rannsóknar. Ný tilfelli benda hins vegar til þess að það sé orðið létt fyrir fjölmiðla og aðra að fá aðgang að viðkvæmum upplýsingum um rannsóknir lögreglu.

Landsímamálið svokallaða hefur vakið upp mikið fjölmiðlafár á síðustu vikum. Það vekur athygli að fjölmiðlar virðast hafa haft frá byrjun mjög nákvæmar upplýsingar um stöðu rannsóknarinnar. Það gengur svo langt að á sumum fjölmiðlum virðast menn hafa vitneskju um framburð hinna grunuðu fjórmenninga í lokuðum yfirherslum hjá lögreglu nánast um leið og þeim er lokið. Við fengum t.d. að heyra um framburð þeirra og skýringar á fjármununum frá Landsímanum áður en þeir voru leiddir fyrir dómara í fyrsta skiptið vegna gæsluvarðhaldskröfunnar.

Það er hætt við því að einhvers staðar myndu menn gera athugasemdir við jafn grófan leka frá lögreglu en lögreglumenn bera eðlilega ríka þagnarskyldu skv. 22. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Þagnarskyldan er einmitt sett til verndar sakborningum og nánustu vandamönnum þeirra, vitnum og öðrum sem hafa orðið að sæta því vegna opinberrar rannsóknar að friðhelgi þeirra sé skert. Það er ljóst að þeir lögreglumenn sem eru að leka upplýsingum til fjölmiðla eru freklega að brjóta þessar trúnaðar- og þagnarskyldur sínar.

Við mat á alvarleika og réttmæti slíkra brota á þagnarskyldu verður að líta til þess hvort málefnalegar ástæður geti hugsanlega réttlætt trúnaðarbrestinn. Ekki er að sjá að umræddur leki hafi skilað nokkru fyrir rannsóknina en hann hefur hins vegar skaðað þá sem sæta rannsókn því oftast er um er að ræða upplýsingar sem benda eindregið til sektar viðkomandi. Það verður að hafa í huga að þeir sem sæta rannsókn á frumstigum máls hafa mjög lélega varnarstöðu gagnvart lögreglu. Þeir hafa ekki aðgang að gögnum máls, hafa enga heildarsýn yfir málið, eru fastir í gæsluvarðhaldi eða yfirheyrslum og geta almennt ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Sakborningar hafa því lítinn möguleika á að koma að mótrökum, vörnum eða yfir höfuð nokkru gegn slíkum upplýsingum. Að þessu leyti hefur lögreglan algjöra yfirburðarstöðu og því mikilvægt að embættin eða einstakir lögregluþjónar misnoti ekki þessa stöðu með upplýsingagjöf eða –leka til fjölmiðla að óþörfu.

Það er alvarlegt að svo virðist vera sem engar athugasemdir hafi verið gerðar við þetta innan lögreglunnar. Lögreglan hefur til meðferðar viðkvæmustu mál borgaranna og mikilvægt að þeir geti treyst því að lögreglan virði trúnaðarskyldur sínar og leki ekki öllu í fjölmiðla. Ef þessi hegðun er samþykkt innan lögreglunnar er ljóst að persónuvernd þeirra sem komast í kast við lögreglu er fyrir borð borin. Ef lögreglan gerir ekki bragarbót á þessu er illt í efni. Viðvarandi leki frá lögreglu mun grafa undan trausti almenning á lögreglunni.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.