Er R-listinn að líða undir lok?

Alger taugaveiklun virðist ríkja í samstarfi þeirra þriggja flokka sem standa að R-listanum. Allt eins gæti farið svo að upp úr samstarfinu slitnaði fyrir haustið.

Samstarf stjórnmálaflokkanna þriggja sem standa að R-listanum stendur nú á brauðfótum. Síðustu daga hafa hver tíðindin á fætur öðrum orðið sem telja verður að sýni glöggt hversu tæpt samstarfið stendur. Eftir að nýr oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn lýsti því yfir í DV í gær, að hann gæti hugsað sér tveggja flokka samstarf í borgarstjórn fyrir lok kjörtímabilsins, er allt opið upp á gátt í borgarmálunum.

Þá ringulreið sem nú ríkir innan R-listans má auðvitað rekja til brotthvarfs Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur úr stóli borgarstjóra um síðustu áramót. Segja má að á þeirri stundu hafi traustið á milli flokkanna þriggja rofnað fyrir alvöru og að ekki sé gróið um heilt ennþá – og raunar fátt sem bendir til annars að þau sár séu enn flagandi.

Vinstrigrænir sárreiðir

Vinstrigrænir í Reykjavík héldu því fram í Morgunpósti sínum í gær að stokka þyrfti spilin upp á nýtt í R-listasamstarfinu. Var því haldið fram að Þórólfur Árnason, borgarstjóri, drægi taum Samfylkingarinnar í samstarfinu og væri þannig ekki sameiginlegur borgarstjóri flokkanna þriggja. Mikil andúð virðist ríkja milli Samfylkingarfólks og vinstrigrænna eins og lesa hefur mátt t.a.m. á Múrnum í greinum Ármanns Jakobssonar, eins af framámönnum VG í Reykjavík.

Framsóknarmenn virðast heldur ekki vera neitt ýkja sáttir, þótt þeir hafi ekki eins hátt um það og hinir. Alfreð Þorsteinsson talar orðið í véfréttastíl um samstarfið í R-listanum og út úr hálfkveðnum vísum hans mætti allt eins lesa að hann gæti hugsað sér að mynda nýjan meirihluta með Sjálfstæðisflokknum í borginni.

Alfreð borinn þungum sökum

Það setur óneitanlega nokkuð sérkennilegt mark á stöðuna að þessa dagana liggur Alfreð undir þungum árásum Fréttablaðsins, sem talið hefur verið heldur hallt undir Samfylkinguna, fyrir meint misferli hjá Sölu varnarliðseigna. Þar hefur verið settur til höfuðs Alfreð enginn annar en Reynir Traustason, sá hinn sami og þefaði uppi afglöp Árna Johnsen á sínum tíma.

Einn viðmælandi Deiglunnar sagði að kremlarlógían segði sér að hér væri um hreina og klára refskák að ræða. Alfreð væri að skapa sér sterka stöðu með flaðrinu við íhaldið en Samfylkingin ætlaði sér ekki að gefa neitt eftir og það sýndi sig með því hvernig Fréttablaðinu væri sigað á Alfreð.

Þetta eru þó auðvitað tómar hugrenningar. Aðrir fjölmiðlar hafa vitaskuld sýnt meintu misferli hjá Sölu varnarliðseigna áhuga og Alfreð Þorsteinsson neitar allri sök í málinu. Enn hefur ekkert komið fram sem sýnir með óyggjandi hætti að hann hafi óhreint mjöl í pokahorninu og ekki verður séð að blaðamennska Fréttablaðsins sé með nokkru móti óeðlileg í málinu.

Útspil Vilhjálms algjör sprengja

Það sem hins vegar setur allt málið í eldfimt samhengi er sú afdráttarlausa yfirlýsing nýs oddvita Sjálfstæðismanna, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, að hann sé reiðubúinn að mynda nýjan meirihluta í borgarstjórn með öðrum stjórnmálaflokki áður en kjörtímabilið er á enda. Reyndar gekk Vilhjálmur svo langt í viðtalinu við DV að segja að R-listasamstarfið væri þegar fyrir bý.

Það má auðvitað segja sem svo að Sjálfstæðisflokkurinn hefði varla frábeðið sér að mynda meirihluta ef upp úr samstarfi R-listans hefði slitnað fyrr á kjörtímabilinu. Hins vegar má halda því fram að Björn Bjarnason hafi verið miklu ólíklegri samstarfsmaður annað hvort vinstrigrænna eða framsóknarmanna í borgarstjórn heldur Vilhjálmur er – þ.e. að andstæðingum Sjálfstæðisflokksins hugnist betur að starfa með Vilhjálmi en Birni.

Afdráttarlaus yfirlýsing Vilhjálms er þannig mjög þung á metunum í hinni pólitísku stöðu og opnar stöðuna þannig alveg upp á gátt.

Í kjölfar þessa hefur eðlilega gripið um sig mikil taugaveiklun innan R-lista flokkanna. Ekki var traustið mikið þeirra á milli eftir lætin í kringum brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar og nú hlýtur það að vera alveg við frostmark.

Samfylkingarmenn í Reykjavík standa frammi fyrir því að hvorir tveggja framsóknarmenn og vinstrigrænir gætu slitið R-lista samstarfinu og myndað nýjan meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Hvorugur þessara flokka telur sig skuldbundinn á nokkurn hátt gagnvart Samfylkingunni eftir það sem á undan er gengið.

Sárindi vinstrigrænna eru hugsanlega enn meiri í ljósi þess að flokkurinn fór ekki vel út úr alþingiskosningum og kenndi forysta hans Samfylkingunni um það. Möguleikinn á því að vinstrigrænir reyni að komast til áhrifa í Reykjavík í tveggja flokka samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn eru því raunhæfir, enda myndi slíkt styrkja flokkinn á landsvísu – einkum og sér í lagi ef þeir fengju borgarstjórastólinn.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sagði einmitt í áðurnefndu viðtali að ekki væri sjálfgefið að sjálfstæðismenn færu fram á borgarstjórastólinn í hugsanlegu samstarfi við annan flokk í borginni. Vissulega má álykta sem svo, sérstaklega út af vináttu Vilhjálms og Alfreðs, að nærtækast væri að stjórnarflokkarnir næðu saman um nýjan meirihluta í borginni. Það styrkir hins vegar stöðu Vilhjálms og veikir jafnframt R-listans, að raunverulega eru vinstrigrænir allt eins líklegir til að freista samstarf við sjálfstæðismenn.

Hvað gerist næst?

Það er svo aftur önnur spurning hvaða áhrif slík meirihlutaskipti hefðu á flokkanna og gengi þeirra við næstu borgarstjórnarkosningar. Ekki er víst að Sjálfstæðisflokkurinn gæti þannig gert jafn sterkt tilkall til meirihlutakosningar og hann hefur áður gert – ef hann hefði þegar verið í samstarfi við annan flokk.

Einn ágætur sjálfstæðismaður sem Deiglan ræddi við orðaði þetta þannig að hugsanlega kæmi sér best fyrir Sjálfstæðisflokkinn að sitja hjá á meðan R-lista samstarfið liðaðist í sundur að sjálfu sér.

Hvað sem úr verður er ljóst að þreifingar forystumanna flokkanna í borginni á bakvið tjöldin á næstu dögum og vikum gætu skipt sköpum um hvort núverandi meirihluti haldi áfram völdum eða hvort nýr taki við. Hvort tveggja virðist vera í spilunum.

Borgarstjórn Reykjavíkur er nú komin í sumarfrí og spurningn er sú hvort óbreytt lið mætti til leiks að loknu hléi.