Heldur stjórnin velli?

Nú þegar aðeins fimm dagar eru þar til kosið verður til alþingis ríkir mikil óvissa um niðurstöðuna. Aðalspurningin er sú hvort stjórnin haldi velli.

Ef marka má skoðananakannanir síðustu daga og vikur er afar tvísýnt um hvort ríkisstjórnin heldur velli í alþingiskosningunum 10. maí næstkomandi. Báðir stjórnarflokkarnir hafa gefið mjög eindregið í skyn að þeir hyggist halda samstarfi sínu áfram, fái þeir til þess fylgi, og að sama skapi hafa allir stjórnarandstöðuflokkarnir lýst því yfir að markmiðið sé að fella ríkisstjórnina og mynda stjórn núverandi stjórnarandstöðuflokka. Kostir kjósenda virðast því vera óvenju skýrir nú á lokaspretti kosningabaráttunnar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að mælast með fylgi á bilinu 34-38% en meiri sveiflur eru á fylgi Framsóknar, frá 12% og upp í 19%. Verði niðurstaðan við efri mörkin hjá báðum flokkum heldur ríkisstjórnin örugglega velli.

Stjórnarmyndun – stjórnarkreppa?

Það er mikilvægt að hafa í huga að ef ríkisstjórnin heldur velli þá kemur ekki sjálfkrafa til kasta forsetans um að veita stjórnarmyndunarumboð. Líkt og raunin varð 1999 gætu stjórnarflokkarnir haldið samstarfi sínu ótrauðir áfram og engin ástæða yrði fyrir Davíð Oddsson forsætisráðherra að biðjast lausnar fyrir ráðuneyti sitt. Ef þingmeirihlutinn verður mjög naumur er hugsanlegt að meta þyrfti samstarfið upp á nýtt.

Ef hins vegar stjórnin fellur gæti komið upp mjög erfið staða, hugsanlega stjórnarkreppa. Ef við gefum okkur að stjórnin falli naumlega, Samfylkingin fái um 30% atkvæða, Vinstri grænir og Frjálslynir um 10% hvor flokkur, þá vaknar spurning um hver hljóta skyldi stjórnarmyndunarumboð.

Ljóst væri að Samfylkingin hefði ekki unnið neinn sigur að ráði með því að bæta við sig 3% frá afhroðinu 1999. Vinstrigrænir væru í raun ekki heldur að vinna sigur, hugsanlega þvert á móti. Frjálslyndir yrðu þá sigurvegarar kosninganna, þótt þeir yrðu hugsanlega minnsti þingflokkurinn.

Kæmi þá til kasta forsta Íslands, Ólafs Ragnar Grímssonar, fyrrverandi formanns Alþýðubandalagsins, við stjórnarmyndunarferlið. Það hlyti að verða mikil freisting fyrir Ólaf Ragnar, sem hálfgerða ljósmóður Samfylkingar íslenskra vinstrimanna, að fela Össuri Skarphéðinssyni að mynda nýja ríkisstjórn.

Og líklega yrði það eðlilegasta niðurstaðan ef stjórn félli á annað borð. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst yfir eindregnum viljum sínum til að mynda tveggja flokka stjórn að loknum kosningum. Ef stjórnin fellur yrði það aðeins gert með ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar – en það verður að teljast heldur ólíkleg niðurstaða.

Sjálfstæðisflokkurinn gæti hugsanlega myndað þriggja flokka stjórn með Framsókn og annað hvort Vinstrigrænum eða Frjálslyndum. Eðlilegasta niðurstaðan er auðvitað sú, fari kosningarnar þannig að stjórnin fellur, að núverandi stjórnarandstöðuflokkar myndi nýja ríkisstjórn.

Mikil hreyfing á fylgi

Þótt skoðanakannanir séu síður en svo samhljóða benda þær allar til að verulega hreyfing sé fylgi flokkanna. Aðal gáttirnar virðast vera milli Samfylkingar og Frjálslyndra, alla vega á landsbyggðinni. Til að mynda er fylgisaukning Frjálslyndra í Norðvesturkjördæmi milli Gallupkönnunar í febrúar og síðustu Gallupkönnunar næstum upp á prósentustig hin sama og fylgistap Samfylkingar í sama kjördæmi.

Framsóknarflokkurinn er í sókn á höfuðborgarsvæðinu og er einnig að endurheimta eitthvað af fylgi sínu úti á landi. Fylgi Vinstrigrænna er ótrúlega stöðugt, alveg um 10% í könnun eftir könnun, og eins virðist ákveðin festa komin í fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Hafa verður í huga að Sjálfstæðisflokkurinn mælist oftar en ekki hærri í könnunum en í raunin verður í kosningum. Eins verður að hafa hugfast að fylgi „spútnikframboða“, eins og Frjálslynda flokksins, hefur tilhneigingu til að dala á síðustu dögunum fyrir kosningar. Nægir að benda á Bandalag jafnaðarmanna, Kvennalistann, Borgarflokkinn og Þjóðvaka, en tvö síðastnefndu framboðin fengu 4-5% minna fylgi í kosningum en kannanir viku fyrr höfðu bent til.

Af reynslunni úr borgarstjórnarkosningum að dæma má gera ráð fyrir að Samfylkingin bæti við sig fylgi í síðustu vikunni. Talsmaður flokksins lét hafa það eftir sér í gær að það yrði mikill sigur ef flokknum tækist að ná 30% fylgi í kosningunum. Þetta minnir óneitanlega á aðdraganda síðustu kosninga þegar talsmenn Samfylkingarinnar voru sífellt að setja ný viðmið um hvað teldist sigur, eftir því sem nær dró kosningum. Það hljóta þó að verða Samfylkingunni mikil vonbrigði að ná aðeins að bæta við sig 3-4% með vonarstjörnuna Ingibjörgu Sólrúnu í fararbroddi.

Einnig er hefð fyrir því að Framsóknarflokkurinn bæti við sig á lokasprettinum. Svo virðist vera sem massíf auglýsingaherferð flokksins nái að sópa upp lausafylgi sem ekki hefur gert upp hug sinn eða ekki er byrjað að hugsa út í kosningarnar fyrr en í síðustu vikunni.

Ræðst á síðustu stundu

Það mun ráðast á síðustu klukkustundum kosningabaráttunnar hvort ríkisstjórnin heldur velli eða ekki, þar gætu örfá hundruð eða jafnvel tugir atkvæða skipt máli. Einkum verður spennandi að fylgjast með á landsbyggðinni þar sem þingsæti gætu verið að ráðast á örfáum atkvæðum – þingsæti sem hugsanlega myndu breyta allri stóru myndinni, hvort stjórnin héldi velli eða ekki.