Sendum krakkana bara í leikhús

Því miður snýst pólitík að mestu um hvað gera skuli við peningana sem „frúin í Hamborg“ gaf. Yfirvöld Reykjavíkurborgar virðast hafa misskilið leikinn, það má nefnilega segja já þegar kemur að menningu og nei þegar kemur að leikskólum og börnum.

Á síðasta ári var Reykjavík ein af menningarborgum Evrópu. Reykvíkingar voru stoltir af framlagi sínu til menningar og því að í fyrra var Reykjavík menningarlegasta borg í heimi – miðað við höfðatölu. Allt var þetta undir styrkri stjórn Ingibjargar Sólrúnar og R-listans í samvinnu við ríkið.

Samkvæmt ársreikningum borgarsjóðs var á síðasta ári „fjárfest” í menningu fyrir 1.985 milljónir – einn milljarð níuhundruð áttatíu og fimm milljónir. Litlum 133 milljónum umfram fjárhagsáætlun. 1.036 milljónum var varið til reksturs menningar og 949 milljónum til fjárfestinga í menningu. Hvað sem má segja um aðkomu ríkisins að menningarborgarverkefninu eða menningarmálum almennt er ljóst að þessi liður kostaði rúmar 18.000 krónur á hvern einasta íbúa Reykjavíkur ef miðað er við íbúafjölda í upphafi ársins 2000.

Í fyrra kostuðu bruna- og almannavarnir borgarsjóð 323 milljónir, 16% af því sem varið var til menningarmála. Það er blóðugt að á sama tíma kom í ljós að ýmis nauðsynleg björgunartæki voru ekki þar sem þau hefðu þurft að vera og m.a. var karpað um hver hefði átt að kaupa þau.

Borgarsjóður eyddi 2.398 milljónum til reksturs leikskóla borgarinnar og 293 milljónum í fjárfestingar. Þessi liður var uppá 29 milljónir framúr fjárhagsáætlun, til gamans má geta að 29 milljónir eru 4,5 sinnum lægri tala en 133 milljónir. Ætli menningarmálin séu 4,5 sinnum mikilvægari en leikskólamálin í augum borgaryfirvalda?

Þessar tölur vekja ýmsar spurningar. Hvaða máli skipti það okkur að Reykjavík var menningarborg Evrópu? Viljum við frekar líta vel út í kokteilboðum með fínum borgarstjórum frá Bologna og Helsinki en að klippa á borðann í Brúnuborg? Er það mikilvægara að vera mikils metin meðal menningarelítunnar í Evrópu en eiga þakkláta stuðningsmenn úr röðum ungs barnafólks eða einstæðra foreldra?

Þessar spurningar eru meðal þeirra sem við þurfum að spyrja sjálf okkur þegar við íhugum hvort við eigum samleið með R-listanum og Ingibjörgu Sólrúnu.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)