Stefna Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum

Sjávarútvegsstefna Sjálfstæðisflokksins er vond fyrir tvær sakir. Í fyrsta lagi mun hún skaða flokkinn á næstu árum. Í öðru lagi er Sjálfstæðisflokknum mun betur treystandi til þess að taka upp uppboð á veiðiheimildum án þess að láta byggðakvóta og alls kyns takmarkanir á framseljanleika fljóta með.

Nú er nýlokið landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem einkenndist mjög af átökum um sjávarútvegsmál. Á fundinum tókust á tvær fylkingar. Annars vegar voru þeir sem töluðu fyrir fyrningarleiðinni og hins vegar voru þeir sem töluðu fyrir óbreyttu kerfi með málamynda veiðileyfagjaldi. Eins og allir vita kaus að lokum þorri fundarmanna að hafna fyrningarleiðinni.

Sú stefna sem samþykkt var á landsfundinum mun án efa skaða flokkinn á næstu árum. Í gær var sagt frá því í fréttum að formenn allra stjórnarandstöðuflokkanna þriggja hefðu sameinast um tillögur í sjávarútvegsmálum sem byggja á fyrningarleiðinni. Það er engum blöðum um það að fletta að fyrningarleiðin verður eitt að stóru málunum í næstu þingkosningum. Stefnan sem samþykkt var á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins verður þungur baggi að bera í kosningabaráttunni fyrir þær kosningar.

Að mínu mati er nánast óumflýjanlegt að þeim deilum sem staðið hafa um stjórn fiskveiða muni á endanum ljúka með upptöku fyrningar aflaheimilda. Það mun í síðasta lagi gerast næst þegar vinstristjórn kemst til valda. Breytingar á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi sem byggja á niðurstöðu meirihluta endurskoðunarnefndarinnar munu ekki hafa nein áhrif hvað þetta varðar.

Það sem er verst við núverandi stefnu Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum er hins vegar ekki það að stefnan mun skaða flokkinn í kosningum. Flokkurinn hefur staðið annað eins af sér áður. Það sem er verst er að hún mun leiða til þess að flokkurinn mun að öllum líkindum hafa óverulega áhrif á veigamikil útfærsluatriði þessarar mikilvægu breytingar á efnahagsumgjörð þjóðarinnar.

Því miður er miklu meira en bara fyrning aflaheimilda sem hangir á spýtunni. Þegar stjórnarandstöðuflokkarnir tala um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu tvinnast fyrning aflaheimilda alltaf saman við sérstakar aðgerðir til þess að tryggja stöðu hinna ýmsu byggðalaga, takmarkanir á framseljanleika aflaheimilda, takmarkanir á stærð útgerðarfyrirtækja og margt fleira sem alls enginn fengur er í.

Til þess að koma í veg fyrir alls kyns rugl af þessu tagi er mikilvægt að það sé Sjálfstæðisflokkurinn en ekki núverandi stjórnarandstöðuflokkar sem sér um að fyrningu aflaheimilda sé komið á hér á landi.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.