Gleðibankinn

GleðibankinnSöngkeppni evrópskra ríkissjónvarpsstöðva fer fram í kvöld. Landinn er orðinn trylltur og verður væntanlega á yfirdrætti í Gleðibankanum. Á morgun kemur svo að skuldadögum og menn bölva öðrum þjóðum Evrópu fyrir fáránlegan tónlistarsmekk.

GleðibankinnSíðan Icy tríóið flutti Gleðibankann í keppninni árið 1986 hefur þessi keppni haldið þjóðinni hugfanginni. Misjafnlega þó, en núna er stemmningin sem aldrei fyrr. Líklega á það sinn þátt að Birgitta Haukdal hefur heillað fólk með söng sínum og fasi á síðustu árum. Einnig hefur Ríkissjónvarpið lagt mikið í kynningu og undirbúning keppninnar.

Miklu er til kostað að gera keppnina sem glæsilegasta. Nú hefur um sextán manna hópur verið í Riga í viku í undirbúningi. Fyrir utan Birgittu sjálfa eru fimm aðrir tónlistarmenn, höfundur lagsins og ein tískulögga til að halda uppi aga í fataskápum íslenska liðsins og gæta þess að enginn verði ógirtur eða í hvítum sokkum á sviðinu. Með í för eru svo tveir sérlegir aðstoðarmenn án sérgreinds hlutverks, samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu, þó líklega til að veita andlegan stuðning. Auk þessa vaska hóps eru ekki færri en fimm starfsmenn ríkisúrvarpsins í för með hópnum. Þar ef er einn fyrirliði hópsins og tveir þulir.

Samkvæmt upplýsingum frá RÚV er kostnaður íslenska ríkisútvarpsins vegna þátttöku í keppninni ekki undir tuttugu milljónum króna, dýrt spaug það. Það er nefnilega eðli keppninnar sem vekur upp ýmsar spurningar. Hún er ætluð ríkissjónvarpsstöðvum. Það þýðir að fæstir hafa val um hvort þeir vilja taka þátt í kostnaðinum við þátttökuna. Í það minnsta eru þau 34% íslensku þjóðarinnar sem greiða afnotagjöld ekki spurð álits.

Auðvitað er keppnin skemmtileg og skapar skemmtilega stemmningu. Sérstaklega fyrir antisportista, sem fá einu sinni á ári tækifæri til að rækta þjóðrembuna í kappleik. Stór hluti stemmningarinnar snýst þó um hversu hallærisleg keppnin þykir. Hvaða keppandi er í kjánalegasta búningnum, hallærisleg hárgreiðsla austur-evrópsku keppendanna eða hrognamálið sem ísraelski keppandinn talar. Það má spyrja sig hversu uppbyggilegar umræður þetta eru og hverju það skilar.

Annað sem virðist hafa unnið sér sess í keppninni eru trúðslæti og bjánaskapur. Nú hefur austurríski keppandinn klárlega vinninginn, en hann herjar á markhópinn sem hafði gaman af lögum á borð við Hadde Wadde Dudde Da frá Þýskalandi og Húbba-Húlle laginu frá Ísrael. Ég þykist viss um að austurríska ríkissjónvarpið eyðir ívið meiri fjármunum í þátttökuna en hið íslenska og grunar að þar í landi kunni einhverjir að gera athugasemdir við fjárfestinguna. Aðrir þátttakendur virðast hafa það að markmiði að hrista upp í evrópskum almenningi og jafnvel hneyksla. Páll Óskar Hjálmtýsson sagði að það væri eitt af markmiðum hans með þátttökunni og nú virðist rússneski dúettinn t.A.T.u. ætla að halda uppi merkinu.

Keppnin getur verið ágætis skemmtun, en þó virðist það vera umgjörðin sem áhorfendur búa sjálfir til vera það sem skapar mestu stemmninguna. Ég vil því stinga upp á að ríkissjónvarpið taki ekki oftar þátt í keppninni, en sýni frekar frá gömlum keppnum einu sinni á ári. Það yrðu miklu skemmtilegri Eurovision-partý ef fólk fengi að sjá gömlu „góðu” lögin aftur. Svo yrði Stöð 2 eða Skjá einum látið eftir að taka þátt í keppninni, nema þá að ríkissjónvarpinu yrði gefið frelsi… Góða skemmtun!

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)