Ótrúleg (skelfileg) velgengni Frjálslyndra

Ekki er langt síðan flestir töldu að dagar Frjálslynda flokksins væru taldir. Nú mælist hann hins vegar með svipað fylgi og Framsókn og Vinstri-grænir. Að svo komnu máli er nauðsynlegt athygli kjósenda sé vakin á þeim skelfilegu afleiðingum sem stefna þeirra myndi hafa í för með sér.

Fyrir nokkrum vikum voru fáir sem gáfu Frjálslynda flokknum nokkurn gaum. Flestir voru nokkuð vissir um að 5% reglan í hinum nýju kosningalögum myndi gera það að verkum að flokkurinn næði ekki manni á þing. Nú er öldin önnur. Frjálslyndi flokkurinn mælist með umtalsvert fylgi og allt bendir til þess að þingstyrkur hans eftir kosningar verði svipaður og þingstyrkur Framsóknarflokksins og Vinstri-grænna. Í ljósi þessa er við hæfi að stefna flokksins sé skoðuð eilítið nánar en áður.

Það hefur vart farið fram hjá neimum að stór hluti þjóðarinnar telur að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi sé óréttlátt. Gríðarleg umræða hefur farið fram um þetta mál í mörg ár. En það er fyrst í þessum kosningum sem það hefur orðið að einu allra stærsta kosningamálinu. Ástæða þessa er án efa sú staðreynd að á síðustu fjórum árum hafa komið fram vel úthugsaðar hugmyndir um nýtt kerfi sem, ef útfært skynsamlega, gæti orðið bæði hagkvæmara og réttlátara en núverandi kerfi. Þetta eru hugmyndir um fyrningu aflaheimilda og uppboð á fyrntum aflaheimildum.

Fyrir þau okkar sem höfum barist fyrir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu með það fyrir augum að búa til nýtt kerfi sem væri bæði hagkvæmara og réttlátara er velgengni Frjálslynda flokksins á síðustu vikum hin versta martröð. Gæti það virkilega gerst að öll þessi barátta muni enda með því að nýr sérhagsmunaflokkur sigri í kosningum og innleiði enn verra kerfi en við búum við í dag? Þá væri verr af stað farið en heima setið.

Frjálslyndi flokkurinn vill einn flokka afnema kvótakerfið, eða „kvótabraskkerfið” eins og hann kallar það, og taka þess í stað upp sóknarmarkskerfi. En það sem meira er þá er hann einnig eini flokkurinn sem vill banna allt framsal á veiðiheimildum.

Frjálst framsal á veiðiheimildum er grundvallarforsenda hagkvæmni í sjávarútveginum. Ef framsal á veiðiheimildum væri bannað myndi það gera það að verkum að ágóði okkar Íslendinga af auðlindinni myndi minnka verulega þegar fram líða stundir. „Athafnafrelsi og frelsi í viðskiptum eru undirstöðuatriði í framfarasókn þjóðarinnar,” svo vitnað sé í stjórnmálayfirlýsingu Frjálslynda flokksins. Sú stefna flokksins að ætla að banna framsal á veiðiheildum myndi grafa verulega undan framfarasókn þjóðarinnar á næstu áratugum.

Einn helsti kostur þess að fyrna aflaheimildir og bjóða fyrntar aflaheimildir upp er að slíkt kerfi leiðir til mun virkari markaðar með aflaheimildir og ýtir því undir aukna hagkvæmni í greininni. Núverandi kvótamarkaður er afskaplega ófullkominn. Þetta sést best á því að kvótaverð er í engu samræmi við raunverulegt virði aflaheimildanna. Það er allt of hátt. Nánast öll sjávarútvegsfyrirtæki í landinu myndu margfalda hagnað sinn ef þau hættu útgerð og leigðu kvótann sinn eða seldu hann og settu afraksturinn inn á bankabók.

Uppboð á veiðiheimildum myndi leiða til þess að verðið á aflaheimildum myndi endurspegla raunverulegt virði þeirra. Eins og Davíð Oddsson hefur bent á þá myndu ekki einu sinni stöndugust sjávarútvegsfyrirtæki landsins ráða við að borga núverandi verð á kvótauppboði. En þar sem sjávarútvegsfyrirtækin munu augljóslega ekki bjóða meira í aflaheimildirnar en þau ráða við að borga mun verðið á aflaheimildum á uppboði vera langtum lægra en það er í dag.

Sú staðreynd að kvótaverðið mun endurspegla raunverulegt virði aflaheimilda ef fyrningarleiðin er farin er helsta ástæða þess að fyrningarleiðin leiðir til aukinnar hagkvæmni í sjávarútveginum. Þeir sem eru óánægðir með núverandi stjórnkerfi fiskveiða ættu því að styðja fyrningarleiðina en ekki það afturhvarf til fortíðar sem Frjálslyndi flokkurinn stendur fyrir.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.