Veldu svo þann sem að þér þykir bestur!

Undanfarnar vikur hefur kosningabarátta stjórnmálaflokkanna orðið sífellt meira áberandi í fjölmiðlum landsins. Auglýsingar, bæði í blöðum og sjónvarpi, greinaskrif og almennur fréttaflutningur af framboðsfundum hafa varla farið fram hjá neinum. Nú eru aðeins tvær vikur í kosningar og því líklegt að öll umfjöllun muni aukast og ná hámarki nokkrum dögum fyrir stóra daginn.

Stjórnmálaflokkarnir, sem í framboði eru, hafa ólíka málefnastöðu og ólíka framboðslista. Það kemur því ekki á óvart að þeir skuli á ólíkan hátt reyna að ná til kjósenda. Það er þó einn flokkur sem hefur beitt annarskonar aðferðum en hinir flokkarnir.

Samfylkingin hefur valið þá leið að leggja ofurmikla áherslu á aðeins einn frambjóðanda. Slíkt er vafalaust að bandarískri fyrirmynd, en í því landi er algengt að stjórnmálaflokkar í framboði reyni að draga alla athygli kjósenda að aðeins einni persónu og fá þá til að samsama sig henni sem best til að afla fylgis þeirra. Þetta hafa önnur framboð hér á Íslandi ekki leikið eftir.

Það er þó ekki aðeins þessi persónudýrkun sem Samfylkingin leggur allt kapp á, sem vekur athygli, heldur hvernig hún er sett fram. Áhugaverðar auglýsingar birtust frá Samfylkingunni um páskanna. Persónan er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri, og hennar helsti kostur er sá að hún er kona.

Auglýsingarnar birtust bæði í sjónvarpi og í dagblöðum. Þar var fyrrum borgarstjóra stillt upp á móti öllum fyrrum forsætisráðherrum landsins. Hún var kynnt, nafnlaust, sem hin litríka kona sem andsvar við öllum svarthvítu karlmönnunum sem sinnt höfðu þessu embætti hér á landi. Fyrirsögn auglýsingarinnar var á þá leið að í vor gætu orðið tímamót í íslenskri stjórnmálasögu. Vafalaust var verið að skírskota til þess möguleika að Ingibjörg gæti orðið forsætisráðherra landsins eftir kosningarnar í vor.

En afhverju velur Samfylkingin þessa markaðssetningu? Getur ástæðan verið sú að málefnastaða hennar sé svo slæma að betra sé að fela hana þessum hætti. En hvað með hina frambjóðendurna? Ingibjörg Sólrún skipar 5. sætið á framboðslistanum í Reykjavíkurkjördæmi norður. Samfylking hefur fjölmarga aðra frambjóðendur á bak við sig. Háð var prófkjör innan Samfylkingarinnar síðasta haust, þar sem bæði konur og menn börðust fyrir sætum sínum á framboðslistum stjórnmálaflokksins. Hvar er þetta fólk nú?

Ástæða þess að fyrrum borgarstjóri er gerður að stjörnu framboðsins liggur væntanlega í því að hún er opinbert forsætisráðherraefni þess. Ingibjörg er vafalaust hæfur frambjóðandi og stjórnmálamaður. Sem borgarstjóri sýndi hún óneitanlega ákveðna leiðtogahæfni og ótvíræða hæfileika til að stjórna borginni ásamt fólkinu sem starfar þar. En hvort Ingibjörg á eftir að fá tækifæri til að setjast í forsætisráðherrastól á eftir að koma í ljós. Það að hún sé kona, óháð öllu öðru, á hins vegar ekki að vera eina forsenda þess að hún fái það tækifæri.

Latest posts by Ingunn Guðbrandsdóttir (see all)