Samkeppnisstaða Háskóla Íslands

Umræðan um fjárveitingu til Háskólastigsins hefur verið áberandi undanfarið.

Ég er einn þeirra sem hef gaman að ritdeilum manna og því hef ég fylgst grannt með umræðum um samkeppnisstöðu Háskóla Íslands á síðustu vikum. Björn Bjarnason hefur sagt að samningar sem gerðir hafa verið við skóla á háskólastigi hafi aukið fjárhagslegt sjálfstæði skólanna. Hann segir jafnframt að reiknilíkanið sem ákvarðar framlag ríkisins til skólanna sé að mestu leiti tilkomið vegna vinnu Háskóla Íslands og hann hafi í raun fengið meira frá ríkinu en skólinn bað um upprunalega.

Rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst tekur að vissu leiti undir þetta því hann segir á heimasíðu skólans að reiknilíkanið sé byggt á óskum HÍ og að það sé hagstætt fyrir fjölmenna skóla á kostnað fámennari skóla. Þannig taki líkanið ekki tillit til þess að á Bifröst fari kennsla fram í litlum hópum á meðan að kennt sé í fimmhundruð manna fyrirlestrum í viðskiptafræðideild HÍ. Þetta eru að vísu ákaflega veik rök því auðvitað myndi Háskólinn bjóða upp á kennslu í fámennari hópum ef hann gæti. Ágúst Einarsson forseti Viðskipta- og hagfræðideildar HÍ segir á vefsíðu sinni að núverandi kerfi, sem fellst í því að allir fá sömu upphæð frá ríkinu óháð því hvar þeir stunda nám sitt, sé ósanngjarnt þar sem einkaskólar innheimti auk þess há skólagjöld.

Staðreyndin er sú að á meðan HÍ neyðist vegna kröfu ríkisvaldsins til að halda uppi kennslu í fámennum greinum þá verður samkeppnisstaða hans slæm. Það er nefnilega rétt að reiknilíkanið tekur ekki tillit til fámennra greina og þess vegna eru það ekki Bifröst eða Háskólinn í Reykjavík sem tapa, heldur HÍ sem til dæmis verður að bjóða upp á námskeið, sérstaklega á sviði hug- og raunvísinda, sem innan við sjö manns sækja.

Háskóli Íslands getur að vísu ekki haldið því fram að hann hafi sjálfkrafa rétt á því að bjóða upp á bestu kennslu sem völ er á. Því miður virðast forsvarsmenn Háskólans ekki vera þessarar skoðunar enda hafa þeir ekki brugðist nægjanlega vel við aukinni samkeppni á háskólastigi. Þetta var til að mynda hluti af gagnrýni forsætisráðherra á Háskóla Íslands í ræðu hans á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Það eru engin rök að segja að ríkið verði að stökkva til svo að Háskólinn geti áfram boðið upp á bestu kennsluna. Það eru heldur engin rök að segja að nemendur í Háskóla Íslands sem ekki greiða fyrir sína menntun eigi einhverja auka kröfu á ríkið umfram þá sem greiða skólagjöld og það er engin ósanngirni fólgin í því að þeir sem stunda nám í einkaskólum njóti góðs af núverandi kerfi. En það eru góð og gild rök að þar sem Háskóli Íslands er knúinn af ríkisvaldinu til að færa fé frá deildum á borð við Viðskipta- og hagfræðideild til fámennari deilda, þá verði ríkið að bregðast við. Ef hægt er að fallast á að allir eigi að hljóta sömu upphæð frá ríkinu, óháð því hvar þeir stunda nám sitt, þá hljóta menn að taka undir kröfur Háskóla Íslands í þessu máli. Nemandi í Viðskipta- og hagfræðideild HÍ hlýtur nefnilega ekki sömu upphæð frá ríkinu og viðskiptafræðinemi í öðrum skólum. Það er vegna innbyggðs galla í annars ágætu kerfi sem vonandi verður lagfært á næstunni.

Ég held þó að ástæða sé til að taka undir orð rektorsins á Bifröst þar sem hann biður Háskóla Íslands að horfa í eigin barm áður en hann ræðst á aðra skóla. Umræðan verður að snúast um aukin gæði menntunar, hvar svo sem hún er fengin.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)