Lýðræðislegi flokkurinn gerir ráð fyrir einhug

Samfylkingin er mjög lýðræðislegur flokkur en í ályktunardrögum var gert ráð fyrir að einhugur ríkti í nokkrum helstu málaflokkunum.

Í dag verður landsfundur Samfylkingarinnar settur á Hótel Sögu. Það er víst óhætt að fullyrða að nokkur vonbrigði hafi einkennt fyrstu starfsár þessa stjórnmálaflokks. Nú virðist sem fylgi Samfylkingarinnar sé vel innan við 20% meðal þjóðarinnar og hafa óþægu börnin úr Alþýðubandalaginu, sem þráuðust við í sameiningarferlinu, markað sér stöðu sem stærsti vinstri flokkurinn á Íslandi, a.m.k. í skoðanakönnunum.

Samfylkingin hefur á heimasíðu sinni birt drög að landsfundarályktunum sínum. Líklegt má telja að ályktanirnar taki einhverjum breytingum í meðferð fundargesta en vafalaust gefa drögin góða mynd af því sem koma skal. Eins og fjallað var um í gær hér á Deiglunni þá leynist margt áhugavert í ályktunardrögum Samfylkingarinnar og ekki snýr það allt að málefnunum því auðvitað er líka fjallað um innri málefni flokksins. Í drögum að stjórnmálaályktun segir m.a.:

Samfylkingin hefur ekki enn sótt það afl til kjósenda sem frjálslynd jafnaðar- og félagshyggja býr yfir meðal landsmanna. Samfylkingin sækir nú styrk og stefnufestu í einhuga landsfund sem hefur veitt forystu sinni skýrt umboð í öllum helstu álitaefnum íslenskra stjórnmála.

Þessi tilvitnun er nokkuð áhugaverð í ljósi þess að jafnvel þótt drögin séu skrifuð og sett fram áður en fundurinn hefst þá er fullyrt að landsfundurinn sé bæði “einhuga” og að hann hafi “veitt forystu sinni skýrt umboð í öllum helstu álitamálum íslenskra stjórnmála”. Hér skrifar augljóslega mikill spámaður því erfitt hlýtur að vera að fullyrða um svo mikla samstöðu í eins lýðræðislegum flokki og Samfylkingin er.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.