Veiru hvað?

Illviðráðanlegar, hafa veirur í gegnum tíðina sótt að mönnum, og ljóst er að sjúkdómar af þeirra völdum, eins og t.d bólusótt og mislingar hafa haft afdrifarík áhrif á gang mannkynssögunnar. Óþekkt veiruafbrigði veldur nú miklu fári víða um heim, faraldri sem e.t.v hefði mátt afstýra.

Ósýnilegar og illviðráðanlegar, hafa veirur í gegnum tíðina sótt að mönnum, dýrum og plöntum og jafnan tekið sinn toll. Veirur eru jafn misjafnar og þær eru margar, og mishættulegar eftir því. Þó er ljóst að sjúkdómar af þeirra völdum, eins og t.d bólusótt og mislingar hafa haft afdrifarík áhrif á gang mannkynssögunnar.

Þrátt fyrir þetta eru ekki nema um 100 ár síðan veirurannsóknir hófust en veirufræðin hefur síðan verið mjög „heitt” svið. Miklar framfarir hafa orðið á þessum tíma, og efnagerð og fjölgunarferli hverrar veiru á eftir annarri greint. Upp úr miðri síðustu öld komu síðan fram bóluefni t.d gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum. Einni veiru, bólusóttarveirunni hefur mönnum tekist að útrýma.

Veirur geta ekki lifað án hýsla, þar sem þær geta ekki fjölgað sér uppá sitt einsdæmi. Þess í stað nýta þær sér búnað þeirrar frumu sem þær sýkja, til að framleiða nýjar veirur samkvæmt sinni forskrift. Þær leita síðan fanga í sama tilgangi og svo koll af kolli. Sú veira sem mest athygli hefur beinst að undanfarin ár er án efa lentiveiran HIV, en um 35 milljónir manna eru taldar smitaðar af henni. Aðrir þekktir sjúkdómar sem veirur valda eru t.d herpes, lifrarbólga, mænusótt, blóðkreppusótt, inflúensa, kvef, hundaæði og bráðahvítblæði svo nokkrir séu nefndir til að gefa hugmynd um hversu víðtæk áhrif þetta form lífvera hefur.

En þrátt fyrir vaxandi þekkingu á veirum, stafar ávallt af þeim ógn þar sem að ný afbrigði af þeim verða stöðugt til með stökkbreytingum. Um þessar mundir veldur ein slík miklum usla víða um heim. Veira, sem nefnd hefur verið á íslensku eftir sjúkdómnum sem hún veldur, heilkenni alvarlegrar og bráðrar lungnabólgu (HABL), breiðist með miklum hraða út um lönd heimsins. Vitað er um u.þ.b 2500 tilfelli sem upp hafa komið í 18 löndum, en nú þegar hafa um 90 látist. Upphaf faraldursins má rekja til Guangdong héraðs í Kína og hafa þarlend stjórnvöld sætt gagnrýni fyrir að hafa ekki fyrr greint frá þeim tilfellum sem þar hafa komið upp síðan 16.nóvember. Frá þessum tíma til loka marsmánaðar höfðu um 1150 smitast og 40 látist í Guangdong héraði einu.

Undir stjórn WHO (World health organization) er á rannsóknarstofum víða um heim unnið sleitulaust að því að greina veiruna. Talið er að hún sé skyld kvefveiru og sé þ.a.l. bráðsmitandi en einnig hefur verið gefið í skyn að veiran sé mögulega skyld klamydíuveirunni og því gæti verið um samruna ólíkra veira að ræða. Flest er enn á huldu og ekki sér fyrir endann á faraldrinum. Jafnvel á Íslandi eru menn í viðbragðsstöðu, enda fullt tilefni til, en sjúkdómurinn hefur nú verið felldur í flokk tilkynningaskyldra sjúkdóma og gripið hefur verið til ráðstafana á sjúkrahúsum.

Af tilvikum sem þessu má læra mikilvægi réttra vinnu- og viðbragða þegar minnsti grunur um faraldur vaknar. Hefði ugglaust mátt hefta útbreiðslu veirunnar verulega eða jafnvel að öllu leyti, hefði rétt verið tekið á málum í Kína. Þar var hinsvegar farið leynt með fregnir af faraldrinum í fyrstu og samstarfi stjórnvalda við WHO hefur verið mjög ábótavant. Í dag er öllum þekktum ráðum til varnar útbreiðslu beitt, og vonandi finnast brátt gagnleg lyf til meðferðar, eða bóluefni til forvarnar, þannig hægt verði að ráða niðurlögum veirunnar áður en fleiri mannslífum verður stefnt í hættu.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.