Enski boltinn

Arsenal og Manchester United eru jöfn að stigum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir leiki gærdagsins. Newcastle er skammt undan í þriðja sætinu með leik til góða við Everton í kvöld og á botninum eru hlutirnir að skýrast.

Leikmenn og stuðningsmenn Manchester United hafa kvartað sáran yfir fjölda hádegisleikja í vetur. En þegar erkifjendurnir frá Liverpool komu í heimsókn í gær var ekki að sjá að það hefði nokkur áhrif á United. Hollendingurinn Ruud van Nistleroy skoraði tvívegis af punktinum og mörk frá Ryan Giggs og Ole Gunnari Solskjær innsigluðu stærsta sigur United á Liverpool í 50 ár.

Þetta var erfiður leikur fyrir liverpool sem missti fyrirliðann Sami Hyypia af velli á 5. mínútu. Liðið er sem stendur í fimmta sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir Chelsea og þarf að taka á öllu sínu til að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á komandi leiktíð.

Leikmenn United virðast hins vegar vera fullir sjálfstrausts enda liðið að toppa á besta tíma. Framundan eru stórleikir við Real Madrid í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar, sá fyrri á þriðjudagskvöld og á laugardag fara þeir í heimsókn til Newcastle. Komist United yfir þann hjalla má ætla að sjálfstraust þeirra sé með allra mesta móti þegar liðið mætir Arsenal. Sá leikur mun að öllu líkindum ráða úrslitum um það hvort þeirra hlýtur titilinn í vor.

Arsenalvélin hefur hikstað að undanförnu, síðast í jafnteflisleik við Aston Villa. Arsenal heldur þó efsta sæti deildarinnar á markahlutfalli. Þótt enginn efist um getu leikmanna Arsenal þá hafa þeir ekki verið sannfærandi í undanförnum leikjum. Ef til vill er skýringin fólgin í of miklu sjálfstrausti en þjálfarinn Arsene Wenger hefur ýtt undir það með hæpnum fullyrðingum. Arsenal er þó ennþá í góðri stöðu til að halda titlinum í vor.

Staðan á botni deildarinnar er ekki síður spennandi. Sunderland er í neðsta sætinu og mun að öllum líkindum leika í 1. deild að ári eins og West Bromich sem er í næst neðsta sæti. West Ham er sem stendur í þriðja fallsætinu en önnur lið eru skammt undan. Gera má ráð fyrir einhverjum sviptingum í þeim 6 umferðum sem eftir eru.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)