HRD. 3. apríl 2003, mál nr. 168/2002

Í gær féll í Hæstarétti dómur í máli nr. 168/2002, Ákæruvaldið gegn S og K. Í málinu var ákært fyrir manndráp af gáleysi auk brots á reglum um daggæslu barna í heimahúsum. Sakfellt var fyrir bæði ákæruatriði.

Í gær féll í Hæstarétti dómur í máli nr. 168/2002, Ákæruvaldið gegn S og K. Í málinu var S ákærður fyrir manndráp af gáleysi auk þess sem bæði voru ákærð fyrir brot á reglum um daggæslu barna í heimahúsum. Þau höfðu haft allt upp í 26 börn í gæslu samtímis en höfðu einungis leyfi fyrir 11.

S og K ráku dagheimili fyrir börn að heimili sínu í Kópavogi. Drengurinn X var einn þeirra barna sem hjónunum hafði verið falið að gæta og var S í málinu gefið að sök að hafa hrist drenginn svo harkalega að hlaut verulega áverka sem leiddu til dauða hans tveimur dögum síðar. Í kjölfar dauða drengsins fóru af stað ítarlegar rannsóknir réttarmeinafræðinga. Niðurstöður þeirra rannsókna fylgdu krufningarskýrslu sem lögð var fram í málinu. Í ljósi niðurstaðanna var talið að X hefði látist af svokölluðu “Shaken Baby Syndrome”

Í málinu lágu fyrir tvær umsagnir læknaráðs þess efnis að harkalegur hristingur hefði ollið dauða drengsins. Eftir sakfellingu S í héraðsdómi aflaði S álitsgerða erlendra sérfræðinga sem hann lagði fyrir í Hæstarétti. Þar komu fram ýmiss konar tilgátur, staðhæfingar og vangaveltur um dánarmein drengsins. Álitsgerðir þessar voru lagðar fyrir læknaráð en talið var útilokað, með hliðsjón af öllum gögnum málsins, að aðrar orsakir hefðu orðið valdandi að dauða X en það sem kallað er “Shaken Baby Syndrome”. Enginn annar en S hafði umgengist drenginn á þeim tíma sem talið að var að hann hefði hlotið áverkana og því sannað að hann væri sekur að dauða X.

S var í héraðsdómi dæmdur til að sæta fangelsisvist í 3 ár. Sá dómur var færður niður í 18 mánaða fangelsisvist í Hæstarétti. Vísað var til þess að meðferð S á barninu verið slík, að hann hefði mátt gera sér grein fyrir þeim hættulegu afleiðingum, sem henni gætu verið samfara, og því hefði hann sýnt af sér stórfellt gáleysi, sbr. 215. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar S var litið til þess að hann hefði tekið að sér umsjá X og brugðist þeim sérstöku trúnaðarskyldum, sem á honum hvíldu. Einnig var vísað til þess að S hefði ekki haft fulla stjórn á gerðum sínum vegna þess gífurlega álags, sem á honum hvíldi, þar sem 21 barn var í daggæslu á heimilinu þennan dag og K langt gengin með barn.

Í vitnisburði S og K fyrir héraðsdómi kemur fram að þau hafi vísvitandi leynt eftirlitsmenn Kópavogs þeirri staðreynd að fjöldi barna í dagvistun hjá þeim var langt umfram það sem þeim var heimilt. Börnin hafi verið sett út í vagn bak við hús og gefa hjónin í skyn að eftirlitsaðilar hafi ekki farið í mjög nákvæma skoðun á aðstæðum svo auðvelt hafi verið að leyna þá fjölda barna.

Reglur um fjölda barna á hvern gæslumann eru ekki settar að ástæðulausu. Um er að ræða reglur sem settar eru til að vernda viðkvæman hóp einstaklinga og því nauðsynlegt að eftirlit sé virkt og árangursríkt. Það má velta því fyrir sér hvort rétt hafi verið að taka sérstakt tillit til þess álags sem hvíldi á S við ákvörðun refsingar. S hafði sjálfur komið sér í þetta ástand með lögbroti af ásetningi. Einnig má velta fyrir sér hvort ábyrgð Kópavogsbæjar í málinu hafi þá ekki verið vanmetin. Má ekki telja að með ófullnægjandi eftirliti hafi þeir borið ákveðna ábyrgð á þeim aðstæðum sem í dóminum eru taldar hafa leitt til dauða X?

Sjá einnig um sama mál: Ekkert svigrúm fyrir réttlætið?

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)