Sterkir valkostir fyrir frjálslynda kjósendur

Gott gengi Samfylkingarinnar ætti að teljast fagnaðarefni fyrir frjálslynda kjósendur, jafnvel þá sem hingað til hafa stutt Sjálfstæðisflokkinn. Góð kosning beggja þessara flokka er það sem best mun tryggja að frjálslynd öfl ráði ríkjum í íslenskum stjórnmálum.

Sú landslagsbreyting sem átt hefur sér stað í íslenskum stjórnmálum í vetur hlýtur að teljast góð tíðindi fyrir frjálslynda kjósendur. Aldrei fyrr hafa frjálslynd stjórnmálaöfl mælst með jafn mikið fylgi á Íslandi. Samanlagt fylgi Sjálfstæðiflokksins og Samfylkingarinnar mælist nú milli 70 og 80%. Ef úrslit kosninganna í vor verða á þessa leið er það stórsigur fyrir frjálslynda kjósendur.

Þá verður sú staða komin upp að á Alþingi verða tveir stórir frjálslyndir flokkar og tveir litlir forsjárhyggjuflokkar. Frjálslyndu flokkarnir munu eiga skýlaust tilkall til þess að leiða hverja þá ríkisstjórn sem þeir mynda. Gamla stjórnarmynstrið á vinstrivængnum þar sem forsjáröflin höfðu undirtökin mun heyra sögunni til. Það hlýtur að teljast eftirsóknarverð niðurstaða fyrir frjálslynda kjósendur.

Frjálslyndir kjósendur geta deilt um það hvort Sjálfstæðisflokknum eða Samfylkingunni sé betur treystandi til þess að stjórna á næsta kjörtímabili. Mun mikilvægara er hins vegar að bæði Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hljóti umtalsvert meira fylgi en Framsóknarflokkurinn og Vinstri-grænir.

Það er skammsýni af frjálslyndum kjósendum sem fram að þessu hafa ekki átt annarra kosta völ en að kjósa Sjálfstæðisflokkinn að beina nú spjótum sínum að Samfylkingunni þar sem hún hefur eilítið hoggið að gamla flokknum. Frjálslyndir kjósendur eiga að sjá hag sinn í því að báðum þessum flokkum gangi sem best í kosningunum í vor. Með því er best tryggt að frjálslynd viðhorf ráði ríkjum í íslenskum stjórnmálum.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.