Hvað á að gera í Kunduz?

Hér á Vesturlöndum, og er Ísland þar ekki undanskilið, hafa ýmsir hvatt til aðgerða en síðan orðið til þess að hallmæla þeim þegar í ljós hefur komið að stríðsaðgerðir eru ekkert augnayndi í nærmynd. Ef okkur er alvara með því sem við segjum, þá verðum við einfaldlega að þola ákveðnar hörmungar. Það verður ekki bæði sleppt og haldið.

Óhætt er að fullyrða að stríðsrekstur bandamanna í Afganistan hafi á síðustu tíu dögum náð a.m.k. öðru af markmiðum sínum, þ.e. að koma talibönum frá völdum. Vitaskuld ríkir víða upplausnarástand enda ekki einfalt mál að koma saman landsstjórn á örfáum dögum. Ekki má gera of mikið úr því ástandi, meira að segja stjórnarmyndun á hinu friðsæla Íslandi getur tekið margar vikur. En kannski er erfiðasti hluti herferðarinnar enn eftir og forsmekkinn af þeim kapítula má kannski finna í umsátri bandamanna og Norðurbandalagsins um borginni Kunduz í norðurhluta Afganistans.

Ástandið innan borgarveggjanna er óttalegt, ef marka má fregnir í fjölmiðlum. Borgarbúar vilja vitaskuld koma sér burt og afganskir hermenn talibana vilja gefast upp, enda vita þeir að baráttan er töpuð. En innan borgarveggjanna eru líka þúsundir málaliðar Al Qaeda-samtakanna, og þeir njóta engrar samúðar. Því fleiri sem flýja borgina, því mun nær eru málaliðarnir skapadægrinu. Þeir hafa því brugðið á það ráð að myrða alla Afgana sem svo mikið sem velta því fyrir sér að gefast upp; félaga sína og trúbræður. Ofsi og geðveiki þessara aðila er nákvæmlega það sem herförinni er stefnt gegn; þetta er ofsinn og geðveikin sem einnig birtist í hryðjuverkunum 11. september.

Innrás í borgina veit á ekkert annað en hryllilegt blóðbað. Hugsanlega væri hægt að fara rússnesku „Grozný-leiðina“ og jafna borgina við jörðu í sprengiregni, en hið upplýsta vestræna samfélag myndi aldrei sætta sig við slíkt. Bandaríkjamenn hafi gefið skýrt til kynna að þeir muni ekki sætta sig að samið verði um að hleypa málaliðunum úr borginni. Telja verður líklegt að umsátrið haldið einfaldlega áfram og að ástandið í borginni muni versna stöðugt. Hugsanlega munu fleiri falla í Kunduz en í öllu stríðinu hingað til. Og svo er Kandahar næst.

Lokastig herfararinnar í Afganistan mun því vafalítið verða mun blóðugra en fyrri stig hennar. Blóðsúthellingar og aðrar hörmungar eru það sem gerir stríð í raun og veru að þeim afarkosti sem það á að vera. Ef menn eru ekki tilbúnir að úthella blóði, sínu eigin og annarra, hafa þeir ekkert í stíð að gera, og þeir, sem halda að hægt sé að heyja stríð með öðrum hætti, eru haldnir alvarlegum ranghugmyndum. Hér á Vesturlöndum, og er Ísland þar ekki undanskilið, hafa ýmsir hvatt til aðgerða en síðan orðið til þess að hallmæla þeim þegar í ljós hefur komið að stríðsaðgerðir eru ekkert augnayndi í nærmynd.

Ef okkur er alvara með því sem við segjum, þá verðum við einfaldlega að þola ákveðnar hörmungar. Það verður ekki bæði sleppt og haldið.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.