Meiðandi mynd

Í kjölfar ólögmætrar handtöku á ungum manni sem hafði einungis það til saka unnið að hafa tekið ljósmynd af lögreglumanni inn á skyndibitastað var ljósmyndin birt á vefnum og lögreglumaðurinn nafngreindur.

Lögreglumaður í Reykjavík hefur verið leystur undan vinnuskyldu vegna rannsóknar á atferði hans helgina 8.-9. mars. Meðal annars á lögreglumaðurinn að hafa handtekið ungan mann fyrir að taka ljósmynd af sér inn á skyndibitastað en hann hafði áður beðið ljósmyndarann um að láta það vera. Í kjölfar handtökunnar og kæru á hendur lögreglumanninum var umrædd mynd birt á vefnum og lögreglumaðurinn nafngreindur.

Það er eðlilegt að menn biðjist undan myndatöku og sjálfsögð kurteisi að verða við slíkri kröfu. Það var því í fínu lagi hjá lögreglumanninum að fara fram á það. Ef hann hefði látið myndatökuna yfir sig ganga þá hefði hann lítið getað gert meira við myndatökunni og birtingu myndarinnar. Þrátt fyrir að sjónarmið um friðhelgi einkalífs vegi sífellt þyngra í íslensku þjóðfélagi verður almennt ekki talið að nokkur maður eigi skilyrðislausan rétt til að banna myndatöku og hvers kyns birtingu myndar af sér. Birting myndar er að jafnaði leyfileg ef hún telst ekki ósæmileg fyrir viðkomandi einstakling, verður réttlætt frá almennum sjónarmiðum um tjáningarfrelsi og telst eiga eitthvað erindi við almenning.

Þannig að bann við birtingu myndar verður að byggjast á sérstökum og tilteknum ástæðum og rökum varðandi friðhelgi einkalífs. Eftir handtökuna og kæru viðkomandi á hendur lögreglumanninum eru slík sjónarmið kominn upp. Þá er myndin ekki lengur af lögreglumanni sem er staddur inni á skyndibitastað heldur af lögreglumanni sem hefur verið kærður fyrir ólögmæta háttsemi í starfi og sætir rannsókn. Það leikur enginn vafi á því að maður sem hefur verið kærður eða ákærður fyrir refsiverða háttsemi nýtur friðhelgis sem er rétthærri en tjáningarfrelsi þeirra sem vilja bera kæruna á torg. Nafnbirtingin er síðan algjörlega óforsvaranleg.

Mynd- og nafnbirtingar af viðkomandi lögreglumanni fela því líklega í sér brot á friðhelgi einkalífs lögreglumannsins sem getur varðað við XXV. kafla almennra hegningarlaga um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Þess ber að geta að birting í vondri trú er nægjanleg þ.e. að viðkomandi megi gera sér grein fyrir því að upplýsingarnar eða myndirnar séu ósæmilegar eða að þær feli í sér brot á friðhelgi einkalífs í því samhengi sem þær eru. Það skiptir ekki máli hvort einhver fari fram á að myndin eða upplýsingarnar séu fjarlægðar eða að myndin eða upplýsingarnar séu fjarlægðar þegar um það er beðið. Það er alltaf komið fram fullframið afbrot.

Þess ber einnig að geta að það skiptir ekki máli í þessu samhengi hvort myndin var geymd á vélbúnaði birtingaraðila eða einhvers staðar úti bæ. Myndin sjálf er sárasaklaus ein og sér. Hins vegar gegnir öðru máli um tengil á myndina ásamt upplýsingum um atburðinn og lögreglumanninn á myndinni þ.á.m. nafnið á honum. Í því samhengi er tengillinn ólögmætur og felur í sér birtingu á persónuupplýsingum sem brjóta friðhelgi einkalífs andlags birtingarinnar.

Þetta er einkar óheppileg staða fyrir kæranda þar sem hann er í fullum rétti varðandi handtökuna. Hann virðist hafa verið handtekinn vegna brots á 19. gr. lögreglulaga sem segir að almenningi sé skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri. Það liggur í augum uppi að fyrirmæli lögreglunnar um að taka ekki ljósmynd af sér inn á skyndibitastað fullnægir ekki þeim kröfum sem koma fram í greininni. Viðkomandi lögreglumaður mun því líklega þurfa að gjalda fyrir háttsemi sína.

Það er alltaf gremjulegt þegar lögreglumenn misnota þau miklu völd sem þeim eru falin og níðast á borgurunum. Í þessu tilviki mun viðkomandi lögreglumaður líklega fá makleg málagjöld og því algjör óþarfi fyrir kæranda og félaga hans að fara niður á sama plan með því að brjóta á réttindum hans, hvort sem það er viljandi eður ei.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.