Óskarinn

Óskarsverðlaunin voru afhent í sjötugastaogfimmta skipti í nótt. Stríðið í Írak setti svip sinn á hátíðahöldin, sem voru í lágstemmdara lagi þetta árið, en voru þó hin athyglisverðustu bæði fyrir uppátæki verðlaunahafa og óvænt úrslit.

Fyrir tveimur klukkutímum lauk útsendingu frá afhendingu Óskarsverðlaunanna, en þau voru nú veitt í 75. skipti. Stríðið í Írak setti svip sinn á herlegheitin og var um tíma óvíst hvort hátíðinni yrði frestað um sinn vegna átakanna. Ekki varð af því, en rauða dreglinum fræga var pakkað niður og hætt var við síðkjólasýninguna, sem venjulega fylgir uppskeruhátíð bandarískra kvikmyndagerðarmanna.

Óhætt er að segja að kvikmyndaakademían hafi verið í stemmingu fyrir breytingar og óvænt úrslit þetta árið. Hún hefur lengi haft það orð á sér að vera íhaldssöm og því kom það mörgum á óvart þegar alþýðupólitíkusinn og vandræðagemsinn Michael Moore hlaut verðlaunin fyrir heimildarmyndina Bowling For Columbine, þar sem hann fjallar um skotvopnamenningu Bandaríkjamanna og leitar svara við því af hverju svo margir samlanda hans falla fyrir byssukúlum ár hvert. Moore, sem áður hefur notað verðlaunaafhendingar til að koma boðskap sínum á framfæri lét ekki þetta tækifæri úr greipum sínum renna.

Með alla þá sem tilnefndir voru í flokki heimildarmynda í fullri lengd á bak við sig lýsti hann þeirri skoðun sinni að George W. Bush, Bandaríkjaforseti, væri ekki réttkjörinn forseti landsins og að hann væri að leiða þjóðina í stríð við Írak á fölskum forsendum. Ræða Moores vakti hörð viðbrögð hátíðargesta, sem ýmist klöppuðu honum lof í lófa eða púuðu af lífs og sálar kröftum. Var pistilhöfundur lítt hrifinn af framgöngu Moores og þótt þakkarræða Adrien Brodys, sem hlaut verðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki, meira viðeigandi. Í henni sagðist Brody einfaldlega óska þess að stríðinu lyki og að friður næðist sem fyrst.

Þá vakti það athygli að Eminem hlaut verðlaun fyrir besta lag í kvikmynd fyrir lagið Lose Yourself úr kvikmyndinni 8 Mile.

Óvæntustu verðlaunin þetta árið voru þó hiklaust þau sem veitt voru fyrir bestu leikstjórnina. Flestir bjuggust við því að Martin Scorsese ynni þau í þetta skiptið fyrir mynd sína Gangs of New York, enda hefur hann fimm sinnum áður verið tilnefndur til þeirra en aldrei unnið. Aðrir veðjuðu á Rob Marshall, sem almennt er talinn hafa unnið þrekvirki mikið við gerð myndarinnar Chicago. Öllum að óvörum féllu verðlaunin í skaut Romans Polanskis fyrir mynd hans The Pianist, sem ekki hefur stigið fæti á bandaríska grundu frá því að hann var dæmdur árið 1974 fyrir að hafa átt mök við þrettán ára stúlku. Höfðu langflestir spekúlantar afskrifað Polanski af þeim sökum.

Kvikmyndaáhugamenn um heim allan munu skeggræða þessa verðlaunaafhendingu næstu daga og vikur og skammast yfir því að Pétur skyldi hafa fengið verðlaun þegar hverjum hugsandi manni var það augljóst að Páll var miklu betur að þeim kominn – og öfugt. Pistilhöfundur hefði sjálfur viljað sjá The Lord of the Rings fá fleiri verðlaun, Nicolas Cage fá verðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki, Julianne Moore fyrir besta leik í aukahlutverki og Adaptation fyrir besta handrit byggt á áður útgefnu efni, en hann getur lítið við því gert annað en að nöldra yfir kaffibolla með hinum nördunum.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)