Austfirsk (upp)sveifla

Hátíðarstemmning ríkti um liðna helgi um gjörvallt Austurland, en þá var skrifað undir samninga vegna álvers Alcoa í Fjarðarbyggð. Miklir uppgangstímar munu nú fara í hönd fyrir austan og framkvæmdagleðin er ríkjandi. Austfirðingar eru staðráðnir í að sýna hvað í þeim býr.

15. mars síðastliðinn ríkti sannkölluð hátíðarstemmning um gjörvallt Austurland (og sjálfsagt víðar). Þá söfnuðust Austfirðingar saman í íþróttahúsinu á Reyðarfirði, ásamt gestum þ.á.m ráðherrum og þingmönnum, og fylgdust glaðbeittir og spenntir með undirskrift samninga vegna álvers Alcoa í Fjarðarbyggð, upphafi austfirskrar sveiflu.

Í hugum Austfirðinga er a.m.k 20 ára bið á enda og undirskriftin tímamót, sem í kjölfarið má ætla að marki upphaf mikilla framfaratíma. Það skyldi engan undra, enda eru hjólin nú þegar farin að snúast fyrir austan. Þegar hefur verið úthlutað 130 íbúðalóðum, sem mun ásamt áætlaðri úthlutun um 60 iðnaðarlóða nálgast fjórða hundraðið á næstu 2-3 árum. Íbúðarhús eru aftur tekin að rísa, nýjar verslanir eru að opna og hótel eru stækkuð. Verklok viðbygginga og stækkanir grunnskóla á fjörðunum þremur eru í bígerð. Framsýnir Austfirðingar fjölmenna m.a.s á vinnuvélanámskeið og undirbúa sig af kostgæfni til að takast á við nýja tíma.

Í Fjarðarbyggð búa nú um 3100 manns og er áætlað að íbúum muni fjölga um allt að 30% á næstu árum. Um 450 manns munu fá vinnu við álverið og er talið að um 300 önnur störf skapist á Austurlandi. Á Egilsstöðum hefur fyrirtækið sem mun byggja aðrennslisgöng og stíflu í Kárahnjúkavirkjun opnað aðsetur, en áætlanir gera ráð fyrir því að allt að 1000 manns muni vinna hjá fyrirtækinu í tengslum við virkjunina, á meðan að á byggingu hennar stendur.

Á síðustu árum hefur íbúum á Austurlandi fækkað jafnt og þétt um 10%. Líkur eru augljóslega á því að væntanlegar stórframkvæmdir í landshlutanum verði til þess að byggðaþróun verði í fyrsta skipti í langan tíma snúið við, eins og iðnaðarráðherra komst að orði.

Austfirðingum hefur orðið að ósk sinni, og þeir eru ákveðnir í að grípa þetta tækifæri og nýta vel. Bara að Austfirðingar, langleitir af bið og þeirri eymd sem fylgir því að sjá bæjarfélög sín grotna niður, tapi sér ekki í framkvæmdagleðinni, eins og hefur áður komið fyrir hér á landi í kringum stórframkvæmdir. Því að á eftir uppgangstíma kemur loks að tíma jafnvægis og þá er gott að hafa sniðið sér stakk eftir vexti.

Austfirsk hjörtu slá hraðar en þau hafa gert lengi og vonandi verða þessar framkvæmdir til að tryggja blómlegt atvinnulíf og auðugt mannlíf á Austfjörðum.

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.