En hvað svo?

Þó að fátt virðist geta komið í veg fyrir að harðstjóranum Saddam Hussein verði steypt af stóli hafa hvorki Bandaríkjamenn né Sameinuðu þjóðirnar bent á raunhæfar leiðir til að tryggja stöðugleika í Austurlöndum nær.

Þessa dagana er talað um fátt annað á stóru erlendu fréttastofunum en yfirvofandi stríð í Írak og skyldi engan undra. Svo virðist sem ekkert geti komið í veg fyrir stríðið enda er bandaríski kúrekinn George W. Bush harðákveðinn í að frelsa Íraka undan ógnarstjórn Saddams Husseins og engu máli virðist skipta hvort hann fái stuðning Sameinuðu þjóðanna eða ekki. Málið verður klárað.

Þó að Saddam staðhæfi að þjóð hans sé sýnd veiði en ekki gefin eru þeir fáir sem efast um hernaðarlega getu Bandaríkjastjórnar til að gjörsigra Íraka á stuttum tíma. Hins vegar er alls ekki eins líklegt að eftirleikurinn verði eins einfaldur. Markviss uppbygging þarf að eiga sér stað í landinu enda væri til lítils að koma einum harðstjóra frá til að annar geti tekið við. Því líta Bandaríkjamenn til þess að hefja markvissa uppbyggingu í Írak og koma á lýðræðislegu stjórnkerfi til að tryggja stöðugleika á svæðinu. Því miður hafa flestar tilraunir þeirra í slíkri uppbyggingu misheppnast og nægir að nefna tilraunir þeirra í löndum eins og Panama, Haití og Afganistan því til stuðnings.

Brothætt ástand

Írak er margbrotið þjóðfélag. Fjöldi íbúa er um 25 milljónir. Súnnítar og Sjítar fara með stjórn landsins en Kúrdar, sem eru um fjórar milljónir í Írak, hafa ítrekað barist fyrir sjálfstæði sínu á undanförnum áratugum. Þjóðin einkennist af ættbálkum sem hafa mismikil áhrif og hafa stjórnmál landsins mótast nokkuð af innbyrðis deilum meðal þeirra. Saddam hefur haldið landinu undir hæl sínum með öflugu neti embættismanna og með flokkstarfi Baatha-hreyfingarinnar. Því standa Bandaríkjamenn (og Sameinuðu þjóðirnar ef þær taka þátt) frammi fyrir því erfiða vandamáli að leysa upp 400 þúsund manna her og 80 þúsund manna lögreglu, halda aftur af borgarastríði milli ættbálkanna og leysa upp vífeðmt net leynilögreglu Saddams. Einnig má gera ráð fyrir því að Kúrdar í norðurhluta landsins eigi eftir að leggja ríka áherslu á sjálfstæðisbaráttu sína og sækja til þess stuðning frá trúbræðrum sínum í Íran, Tyrklandi og Sýrlandi og að Sjíta-múslimar í Íran, sem hafa beðið í 23 ár, eigi eftir að nota tækifærið og hvetji til byltingar. Við þetta bætist að Írakar kenna Bandaríkjunum um bágan efnahag landsins og eru alls ekki búnir að gleyma hörmungum Persaflóastríðsins þar sem tugir, jafnvel hundruð, þúsunda landsmanna féllu fyrir kúlum bandarískra hermanna.

Sækja Bandaríkjamenn í olíu?

Ráðist Bandaríkjamenn inn í Írak er talið að þeir neyðist til að hafa a.m.k. 100 þúsund hermenn í landinu í 3-5 ár til að tryggja stöðugleika og uppbyggingu þjóðarinnar. Þessu fylgir gríðarlega mikill kostnaður. Þó megi ímynda sér að Bandaríkjamenn vilji nýta olíuauðlindir Íraka til að koma til móts við kostnaðinn, duga þær skammt. Samkvæmt Bandaríkjastjórn kostar 25 milljarða bandaríkjadollara (um 2000 milljarða kr) að halda uppi heraflanum í Írak. Kostnaður við að koma helstu grunnþáttum þjóðfélagsins, s.s. samgöngum og hreinu vatni, í lag er svipaður og þegar uppbygging spítala, mennta- og stjórnkerfisins bætist við má búast að við að heildarkostnaður verði um 100 milljarðar Bandaríkjadala á ári!

Olíuframleiðsla Íraka skilar af sér um 15-20 milljörðum dala á ári en þess má geta að líklegt er að Saddam fyrirskipi eyðileggingu olíuiðnaðarins um leið og hann sér fram á ósigur og komi þannig í veg fyrir að hægt sé að nýta olíuauðæfi Íraka, nema með miklum tilkostnaði.

Stór biti

Þó að fátt virðist geta komið í veg fyrir að harðstjóranum Saddam Hussein verði steypt af stóli hafa hvorki Bandaríkjamenn né Sameinuðu þjóðirnar bent á raunhæfar leiðir til að tryggja stöðugleika í Austurlöndum nær – stöðugleika sem verður brothættari og brothættari. Þó að stríðið sjálft eigi eftir að verða skammvinnt er alveg ljóst að við eigum eftir að finna mikið fyrir fjárhagslegum og stjórnmálalegum áhrifum þess. Enginn efast um hernaðarlegan mátt Bandaríkjamanna en fleiri efast um getu þeirra til að fylgja sigri á Írökum eftir. Gæti verið að bitinn sé jafnvel of stór fyrir stórveldið Bandaríkin?

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.