Öfgar í öndvegi

Í fyrradag felldi Alþingi í fjórða skiptið breytingartillögu Kolbrúnar Halldórsdóttur við lagafrumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Breytingartillaga Kolbrúnar gekk m.a. út á að gera kaup á vændi refsiverð ásamt öðrum öfgakenndum hugmyndum.

Í fyrradag felldi Alþingi í fjórða skiptið breytingartillögu Kolbrúnar Halldórsdóttur við lagafrumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Breytingartillaga Kolbrúnar gekk m.a. út á að gera kaup á vændi refsiverð ásamt öðrum öfgakenndum hugmyndum.

Sá hluti tillögunnar sem snýr að kaupum á vændi er ekki nýr af nálinni og eru kaup á vændi t.d. refsiverð í Svíþjóð og sumum fylkjum Bandaríkjanna. Í Svíþjóð hefur þessi tilhögun ekki gefist vel. Eins og kemur fram í skýrslu nefndar sem dómsmálaráðherra fól að gera tillögur um úrbætur vegna kláms og vændis er sönnunarstaðan þannig að mjög erfitt er að framfylgja lögunum í Svíþjóð. Eina leiðin til að framfylgja þeim er með stórfelldum hlerunum og lögreglueftirliti sem ekki er hægt að réttlæta þar sem um smávægilegt brot er að ræða. Tölfræði Svía er einnig mjög letjandi. Af 91 máli sem kom til kasta sænsku lögreglunnar 1999 vegna vændis voru einungis tvö sem tengdust leynilegu vændi og þau voru bæði felld niður vegna ófullnægjandi sönnunargagna.

Nefndin telur einnig upp í skýrslunni ýmsa sönnunarörðugleika sem Svíar hafa rekist á. Erfitt hefur verið að sanna að kynlífsþjónusta hafi verið veitt gegn endurgjaldi. Brot séu án kærenda og jafnvel þótt þeim sem selja kynlífsþjónustu, oftast vændiskonum, sé skylt að bera vitni þá er þeim ekki skylt að ljóstra upp að þær hafi sjálfar tekið þátt í vændinu þar sem þeim er ekki skylt að koma sök á sjálfar sig. Þá hefur einnig reynst erfitt að hafa upp á vændiskonunum til að bera vitni þar sem þær eru fæstar með fasta búsetu á ákveðnum stað eða skráð símanúmer.

Í skýrslu nefndar dómsmálaráðherra kemur fram að nefndin sé mótfallinn því að gera kaup á vændi refsiverð hér á landi. Til stuðnings máli sínu bendir nefndin á hættuna á að starfsemin fari neðanjarðar en vændi í hvaða mynd sem er hafi í raun verið mjög ósýnilegt á Íslandi og erfitt að koma auga á það. Slík breyting væri því til þess fallin að fela vændi enn frekar og gera enn erfiðara að nálgast seljendur vændis sem oft þurfa virkilega á aðstoð að halda. Nefndin benti jafnframt á hættuna á að vændismiðlarar verði ósnertanlegri en áður þar sem mikilvæg vitni, kaupendur kynlífsþjónustu, fáist ekki til að bera vitni. Nefndin taldi að slíkt ástand yrði ekki til að bæta stöðuna. Í því samhengi benti nefndin sérstaklega á þann sönnunarvanda sem Svíar standa frammi fyrir og hefur ekki enn tekist að leysa.

Það hlýtur að teljast jákvætt að sjónarmið nefndarinnar hafi orðið ofan á en ekki flutningsmanna breytingartillögunnar. Skýrsla nefndarinnar er fagleg, málefnaleg og tiltölulega laus við móðursýkina sem vill oft einkenna þessa umræðu. Tillaga Kolbrúnar er hins vegar gott dæmi um neikvæðar og ómálefnalegar hliðar á umræðunni en refsingar fyrir kaup á vændi var með því allra hóflegasta í tillögu hennar. Samkvæmt breytingartillögunni varðaði það hvern þann sem býður upp á nektarsýningar allt að 4 ára fangelsi. Sömu refsingu skyldi varða að skipuleggja og reka kerfisbundna klámþjónustu gegnum síma eða tölvur! Hvert er umræðan kominn þegar Alþingismenn vilja fara að fylla fangelsi landsins með eigendum nektardansstaða, símatorga og heimasíðna? Höfum við ekki eitthvað betra við plássið að gera?

Það er fagnaðarefni á kosningavori að þingmennirnir okkar héldu haus og tóku skynsama afstöðu í fjórða skiptið gegn þessum öfgum.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.